Sænsk stjórnvöld tilkynntu í vikunni að gerður hefði verið samstarfssamningur við Bandaríkin um þróun nýrrar tækni í kjarnorkuverum í báðum löndum.
Munu ríkin tvö skiptast á upplýsingum um mál sem tengjast stefnumörkun, rannsóknum og framþróun í framleiðslu rafmagns með kjarnorku.
Svíar birtu sl. haust áætlun um að auka verulega raforkuframleiðslu með kjarnorku til að mæta vaxandi eftirspurn eftir rafmagni. Í fyrsta áfanga verða byggðir kjarnaofnar á næsta áratug sem geta framleitt að minnsta kosti 2.500 megavött af raforku.
Þrjú kjarnorkuver eru starfandi í Svíþjóð og þar eru samtals sex kjarnaofnar.