Víðir Sigurðsson
Keppni í sundi er á meðal stærri viðburða á öllum Ólympíuleikum og henni er nú að ljúka en hefðin er sú að sundið og frjálsíþróttirnar eru í aðalhlutverkum sitt hvora vikuna á leikunum.
RÚV hefur að vanda sýnt mikið úr sundlauginni í París og lýsandinn, Ingi Þór Ágústsson, hefur þar verið í stóru hlutverki. Ingi hefur komið talsvert við sögu á þessum vettvangi síðustu ár og sem sundþjálfari er hann mikill fagmaður í greininni og kemur fróðleiknum vel frá sér. Hans lýsingar eru því fræðandi um leið og þær eru líflegar en Ingi er með allt á hreinu um íþróttina sjálfa og einstaka keppendur. Svo hvatti hann áhorfendur til að öskra á sjónvarpið þegar leikar stóðu sem hæst hjá íslensku keppendunum. Vel gert.
Ekki var verra þegar ólympíufarinn Hrafnhildur Lúthersdóttir var honum til aðstoðar í nokkrum lýsingum og kryddaði umfjöllunina með innsæi íþróttamannsins. Það var líka eitthvað fallegt við það að sjá þau Inga og Hrafnhildi berjast við að halda aftur af tárunum undir hjartnæmri kveðju Antons Sveins McKee eftir síðasta sundið hans í París.
Og nú eru frjálsíþróttirnar að rúlla af stað og Sigurbjörn Árni er mættur til Parísar.