Íslenska menntakerfið tekur árlega móti börnum frá öllum heimshornum, sem tekst misvel að aðlagast skólakerfinu hér á landi. Þótt slíkir fólksflutningar séu að margra mati nútímafyrirbæri, fengu mörg íslensk börn hér áður fyrr alþjóðlegan uppvöxt. Meðal þeirra er Sif Knudsen, sem hefur brasað margt á lífsleiðinni, en hún lét nýlega af störfum sem sjúkraliði eftir hartnær hálfa öld í atvinnugreininni. Nú er hún búsett á Skúlagötunni, og blaðamaður fékk að kíkja í heimsókn í nýju íbúðina.
Maður þarf ekki að ganga nema eitt skref inn í íbúð Sifjar til að átta sig á því að hún er mjög fjölskyldukær, enda sést varla í hvítan vegg fyrir ljósmyndum af fjölskyldumeðlimum og vinafólki.
Eileen Sif Knudsen fæddist í Kaupmannahöfn þann 2. júlí 1950, en stuttu fyrir það var móðir hennar að læra söng í París og fór þaðan til Danmerkur þar sem Sif fæddist. „Þannig ég er semsagt made in Paris,“ segir Sif kíminn.
Móðir Sifjar, Guðmunda Elíasdóttir óperusöngkona, ætti eldri landsmönnum að vera kunn. Hún átti langan söngferil, söng hér á landi og naut mikilla vinsælda erlendis. Guðmunda flutti ung til Kaupmannahafnar, aðeins 19 ára gömul, og stundaði þar nám við Konservatoríið. Þar kynntist hún föður Sifjar, Henrik Knudsen, gullsmíðameistara frá Maribo í Danmörku.
Um það leyti sem Sif fæddist var Kóreustríðið að brjótast út og óttuðust margir að það myndi leiða til átaka víðar. „Hún mamma vildi vera á Íslandi ef það myndi raungerast, þannig hún ákvað að flytja aftur þangað.“ Ekki komust þau þó lengra en til Danmerkur, þar sem Sif var fædd. Tveimur vikum síðar sigldi litla fjölskyldan til Íslands. Sif ólst upp á Íslandi til um 5 ára aldurs þegar þau ákváðu að flytja til Bandaríkjanna, þar sem Guðmunda fékk boð um að syngja í þætti á sjónvarpsstöðinni NBC og voru vonir um að það myndi leiða til fleiri atvinnutækifæra.
Árið 1957 skilja foreldrar Sifjar að borði og sæng í fyrsta skipti, þegar hún er aðeins 7 ára gömul, og eldri bróðir hennar, Hans Knudsen, er 10 ára. „Við flytjum þá með mömmu til Íslands og erum einn vetur í Landakotsskóla, áður en mamma ákveður að flytja aftur til New York og þau reyna að taka saman aftur. En árið 1959 eru þau aftur hætt saman.“
Móðir hennar tekur þá ákvörðun að flytja til Danmerkur með börnin, 9 og 12 ára gömul, og kaupir hús í Holte. Faðir þeirra kemur til þeirra og er þar í rúmt ár, en flytur svo þaðan aftur til Bandaríkjanna. „Þá skilja þau alveg, árið 1961, þegar ég er 11 ára.“
„Við höfum hvort annað“
Aðspurð hvort það hafi verið erfitt að horfa upp á foreldrana skilja, kinkar Sif lauslega kolli. „Já það var mjög erfitt. Svo var það líka erfitt að þau voru alltaf að skilja og byrja aftur saman. Eftir skilnaðinn vorum við mest bara þrjú, ég, Hans og mamma. Það var alveg erfitt að hitta pabba ekki mikið, en hann var ekki beint hugulsamur faðir. Hann sendi okkur kannski teiknimyndir í pósti inn á milli, en hjálpaði mömmu ekkert með peningamál. Stuttu eftir skilnaðinn spurði mamma pabba hvort Hans mætti ekki kíkja til hans í New York, þar sem hann bjó þá, en hann sagði nei. Ég veit að Hans tók það mjög inn á sig.“
Þá segist hún alltaf hafa fundið mikið öryggi í eldri bróður sínum. „Ég man að við vorum einhvern tímann með mömmu í enn einni lestarferðinni milli landa þar sem mamma var að fara syngja erlendis, og ókunnug kona spurði Hans hvort það væri ekki erfitt fyrir tvö lítil börn að ferðast svona. Þá segir hann það sem ég mun aldrei gleyma: Það er allt í lagi, við höfum hvort annað. Og það var rétt hjá honum, við höfðum hvort annað alveg þangað til hann lést, allt, allt of snemma. Ég er alltaf að skamma hann fyrir það.“ Hans lést árið 2009, þá aðeins 62 ára gamall.
