Anna Bretaprinsessa með bresku keppendunum á Ólympíuleikunum í París.
Anna Bretaprinsessa með bresku keppendunum á Ólympíuleikunum í París. — AFP/Richard Pelham
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Bretaprinsessa var fyrsti meðlimur konungsfjölskyldunnar sem keppti á Ólympíuleikum.

Kóngafólk á til að sýna á sér óvænta hlið, eins og til dæmis þá að keppa á Ólympíuleikum. Nokkur dæmi eru um að konungbornir einstaklingar hafi unnið þar til verðlauna.

Breska konungsfjölskyldan er þekkt fyrir áhuga sinn á íþróttum. Karl konungur stundaði póló af ástríðu í mörg ár. Vilhjálmur sonur hans hefur gríðarlegan áhuga á knattspyrnu og er stuðningsmaður Aston Villa og Katrín eiginkona hans er einnig mikil áhugamanneskja um íþróttir. Börn þeirra þrjú hafa erft íþróttaáhugann.

Elísabet II. Englandsdrottning stundaði svo hestamennsku af miklum áhuga og var ósjaldan mynduð á hestbaki. Hún þótti ekki mjög brosmild kona en gat ekki leynt brosinu þegar hún var á hestbaki eða við veðreiðar. Eiginmaður hennar, Filippus prins, setti Ólympíuleikana árið 1956 í Melbourne. Hann þótti frábær íþróttamaður, stundaði siglingar og spilaði krikkett og póló. Árið 1980 varð hann heimsmeistari í hestvagnaakstri ásamt breskum liðsfélögum sinum. Hann sást oft aka hestvagni um landareign konungsfjölskyldunnar.

Anna Bretaprinsessa hefur alltaf þótt vera hörkutól og óhrædd við að fara eigin leiðir. Hún var uppáhaldsbarn föður síns, Filippusar prins, sem hefði gjarnan viljað sjá hana taka við ríkinu því hann leit á elsta son sinn Karl sem of veiklundaðan og viðkvæman. Anna var fyrsti meðlimur konungsfjölskyldunnar sem keppti á Ólympíuleikum. Hún tók þátt í keppni í hestaíþróttum í Montreal árið 1976 og sat þá hestinn Goodwill, sem móðir hennar, Elísabet II., átti. Foreldrar hennar og fleiri fjölskyldumeðlimir horfðu á hana keppa. Anna, sem þykir afbragðshestamanneskja, vann ekki til verðlauna, varð í 24 sæti í einstaklingskeppninni. Hún er nú forseti breska Ólympíusambandsins og meðlimur í Alþjóðaólympíunefndinni.

Þáverandi eiginmaður Önnu, Mark Phillips, tók sömuleiðis þátt í hestaíþróttum á Ólympíuleikum, árið 1972 fjórum árum á undan eiginkonu sinni. Með liði sínu vann hann til gullverðlauna og síðan til silfurverðlauna á leikunum í Seoul árið 1988.

Áhugi á hestamennsku hefur fylgt dóttur þeirra, Söru Tindall, sem keppti í liði Breta í hestaíþróttum á Ólympíuleikunum í London árið 2012. Hún vann með liði sínu til silfurverðlauna. Móðir hennar, Anna prinsessa, og afi, Filippus prins, fylgdust með keppninni og móðir hennar afhenti, vitanlega hin stoltasta, breska liðinu ólympíuverðlaunin. Eiginmaður Söru er Mike Tindall, fyrrverandi afreksmaður í ruðningsíþróttum, sem nýtur mikillar hylli meðal Breta vegna þess hversu alþýðlegur og skemmtilegur hann er.

Haya prinsessa, dóttir Husseins Jórdaníukonungs, keppti í hestaíþróttum á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 en náði ekki verðlaunasæti.

Íþróttaáhugi í Mónakó

Charlene prinsessa af Mónakó var á sínum yngri árum þekkt sundkona. Hún keppti fyrir hönd þjóðar sinnar í sundliði Suður-Afríku, sem varð í fimmta sæti á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000. Hún hætti keppni árið 2007 og árið 2011 giftist hún Alberti prins af Mónakó. Hún er enn ástríðufullur íþróttaunnandi.

