Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Það skiptir mig miklu máli að sýna verk mín á opnum svæðum og í opinberu rými; bæði á varanlegum stöðum en einnig á tímabundnum sýningum sem hafa orðið stór hluti af mínum ferli. Þar er oft varpað sterku ljósi á verkin bæði hérlendis og erlendis,“ segir Steinunn Þórarinsdóttir myndhöggvari.
„Það fara ekki allir á gallerí og söfn. Því er stórkostlegt að sjá viðbrögð fólks sem næstum dettur um listaverk í almannarými. Listin og lífið verður eitt. Ég vil helst að fólk sjái verkin og að þau hafi áhrif á fólk, að þau séu eins konar gjöf í amstri dagsins,“ segir Steinunn.
Andstæðar fígúrur
Höggmyndir Steinunnar Þórarinsdóttur eru auðþekktar af handbragði hennar og stíl. Þær má sjá og finna víða um land svo og í útlöndum. „Oft tefli ég saman tveimur andstæðum fígúrum. Þá byrjar eins konar samtal innan verksins. Svo kemur áhorfandinn inn með sína reynslu og þá verður nýtt samtal til,“ segir listakonan.
Næsta sýning sem Steinunn tekur þátt í er í Wales á Bretlandi og verður opnuð síðar í þessari viku. Sú ber titilinn Ker og er sett upp í sjö sveitakirkjum sem hafa verið varðveittar og bjargað frá niðurrifi. „Kirkjurnar eru allar afskaplega fallegar og eru á afskekktum og friðsælum stöðum í Black Mountains í Wales. Titill sýningarinnar vísar til þess að hugtakið ker í trúarbrögðum er oft notað sem tákn fyrir líkama mannsins og anda hans. Sú hugmynd er sett fram á ýmsa vegu,“ segir Steinunn.
Undirbýr einkasýningu
Um þessar mundir vinnur Steinunn að einkasýningu sem verður í Þulu galleríinu í Marshallhúsinu á Granda í Reykjavík í september á næsta ári. Þar verða ný verk sem hún hefur ekki sýnt áður, en síðasta einkasýning hennar hér heima var fyrir áratug. Þar verður sameinuð sýningaropnun og útgáfuhóf nýrrar bókar um listamannsferil Steinunnar í hálfa öld.
Skúlptúrar Steinunnar eru gjarnan steyptir í málm en efnin notar hún eftir hugmynd hverju sinni. Þetta eru á engan hátt raunsæisverk þó svo þau séu fígúratíf, segir listakonan. Í seinni tíð segist hún oft gera hráar vatnslitaskissur á vinnustofu sinni undir Eyjafjöllum. Skissurnar sem eru í rauninni sjálfstæð listaverk kveikja stundum hugmyndir að skúlptúrum og stærri verkum en þær eru jafnframt nátengdar umhverfinu.
Gjöfull vettvangur
„Verkin eru oftar en ekki sett fram á hlutlausan hátt, krefjast ekki bara einnar skýringar heldur sjáum við listina á svo margvíslegan hátt. Ég fæ stundum spurninguna, hvað þýðir þetta eða hitt og hvað meinarðu með þessu? Svar mitt er: „Það sem þér finnst þetta þýða er nóg.“ Ég hef sjálf kannski eitthvað ákveðið í huga en það er ekkert betra eða sannara en það sem aðrir sjá út úr verkunum,“ segir Steinunn.
Aðspurð segir Steinunn að Bandaríkin hafi verið sér gjöfull vettvangur. Þar séu stærstu safnarar verka hennar og henni komi oft á óvart hvað listaheimurinn þar er opinn. „Ég er mjög þakklát fyrir að vera ekki eingöngu starfandi hér á Íslandi. Myndlistarheimurinn getur verið frekar lokaður og jafnvel einkennst af eins konar rétttrúnaði. Það hefur þó lagast mikið á seinni árum. Það hefur verið mín gæfa að gera það sem ég vildi í myndlist og fylgja hjartanu alltaf en listaheimurinn vill eitt núna og svo annað á morgun,“ segir listakonan.