— Ljósmynd/Sigtryggur Ari Jóhannsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
En auðvitað varð ég ástfanginn af fólkinu hérna og landinu líka og eignaðist marga góða vini.

Bretinn Tony Cook kom hingað til lands árið 1975 aðeins 21 árs gamall til að vinna sem upptökumaður fyrir Hljóðrita í Hafnarfirði sem þá var fyrsta fjölrása hljóðupptökustúdíó hér á landi. Upphaflega stóð til að hann yrði aðeins í þrjá mánuði til að koma stúdíóinu í gang en mánuðirnir urðu fimm og að lokum ílengdist hann á Íslandi í sjö ár eða allt til ársins 1982. Tony sannaði sig fljótt í starfi og þótti vandvirkur og úrræðagóður. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann þegar góða reynslu í faginu þegar hann kom hingað. Hann hafði m.a. unnið hjá Wessex Studio sem var með 24-rása stúdíó, en Hljóðriti var aðeins 8-rása stúdíó þegar það byrjaði.

Þar sem Hljóðriti var eina upptökustúdíó sinnar tegundar á þessum tíma kom Tony að gerð flestra platna sem voru gefnar út á þessum árum eða eins og Tony sjálfur segir þá skiptu þær hundruðum.

Blaðamaður sló á þráðinn til Tonys og spurði hann um tímann sinn hér á landi og hvað honum fannst um íslenska tónlist og tónlistarmenn á þessum tíma.

Langaði að breyta til

– Hvernig atvikaðist það að þú réðir þig til Hljóðrita?

„Ég var að vinna hjá fyrirtæki sem heitir Wessex Studios sem var nokkuð virt og framsækið fyrirtæki. Á þessum tíma var það í ferli um að verða yfirtekið af öðru fyrirtæki, Chrysalis, og framtíðin var dálítið óljós, svo ég ákvað að líta í kringum mig eftir einhverju öðru.“

Tony segist þá hafa hringt í mann í bransanum sem þekkti til víða og hann hafi boðið honum tvo kosti, annaðhvort starf í Suður-Afríku eða á Íslandi. Suður-Afríka á 8. áratugnum hafi ekki beint höfðað til hans svo hann sló til og ákvað að fara til Íslands.

Hugmyndin með því að ráða sig til Hljóðrita var að vera í þrjá mánuði til að sýna eigendum stúdíósins hvernig allt virkaði, en stúdíóið var á þessum tíma mjög einfalt 8-rása kerfi. En þessir þrír mánuðir urðu fimm mánuðir og fimm mánuðir urðu að lokum að sjö árum.

Allt mun einfaldara í sniðum

- Varstu ánægður á Íslandi?

„Algerlega. Ef ég gæti myndi ég vilja flytja aftur þangað.“ Tony segir að á þessum tíma hafi hann viljað komast í burtu frá London og þegar hann kom til Íslands fannst honum allt vera svo ferskt og nýtt þó svo að Hljóðriti hafi verið miklu einfaldara stúdíó en hann var vanur frá London.

Hljóðriti varð opnaður í maí-júní 1975 eða um það leyti sem Tony byrjaði hjá þeim sem hann segir að hafi verið um miðjan júní. Morgunblaðið birti einmitt viðtal við hann af því tilefni 21. júní það ár þegar hann var nýkominn til landsins.

Þegar hann kom hafði upptökuiðnaðurinn sem slíkur ekki verið til hér á landi. Hann hafi rétt verið að komast á koppinn og að verða skipulagður og faglegur, að sögn Tonys.

„Þetta var fyrsta fjölrása upptökustúdíó á landinu þó það hafi verið nokkuð einfalt í sniðum. En eigendurnir voru ekki vel efnum búnir og ekki heldur þegar þeir réðust í að endurgera stúdíóið 1976 í 24-rása, en þó komust þeir af með að láta það virka með litlum tækjabúnaði. Þetta gekk mjög vel og þess vegna ílengdist ég svona lengi.“

Gaman að vinna með svo fjölhæfum tónlistarmönnum

– Þú hefur þá kynnst öllum helstu hljómsveitum og tónlistarmönnum landsins í starfi þínu?

Tony játar því og segir frá því að það hafi verið keppni á milli hljómsveitanna Júdas með Magnúsi Kjartanssyni og Spilverks þjóðanna um það hvor kæmist fyrst inn í stúdíóið. „Og Júdas vann,“ segir Tony og hlær.

