Hvað ef Seifur, höfuðguð grískrar goðafræði, yrði fluttur af Ólympusfjalli yfir í samtímann og hversdagsleikann vestur í henni Ammríku? Við því fæst svar í sjónvarpsmyndaflokknum KAOS sem hefja mun göngu sína á streymisveitunni Netflix undir lok mánaðarins.
Höfundurinn, Charlie Covell (sem einnig gerði End of the F***ing World fyrir Netflix), leggur út af spurningunni: „Hvað ef konungur guðanna yrði fyrir barðinu á grimmri miðöldrun?“ Seifur óttast sumsé að hann sé að glata mætti sínum og ákveður að reyna sig við dauðlega menn sem honum finnst ógna sér. Í jarðlífinu er hann réttnefndur spaði, auðmaður með gullúr á úlnliðnum sem býr í voldugri villu en er með ofboðslega vondan fatasmekk. Allt í kring leikur óstarfhæf fjölskyldan lausum hala.
Sjálfur Jeff Goldblum fer með hlutverk Seifs.