Kvikmyndir
Jóna Gréta
Hilmarsdóttir
Skýstrókar er ný bandarísk hamfaramynd eftir leikstjórann Lee Isaac Chung og er sjálfstætt framhald af samnefndri mynd frá 1996 sem Jan de Bont leikstýrði. Myndin fylgir „óveðursveiðimönnum“ sem rannsaka hvirfilbylji eða skýstróka í Oklahoma. Það kemur því eflaust einhverjum á óvart að Lee Isaac Chung hafi fyrir þessa spennuþrungnu og mjög svo bandarísku hamfaramynd, leikstýrt hægu og fagurfræðilegu myndinni Minari. Sú mynd segir frá kóreskri fjölskyldu á níunda áratug 20. aldar sem flytur til Arkansas til að hefja nýtt líf. Minari var tilnefnd til sex Óskarsverðlauna og hlaut tvenn, önnur fyrir handrit og hin fyrir leikstjórn.
Myndin Skýstrókar á líklega ekki eftir að skila Lee Isaac Chung mörgum Óskarsverðlaunatilnefningum enda myndi hún frekar vera flokkuð sem afþreying heldur en listamynd þótt munurinn sé ekki alltaf augljós. Myndin er þó ekki laus við alla listræna eiginleika enda hefur kvikmyndaformið verið kallað sjöunda listgreinin. Myndin er skotin á 35 mm filmu og með Panavision-aðdráttarlinsum (e. anamorphic). Lee Isaac Chung ákvað í samráði við tökumanninn Dan Mindel, og aðra í teyminu, að skjóta á filmu þar sem hann taldi að filman myndi fanga litríkt umhverfi Oklahoma best. Það er rétt hjá honum, filman tekur öðruvísi við litunum og umhverfið verður einstaklega fallegt. Litirnir eru ekki drungalegir eins og tíðkast í spennumyndum heldur mjög áberandi. Í myndinni eru til dæmis mörg skot sem sýna þessi grænu stóru landsvæði í Oklahoma og hvernig fagurblái himinninn tekur svo við. Stillur sem sýna þessi skot líta út fyrir að vera teknar úr barna- eða ævintýramynd en ekki spennumynd eins og þessari og það gerir myndina einstaka.
Leikararnir hafa einnig tjáð sig í viðtölum um það hversu gaman það er að skjóta mynd á filmu og segja að takmarkanir sem fylgja filmunni hjálpi þeim að ná sínu besta fram ásamt tökuliðinu. Það sem leikararnir eiga eflaust við með því er að þeim gefast ekki eins mörg tækifæri til að gera mistök enda býður fjármögnun mynda ekki upp á takmarkalaust filmumagn, þeir þurfa því alltaf að vera á tánum og gera sitt allra besta í hverri einustu töku.
Daisy Edgar-Jones leikur aðalhlutverkið, Kate Cooper, veðurfræðing sem hefur gefist upp á því að elta skýstróka eftir hörmulegan atburð mörgum árum áður. Hún virðist hins vegar ekki geta flúið örlög sín og endar í Oklahoma að eltast við og flýja frá stórhættulegum skýstrókum. Í Oklahoma hittir hún kúrekann og samfélagsmiðlastjörnuna Tyler og við tekur gamansöm keppni á milli þeirra um hver sé besti „óveðursveiðimaðurinn“. Keppnin stendur ekki lengi því risavaxinn skýstrókur stefnir á Oklahoma og þau þurfa að vinna saman að því að koma bæjarbúum í skjól.
Glen Powell leikur Tyler en hann hefur verið mjög áberandi í Hollywood síðustu þrjú ár og er eins konar gulldrengur Ameríku um þessar mundir. Líklega kannast einhverjir við hann úr rómantísku gamanmyndinni Alla nema þig (Anyone but You, Will Gluck, 2023), spennumyndinni Þau bestu: Einfari (Top Gun: Maverick, Joseph Kosinski, 2022) eða úr nýju Netflix-myndinni Leigumorðingi (Hit Man, Richard Linklater, 2023). Hann hefur þessa svokölluðu stjörnueiginleika. Hann er ekki einungis fjallmyndarlegur heldur býr hann líka yfir miklum persónutöfrum sem gerir það að verkum að áhorfendur geta ekki hætt að stara á hann. Það er því ekki skrítið að Glenn Powell hafi fengið hlutverk í stórsmellu eins og Skýstrókum.
Daisy Edgar-Jones og Glen Powell standa sig á heildina litið mjög vel og spennan á milli persónanna, Kate og Tylers, er mjög skemmtilegt og gott mótvægi við alvarlegu atburðina sem eiga sér stað í söguheiminum þar sem hvirfilbyljunum fjölgar og þeir stækka. Oft er ýjað að því að þetta sé afleiðing gróðurhúsaáhrifa en hvergi er það þó sagt berum orðum í myndinni. Í einu atriði minnist móðir Kate, Cathy (Maura Tierney), hins vegar á þær hrikalegu öfgar í veðrinu sem orðið hafa og á þá ekki bara við hvirfilbyljina sem Kate og Tyler eru að berjast við. Það er þó aldrei minnst á orsökina og kannski er það líka óþarfi, það fælir ákveðinn hóp frá því að sjá myndina auk þess sem það er óþarfi að mata fólk á upplýsingum.
Skýstrókar lítur út fyrir að vera mjög bandarísk mynd og þá sérstaklega sögupersónan Tyler sem æðir á trukknum sínum með kúrekahattinn og stórt glott á vit ævintýranna. Hins vegar eru atriði í myndinni þar sem greinilega er verið að gagnrýna bandarískt samfélag. Eins og til dæmis atriðið þegar Kate og Tyler eru að vara fólk við því að hættulegur skýstrókur stefni í átt að því. Ein konan í hópnum neitar að hlusta á þau þrátt fyrir að þau séu fagmenn og það kostar hana lífið. En burtséð frá því hvort myndin upphefji eða gagnrýni bandarískt samfélag, eða fjalli um gróðurhúsaáhrif eða alls ekki, þá er um að ræða mjög spennandi kvikmynd sem heldur áhorfendum á tánum allan tímann. Lee Isaac Chung er greinilega mjög fær leikstjóri af því að það virðist ekki skipta neinu máli hvernig mynd hann leikstýrir, allt sem hann snertir verður að gulli.