Sif rifjaði þá upp líf og dauða eldri systur sinnar Bergþóru, sem hún fékk aldrei að hitta, enda lést hún aðeins tveggja ára úr lungnabólgu. Þetta var því fyrsta barn Guðmundu, en Hans fæddist ári síðar. „Mamma talaði ekki oft um hana, og grét stundum út af þessu. Þetta var svo einstaklega erfitt þar sem hún lést þegar mamma var ekki á landinu. Maður veltir alveg stundum fyrir sér hvernig það hefði verið, að eiga þessa eldri systur.“
Sif bjó hjá móður sinni í Danmörku til ársins 1965, en flutti þá að heiman og hætti í skóla aðeins 15 ára gömul. „Það var svo mikil óregla og vesen á heimilinu, að ég gafst upp á að búa þar.“ Sif flutti þaðan til Ingelise, vinkonu sinnar í Danmörku, og bjó þar í um þrjú ár. „Svo hið fræga ár, árið 1968, tökum við vinkonurnar ákvörðun um að flytja til Mallorca á Spáni. Við vorum rosalega kærulausar. En þannig var bara andrúmsloftið á þessum tíma, allt var svo frjálst og ég naut þess í botn.“
Sif og vinir hennar nutu lífsins á Spáni rúmt ár, en sú ferð endaði þó á óþægilegan máta. „Ég var svo óheppin að fá malaríu þar úti, og var alveg fárveik. Vinkona mín sendi þá skeyti til mömmu, sem sendir okkur pening fyrir lyfjum sem betur fer virka.“
Í kjölfarið flaug Guðmunda til Mallorca og fann loks Sif. Þar urðu miklir fagnaðarfundir, enda höfðu þær ekkert hist í rúm þrjú ár. Mæðgurnar ákveða þá taka sér smá frí saman til að bæta upp fyrir allan þennan tíma í burtu, og kíkja meðal annars til Ibiza í nokkrar vikur og svo til Barcelona. Sif brosir út í kantinn og tekur sopa úr kaffibollanum. „Við áttum yndislegar stundir þar.“ Móðir hennar fór síðan aftur til Íslands, en Sif ákvað að skrá sig í lýðháskóla í Hróarskeldu í Danmörku. Hún útskýrði fyrir mér að skólinn hafi verið með frekar sterka pólitíska stefnu. „Og ég var ekki síður með sterkar pólitískar skoðanir á þessum tíma,“ bætir hún við og hlær.
Sif segir skólagönguna við Lýðháskólann hafa verið dásamlega, en eftir lok ársins flutti hún loks aftur til Íslands. Hún segist hafa verið smá ráðvillt á þessum tíma, og óviss um hvað hún ætti að leggja fyrir sig. Hún starfaði um tíma sem fyrirsæta fyrir Myndlistarskólann í Reykjavík og sem flugfreyja hjá Loftleiðum. „Svo var það árið 1972, þegar vinur minn Eyjólfur sem var myndlistarmaður, kemur og segir mér að það sé verið að auglýsa eftir sjúkraliðum á Landakotsspítala. Ég er þá 21 árs, og var harðákveðin í að fara aftur til Danmerkur í skóla þar. En svo býðst mér þetta tækifæri og ég ákveð að gefa því séns.“
Giftust eftir 20 daga
Þann vetur kynnast þau Sif og maðurinn hennar Stefán Ásgrímsson, en þau giftust aðeins tuttugu dögum eftir fyrstu kynnin og hafa verið saman alla tíð síðan.
