Tungutak
Gísli Sigurðsson
gislisi@hi.is
Um þessar mundir er öld liðin frá því að Milman Parry, sem kallaður er Darwin Hómersfræðanna, var að hefja doktorsnám við Sorbonneháskóla í París. Þar þróaði hann áfram hugmynd sína úr meistararitgerð frá Berkeley um hið munnlega skáld. Sú hugmynd átti eftir að gjörbylta umhugsun um tungutak og texta, eðli orðlistarinnar, hlutverk höfunda og möguleika munnlegrar hefðar til að varðveita kvæði, sögur og þekkingu um veröldina — án þess að styðjast við ritun.
Rétt eins og Darwin tók Drottin allsherjar út úr sköpunarsögunni fjarlægði Parry hinn skapandi höfund úr Hómersfræðunum – og þar með úr þeim fornu textum sem voru skráðir í árdaga ritaldar og byggðu á munnlegri hefð. Parry lauk doktorsritgerðinni árið 1928 og sýndi þar fram á að hin fastmótuðu orðasambönd, eða formúlur, sem einkenndu stíl Hómerskviða væru tæki og tól munnlegra sagnasöngvara sem kvæðu sínar munnlegu sögur án þess að vera höfundar þeirra í okkar skilningi.
Til að fylgja þessari hugmynd eftir fór Parry að ráði mál- og textafræðingsins Antoine Meillet og rannsakaði lifandi flutning sagnakvæða á vörum söngvara á Balkanskaga. Sér til aðstoðar fékk hann ungan stúdent, Albert B. Lord, til að sjá um upptökutæki og snúninga. Saman fóru þeir í tvo leiðangra og komust að því sem síðan hafa orðið viðtekin sannindi: að þessir söngvarar breyttu kvæðum sínum eftir aðstæðum hverju sinni – eins og Lord skrifaði um í Singer of Tales árið 1960.
Með því að skilgreina aðferð munnlegu hefðarinnar opnuðust leiðir til að skilja hlutverk sagna og kvæða í menningarsamfélögum sem styðjast ekki við ritmál. Mannfræðingar drógu fram að sögur og kvæði í munnlegum samfélögum eru alltaf hluti af lifandi hefðum, siðum og venjum í kringum flutninginn, um leið og þau kallast á við umhverfið og persónurnar sem byggja heiminn nær og fjær, svo á jörðu sem á himni. Sagna- og kvæðavefurinn myndar þannig eina órofa heild þar sem uppsöfnuð þekking, heimsmynd og minningar lifa í eilífu samspili við tíðarandann. Roland Barthes gekk svo langt 1967 að ögra fólki með dauða höfundarins í bókmenntum yfirleitt því merking textans mótaðist í kolli viðtakandans fremur en af ætlun höfundarins.
Þjóðfræðingar veittu því athygli um 1960 að hver flytjandi valdi og mótaði kvæði og sögur eftir sínu höfði. Í hefðbundnum handritarannsóknum kom nýja textafræðin fram við lok síðustu aldar þegar sú hugmynd festi sig í sessi að hvert handrit skipti máli og væri heimild um þær aðstæður sem það var skrifað í – og í Eyjaálfu er nú loksins komið upp úr dúrnum að munnleg fræði frumbyggjanna þar hafa miðlað mörg þúsund ára rannsóknum á himinhvolfinu með tungutaki goðafræðinnar. Allar þessar viðhorfsbreytingar til hlutverks tungutaksins og munnlegu hefðarinnar má tengja því sem var að gerjast í kollinum á Milman Parry á Signubökkum fyrir hundrað árum.