Elínborg Una Einarsdóttir
elinborg@mbl.is
Aðsetursskráning Grindvíkinga er til skoðunar í framkvæmdanefnd um málefni bæjarins og verður væntanlega tekin fyrir á Alþingi. Ekki er ljóst hvenær.
Síðustu vikur hafa mbl.is og Morgunblaðið fjallað um aðsetursskráningu Grindvíkinga en bæjastjórar Voga og Reykjanesbæjar hafa lýst því yfir að tímabært sé að breyta ákvæði sem gerir Grindvíkingum kleift að vera með skráð lögheimili í Grindavík en aðsetur annars staðar.
Bæjarstjóri Grindavíkur hefur hins vegar lýst því yfir að lagaákvæðið sé mjög mikilvægt til þess að viðhalda Grindavíkurbæ og leggst gegn breytingum á því.
Alþingi tekur lokaákvörðun
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra segir málið á borði framkvæmdarnefndar um málefni Grindavíkur.
„Alþingi tekur ákvörðun um þetta fyrirkomuleg á sínum tíma og það er þá hugsað svo íbúar Grindavíkur fái ráðrúm til að meta stöðuna og þá taka ákvörðun um sína framtíð. Þetta er auðvitað allt partur af þessari heildarmynd og framkvæmdanefndin er að skoða þetta líka,“ segir Svandís og bætir við að líklegt sé að Alþingi muni taka lokaákvörðun um málið.
Í viðtali við Morgunblaðið nýverið talaði Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri Voga um að með ákvæðinu sé ábyrgðinni á því að tryggja rekstrargrundvöll Grindavíkurbæjar varpað á nágrannasveitarfélögin sem verða af miklum útsvarstekjum. Þá talaði Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar á sömu nótum í viðtali við mbl.is í vikunni. 494 Grindvíkingar eru búsettir í Reykjanesbæ en greiða ekki útsvar til sveitarfélagsins. „Við höfum látið í ljós þá skoðun okkar að það þurfi að endurskoða þetta ákvæði sem var sett inn í lögin og við höfum komið þeirri skoðun á framfæri,“ sagði Kjartan.
„Ég held að það sé mikilvægt að hlusta eftir öllum þessum röddum en á sama tíma að muna að þessi breyting var gerð með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi og það er Alþingis að meta það hvort við höldum því áfram,“ segir Svandís.
Ráðherrann gat þá engu svarað um hvenær niðurstöðu væri að vænta í málinu.