„Það sem stakk mig var þessi mikli eldmóður og hversu fjölhæfir tónlistarmennirnir hérna voru. Þeir gátu spilað alls kyns tónlist. Og svo var ég skyndilega farinn að taka upp alls kyns tónlist, þjóðlagatónlist, djass, popp og fleira. Það var sjaldgæft tækifæri fyrir mig. Í London var það mest popp eða rokk.“

Suðupottur af evrópskri og amerískri tónlist

Tony segir að starfið hafi verið mjög spennandi áskorun fyrir hann og einnig það að hafa fengið að vera með í einhverju svona frá byrjun eins og Hljóðrita hafi verið frábær reynsla.

– Hvað fannst þér um tónlistarmenninguna á Íslandi á þessum tíma?

Tony segir að margir af tónlistarmönnum þess tíma eins og Björgvin Halldórsson hafi reyndar unnið í London, en þá var hann í hljómsveit sem kallaðist Change, sem var með samning í London. Einnig segir hann hafa verið mikil amerísk áhrif í tónlistinni á Íslandi ekki síst vegna ameríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli. Nefnir hann sem dæmi Magnús Kjartansson í því sambandi.

Á þessum tíma hafi Ísland verið suðupottur af evrópskri og amerískri tónlist, sem hafi haft mikil áhrif á íslenska tónlist. Gæðin hjá tónlistarmönnum hafi einnig verið mjög mikil að hans sögn.

Kvæntist og eignaðist góða vini

– Þú endaðir með að vera hér í sjö ár. Það er langur tími.

„Já, ég giftist hérna íslenskri konu. Og skildi líka. En auðvitað varð ég ástfanginn af fólkinu hérna og landinu líka. Og eins og ég segi, að vera partur af einhverju svona var spennandi. Ég missti töluna á því hvað ég hljóðritaði margar plötur, að hluta eða öllu leyti. En þær skipta hundruðum. Og svo eignaðist ég marga góða vini sem eru enn vinir mínir í dag.“

Tony segist halda góðu sambandi við strákana úr hljómsveitinni Eik. Einn af meðlimum hennar er Lárus Helgi Grímsson sem er mikill vinur Tonys og býr Tony oft hjá honum þegar hann kemur í heimsókn til Íslands, en það gerir hann reglulega.

Eftir að hann flutti heim segist Tony einnig hafa haldið sambandi við Ásmund Jónsson, einn af stofnendum útgáfufyrirtækisins Gramms, sem var á bak við Sykurmolana og Kukl og margar fleiri hljómsveitir. Grammið varð síðan fyrirtækið Smekkleysa, sem rekur plötuverslun í miðbænum.

„Ási var frábær framleiðandi og eiginlega frumkvöðull í þeirri nýju bylgju af tónlist 8. áratugarins og byrjun 9. áratugarins með hljómsveitum eins og Þeyr, Kukl, Tappi Tíkarrass og fleiri. Síðan kom hann á framfæri hljómsveitinni Sykurmolunum.“

Aðspurður segist Tony hafa hitt Ásmund upphaflega á Íslandi þegar hann var enn að vinna þar seint á 8. áratugnum og hefur haldið sambandi við hann síðan. Tony segist hafa unnið mikið með honum og tók m.a. upp plötu með Kukli í London, þegar Björk og Einar voru í hljómsveitinni. Hann segist einnig hafa tekið upp fyrstu plötu Bjarkar á Íslandi þegar hún var aðeins 11 ára gömul.

Fylgist enn með því sem er að gerast á Íslandi

– Fylgistu eitthvað með íslenskri tónlist í dag?

„Það er allavega mikið af henni og miklu fleiri upptökustúdíó núna. Mér líkar alveg við sumt af því sem ég heyri. Mér líkar við Ásgeir Trausta og Ólöfu Arnalds og hljómsveitina Múm. Ég man þegar þau komu fram fyrst og fannst lögin þeirra mjög góð.“

Tony segir blaðamanni frá því að hann hafi komið til Íslands í apríl til að horfa á Mannakorn spila í Háskólabíói í tilefni af 50 ára afmæli hljómsveitarinnar.

