Ég var að klára bókina Ævintýrið eftir Vigdísi Grímsdóttur en ég hef alltaf haft mikið dálæti á henni, enda er konan tundurdufl í sögusmíð. Ævintýrið er ljúfsár glæpasaga sem er ofboðslega óhugnanleg en um leið sveipuð ótrúlegum töfraljóma, svo úr verður konfektmoli af andstæðum.
Ég er nýlega búin að lesa Móðurást: Oddný eftir Kristínu Ómarsdóttur. Dásamleg sneiðmynd af íslensku bændasamfélagi á síðari hluta 19. aldar, innsýn í föðurvald þess tíma og erfiða stöðu kvenna. Kýrin Ída Pfeiffer var í miklu uppáhaldi en samtöl hennar við Oddnýju fara fram á færeysku. Hvernig dettur Kristínu þetta í hug? Þetta er dásamlegt. Bravó!
Ég er að lesa bókina Women Who Run with the Wolves: Myths and Stories of the Wild Woman Archetype eftir dr. Clarissa Pinkola Estés sem er valdeflandi lestur fyrir allar konur um að finna neistann innra með sér sem hefur verið kæfður í karllægri veröld. Gott að taka þessa í smáskorpum.
Ég er líka að lesa smásagnasafnið Haltu kjafti og vertu sæt eftir danska rithöfundinn Vita Andersen frá 1981. Ég man eftir að fela mig bak við sófa með hraðan hjartslátt á Bókasafni Suður-Þingeyinga þegar ég var 13 ára gömul og stelast til að lesa hana. Smásögurnar segja frá óhamingjusömum konum. Kynlíf er notað sem kúgunartæki og tilvistarvanda kvennanna er lýst af raunsæi.
Ég er alltaf með ljóðabók innan handar. Það er gott að grípa í ljóð til að seðja sárasta lestrarhungrið. Ég var að ljúka við Meðan glerið sefur eftir Gyrði Elíasson. Hann hefur ótrúlegan hæfileika til að nálgast hversdagslegustu hluti á óvanalegan hátt og ljá þeim einhvern óútskýranlegan ljóma.
Uppáhaldsbókin mín er og verður eflaust alltaf er Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson. Það gerðist eitthvað innra með mér þegar ég las þessa bók í fyrsta sinn. Ást og örvænting sem og tilvistarspurningar um sekt og ábyrgð rista svo djúpt að ég gæti gólað. Það eru þó goðsagnakenndar náttúrulýsingar Thors sem ná mér gjörsamlega, þar er íslensku landslagi lýst á ljóðrænan hátt í prósastíl Thors sem enginn getur leikið eftir.
Á náttborðinu bíður mín Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov. Mamma mín hættir ekki að mæla með henni. Ég er búin að lofa að lesa hana í einhver ár. Í þessari bók fer víst djöfullinn sjálfur um í líki galdramanns, rithöfundur er frávita af harmi og ástkona hans Margarita að ærast úr söknuði fyrir utan veggi geðveikrahælisins þar sem hann hímir. Nú verð ég að vinda mér í hana. Ég lofa mamma!