Við höfum beðið í heil 50 ár eftir því að fá fulla aðild að Norðurlandaráði og nú er þolinmæðin á þrotum. Svona hljóðuðu skilaboðin frá Aksel V. Johannesen lögmanni Færeyja í setningarræðu hans á færeyska þinginu í síðustu viku. Þau voru í samræmi við skilaboð Mute B. Egede forsætisráðherra Grænlands sem í sumar tilkynnti að hann hygðist draga Grænland út úr norrænu samstarfi ef ekki yrði breyting á aðkomu þeirra þar.
Þessi alvarlega staða mun án nokkurs vafa setja mark sitt á þing Norðurlandaráðs sem haldið verður í Reykjavík í lok október. Á þinginu er fyrirhugað að taka til afgreiðslu tillögur vinnuhóps sem ég stýrði og varða löngu tímabæra endurskoðun á Helsingforssamningnum, svokallaðri stjórnarskrá hins norræna samstarfs. Samningurinn sem var undirritaður 1962 var síðast endurskoðaður fyrir tæpum þrjátíu árum. Vinnuhópurinn var sammála um mikilvægi ákveðinna breytinga, ekki síst þeirra sem varða áherslur í öryggis- og varnarmálum, afnám landamærahindrana og loftslagsmál.
Það var margt annað undir í endurskoðun á því norræna samstarfi sem Helsinkisamningurinn rammar inn. Í Reykjavík í haust munu þingmenn Norðurlandaráðs síðan greiða atkvæði um að vísa tillögum vinnuhópsins til ríkisstjórna Norðurlandanna til áframhaldandi vinnu. Ef marka má umræður á þemaþingi Norðurlandaráðs í Færeyjum í apríl þar sem ég kynnti tillögurnar er ekki ástæða til að ætla annað en að mikil samstaða ríki um að vísa þeim áfram til frekari úrvinnslu og framkvæmda. Eitt mál er þó enn óafgreitt. Vinnuhópurinn klofnaði í afstöðu sinni til aukinnar aðildar Færeyja, Grænlands og Álandseyja að Norðurlandaráði og lagði því fram tvær tillögur sem ganga mislangt í þá átt.
Stjórnvöld í Grænlandi og Færeyjum hafa nú sent skýr skilaboð um að samþykki þing Norðurlandaráðs í haust ekki tillöguna sem gengur lengra muni þau draga sig úr norrænu samstarfi. Tillagan felur í grófum dráttum í sér að þátttakan byggist á jafnræði milli landanna og endurspegli þróunina í sjálfsstjórnarmálum Álandseyja, Færeyja og Grænlands.
Öflugt norrænt samstarf hefur sennilega aldrei verið eins mikilvægt og nú. Styrjöld í Evrópu og vaxandi ógn við lýðræðið í mörgum löndum álfunnar auk loftslagsbreytinga sem snerta ekki síst okkur hér á norðurslóðum ættu að vera okkur öllum sterk áminning um að þétta raðirnar. Tilgangurinn með endurskoðun Helsingforssamningsins er að styrkja norrænt samstarf í nútíð og framtíð. Vonandi berum við gæfu til að átta okkur á því að frekari aðild Færeyja, Grænlands og Álandseyja að Norðurlandaráði styrkir það mikilvæga markmið. Þetta mál þarf að leysa farsællega.
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. hannakatrin@althingi.is