„Ég var ekki búinn að sjá þá spila í um 40 ár svo það var frábært að sjá þá núna. Þessir tónleikar voru nálægt 70 ára afmæli mínu svo mér fannst ég verða að fara af því tilefni.“

Tony var aftur á ferð á Íslandi í júlí þegar hann kom til að ferðast um landið með eiginkonu sinni. Hann gaf sér þó tíma til að hitta nokkra vini sína úr hljómsveitinni Eik og borða kvöldverð með Magnúsi Kjartanssyni og konu hans, sem hann heldur enn góðu sambandi við. Þá hitti hann einnig gamlan vin sinn, Gunnar Árnason frá Selfossi, sem var í sínu eigin bandi áður fyrr, en vinnur nú við hljóðvinnslu á kvikmyndum og rekur sitt eigið fyrirtæki. Aðspurður hvernig þeir þekktust segir Tony að eftir að hann fluttist aftur til Bretlands hafi hann yfirgefið tónlistargeirann á miðjum aldri og farið að vinna í kvikmyndaiðnaðinum og það var þá sem hann hafi eitt sinn komið til Íslands til að vinna fyrir Gunnar og þannig hafi þeir kynnst.

Fékk tilboð sem hann gat ekki hafnað

Eins og áður segir flutti Tony frá Íslandi árið 1982. Hann segir að þá hafi honum verið boðið starf í London sem honum fannst hann ekki geta hafnað. „Það var líka kominn tími til að fara frá Íslandi og komast aftur í meginstrauminn í London.“

Starfið sem honum bauðst var í splunkunýju hljóðveri. „Það var upptökumaðurinn Geoff Calver sem bauð mér starfið en hann er maðurinn á bak við hljómsveitina Mezzoforte og kom þeim á framfæri á sínum tíma.“ Geoff er eiginmaður hinnar hálf-íslensku söngkonu Shady Owens, sem er Íslendingum að góðu kunn.

Hann segir þó að það hafi ekki verið auðveld ákvörðun að flytja til baka og koma sér fyrir aftur eftir svona langan tíma á Íslandi.

Lög Spilverksins í uppáhaldi

– Fannst þér tónlistin hér mjög frábrugðin því sem þú varst vanur á Englandi?

„Eiginlega ekki. Það sem var gott hérna var að við höfðum tíma til að gefa smáatriðum gaum við upptökur og fá góðar og hreinar upptökur.“

Hann segir að allir hafi fylgst vel með því sem var að gerast í Ameríku og á Englandi á þessum tíma svo tónlistin hérna hafi ekki verið svo frábrugðin því sem hann átti að venjast.

„Tónlistarmennirnir voru auðvitað einstaklingar og allir með ólíka tónlist. Þeir voru ekki bara að herma eftir því sem þeir heyrðu annars staðar. Tónlistin var mjög einstaklingsmiðuð.

Spilverk þjóðanna var mjög ólíkt því sem ég var vanur, en ég naut þess að vinna með þeim og dáðist að því sem þeir voru að gera. Ég hlusta enn á plötuna þeirra Götuskór (útg. 1976). Hún er ein af mínum uppáhaldsplötum. En bæði Götuskór og Sturla voru mjög vinsælar á sínum tíma. Þær eldast vel og eiga enn erindi.“

Önnur hljómsveit í uppáhaldi hjá Tony frá þessum tíma er hljómsveitin Eik sem honum finnst frábær djass-funk-hljómsveit, og nefndi hann sérstaklega plötuna Hríslan og straumurinn (útg. 1977) sem hefur að geyma nokkur af hans uppáhaldslögum.

Meginmunurinn á tónlistinni hér segir Tony að hafi helst verið íslensk áhrif. Það hafi verið mikil áhrif frá hefbundinni íslenskri tónlist sem smituðust inn í poppið á þessum tíma.

Heimildarmynd um Hljóðrita í undirbúningi

Eins og fram hefur komið var Hljóðriti stofnaður 1975 og fagnar því 50 ára afmæli á næsta ári. Í tilefni af því stendur til að sýna heimildarmynd um Hljóðrita á RÚV á næsta ári.

„Árni Jónsson kvikmyndaframleiðandi er að gera þessa heimildarmynd um sögu stúdíósins, en faðir hans, Jón Þór Hannesson, er einn af upphaflegu eigendum stúdíósins.“

Tony upplýsir blaðamann um þetta að fyrra bragði. Ljóst er að hann er enn mjög vel að sér um allt sem viðkemur íslenskri tónlistarmenningu en það verður að viðurkennast að blaðamaður þurfti að afla sér nánari upplýsinga um ýmis þau atriði og nöfn sem Tony hefur á takteinum.

„Staðreyndin er sú að ég er ennþá mjög tengdur Íslandi vegna þess að Ísland er ennþá í hjarta mínu og huga,“ segir þessi einstaki og hlýlegi Íslandsvinur að lokum.