Albert prins hefur keppt á fleiri Ólympíuleikum en nokkur annar konungborinn einstaklingur, hefur fimm sinnum keppt á Vetrarólympíuleikum í bobbsleðaíþrótt. Besti árangur hans er 25. sæti árið 1988.

Áður en Filippus Spánarkonungur tók við krúnunni var hann meðlimur spænska siglingaliðsins sem tók þátt í Ólympíuleikunum 1992 í Barceclona og lenti í sjötta sæti. Filippus var fánaberi Spánar við opnunarathöfnina og hefur sagt það hafa verið mikinn heiður.

Systir Filippusar, Kristín, keppti í siglingum á Ólympíuleikunum í Seoul árið 1988 en vann ekki til verðlauna. Árið 1997 giftist hún Inaki Urdangarin, sem var leikmaður spænska handboltaliðsins sem vann bronsverðlaun árið 1996 og 2000. Hann varð prins af Parma. Þau skildu árið 2023.

Síðasti konungur Grikkja, Konstantín, giftur Önnu Maríu systur Margrétar Danadrottningar, vann til gullverðlauna í siglingum á Ólympíuleikunum árið 1960.

Kóngur vinnur gull

Ólafur V. Noregskonungur var alla tíð mikill íþróttamaður og vann til gullverðlauna í siglingum á Ólympíuleikunum í Amsterdam árið 1928. Hann stundaði einnig skíðamennsku af kappi. Hann var alþýðlegur og jarðbundinn og gríðarlega vinsæll meðal þegna sinna, kallaður konungur fólksins. Í skoðanakönnun árið 2005 í Noregi var hann valinn Norðmaður aldarinnar. Sonur hans, Haraldur V., keppti í skútusiglingum á þrennum Ólympíuleikum: Tókýó árið 1964, Mexíkó 1968 og München árið 1972, en vann ekki til verðlauna.

Sænska konungsfjölskyldan er sögð hafa yndi af siglingum og Karl Filippus, sonur Karls Gústafs XVI. Svíakonungs og Silvíu drottningar, keppti í siglingum í Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004 en vann ekki til verðlauna. Karl Filippus er mikill útivistarmaður, spilar fótbolta, syndir, siglir og fer á skíði. Árið 2003 var hann þátttakandi í Vasa-göngunni. Hann er einnig mikill kappaksturmaður og tekur reglulega þátt í slíkum keppnum.

Kona sem fánaberi

Bira prins í Síam, nú Taílandi, var sérstakur persónuleiki og um margt merkilegur. Hann lærði í Eton og var í siglingahópi lands sín á fernum Ólympíuleikum: Melbourne 1956, Róm 1960, Tókýó 1964 og München 1972, en vann ekki til verðlauna. Hann tók þátt í Formúlu eitt-kappakstrinum og var einnig áhugaflugmaður. Hann er á sérstökum lista í sæti 43 yfir bestu Formúlu-keppendur allra tíma.

Loks skal nefna Sheikha Maitha Al Maktoun, dóttur hans hátignar Sheikh Mohammed Bin Rashid Al Maktoum, forsætisráðherra og hæstráðanda Sameinuðu arabísku furstadæmanna, en árið 2008 var hún fyrsta konan sem varð fánaberi þeirra á Ólympíuleikum og braut þar með blað. Hún keppti í bardagaíþrótt kvenna, en vann ekki til verðlauna. Sama ár var hún númer 17 á lista Forbes yfir 20 heitasta unga kóngafólkið. Hún hefur unnið til ýmissa verðlauna í íþróttum en eftir meiðsli sneri hún sér að því að leika póló.

Ekki er vitað til þess að konungbornir einstaklingar taki þátt í Ólympíuleikunum í París. Kóngafólk mætti þó þangað sem áhorfendur og má þar nefna Önnu Bretaprinsessu og Albert Mónakóprins og eiginkonu hans. Þar voru einnig spænsku prinsessurnar Leonor og Soffía, hollenska konungsfjölskyldan og belgísku konungshjónin.