Aðspurð hvort henni hafi ekki fundist það stórt skref að giftast einhverjum sem hún hafði þekkt svo stutt, svarar hún því neitandi. „Alls ekki, það má segja að maður veit þegar maður veit að eitthvað er rétt. Ég held að það sem hefur haldið okkur saman allan þennan tíma er það sem gerir okkur ólík. Við erum með gjörsamlega ólíkan bakgrunn, hann er úr sveit, pabbi hans var garðyrkjubóndi en ég var alltaf á einhverju flakki. En það sem við áttum strax sameiginlegt var ástríða okkar fyrir rokktónlist.“ Þá segir hún að tónlistin haldi þeim ennþá saman, enda syngja þau bæði í kórnum Landakotskirkju.
Sif skráði sig í kaþólsku kirkjuna á fullorðinsárunum, en hún var alin upp við trúna þrátt fyrir að vera ekki í kirkjunni. „Ég ákveð svo að hætta þessari vitleysu og skrá mig í kirkjuna árið 1995, þá 45 ára. Ég hef verið í kórnum alveg síðan þá.“ Hún segir það sem heilli hana mest við kaþólska trú sé hversu alþjóðleg hún er og hún hafi eflaust hjálpað henni við alla þessa flutninga í gegnum ævina. „Hvert sem ég fer í heiminum, þá eru kaþólsku kirkjunnar alltaf eins. Þá er bara eins og ég sé heima.“
Þau Stefán og Sif eiga tvö börn, þau Sigurlaugu og Guðmund Elías, sem er skírður eftir ömmu sinni. „Ég var alltaf ákveðin í að börnin mín myndu hafa alþjóðleg nöfn, svo allir gætu borið þau fram. En svo kom blessað barnið á afmælisdeginum hennar mömmu, og ekki nóg með það heldur sama tíma dags líka, klukkan fjögur um morgun. Svo ég hugsaði jæja ókei, þetta er örugglega boð að ofan og lét verða af því að skýra hann eftir mömmu.“
Litla fjölskyldan flutti til Danmerkur í nokkur ár þar sem Stefán stundaði guðfræðinám, en þau fluttu aftur til Íslands árið 1981. Árið 1982 kaupa þau sér hús á Framnesveginum og búa þar í nokkurn tíma. „Mamma hafði síðan keypt sér íbúð við enda Vesturgötunnar, og við vorum farin að finna fyrir því hversu lítið húsið á Framnesveginum í rauninni var eftir því sem krakkarnir urðu stærri. Við ákváðum því að slá okkur saman með mömmu og kaupum yndislegt tvíbýlishús á Vesturgötu 26B.“
Sif og Stefán bjuggu á Vesturgötunni þar til í mars á þessu ári þegar þau ákveða að selja húsið loksins og flytja á Skúlagötuna. Guðmunda, móðir Sifjar, lést árið 2015 þá 95 ára gömul. „Þegar það gerist ákveð ég að ég geti ekki búið í húsi með ókunnugu fólki. En það endar svo vel að hann Guðmundur Elías, sonur okkar, kaupir íbúðina. Þannig þetta hefur verið algjört fjölskylduhús þar til bara núna í mars.“
Aðspurð hvernig var fyrir hana að aðlagast sífellt nýjum kerfum í þessum flutningum hennar milli landa í gegnum árin, segir hún það hafa gengið furðu vel. „Það var eiginlega bara þegar ég flutti til Íslands þegar ég var barn sem það gekk eitthvað brösulega. En það var mest því þau gerðu svo mikið grín af mér útaf ég er með brún augu,“ segir Sif og hlær. Brúnu augun eiga eflaust rætur sínar að rekja til forfeðra hennar frá Úkraínu en langafi hennar í föðurætt flúði enn eina byltinguna þaðan til Suður-Jótlands „Ég held að þetta hefði getað verið erfiðara fyrir mig, að flytja alltaf svona sem barn, ef ég væri ekki með svona mikinn kjaft,“ bætir Sif við og hlær.