Vettvangur
Björn Bjarnason
bjorn@bjorn.is
Snemma að morgni fimmtudagsins 30. júlí 1874 höfðu borist fréttir um að skipið Jylland með Kristján IX. konung kæmi til Reykjavíkur síðar þann dag. Varðmenn voru settir upp við Skólavörðu, þar sem nú er Hallgrímskirkja, til að gera bæjarbúum viðvart þegar sæist til konungsskipsins. Bæjarmenn fóru að skrýða hús sín með flöggum og lögð var lokahönd á landgöngubryggjuna sem ætluð var konungi. Tignarbogi hafði verið reistur við sporð bryggjunnar og settar flaggstengur með henni allri. Nú voru dregin flögg á allar stengurnar. Yfir sigurbogann var sett kóróna og þar fyrir neðan og á milli flaggstanganna voru dregnar laufgjarðir, er nokkrar ungar konur og meyjar bæjarins höfðu bundið.
Hér er stuðst við lýsingu Páls Melsteds í blaðinu Víkverja sem birti ítarlegar frásagnir af fyrstu konungskomu Íslandssögunnar í nokkrum tölublöðum á meðan konungur dvaldist hér og eftir að skip hans létti akkerum aðfaranótt 11. ágúst.
Fyrir réttum 150 árum var því mikið um dýrðir í Reykjavík. Samtímamenn töldu að þar gerðust þá atburðir sem uppi yrðu „í sögu vorri um margar aldir“ og sem aldrei myndu „fyrnast, jafnvel þótt land vort með þjóð þess og máli líði undir lok“.
Kristján IX. konungur kom hingað ásamt Valdimar syni sínum og fylgdarliði til að fagna með þegnum sínum að 1000 ár voru liðin frá því að Ísland byggðist. Þá var því einnig fagnað að 1. ágúst 1874 gekk í gildi fyrsta stjórnarskráin um sérstakleg málefni Íslands en konungur hafði birt hana í Kaupmannahöfn 5. janúar 1874.
Fyrir 150 árum var því lagður grunnur að stjórnarskránni sem enn gildir hér. Við stofnun lýðveldisins 17. júní 1944 var ákveðið í stjórnarskrá þess að kjörtímabil forseta Íslands hæfist 1. ágúst og endaði 31. júlí að fjórum árum liðnum. Í vikunni vorum við einmitt minnt á þessa tengingu við konungskomuna og fyrstu stjórnarskrána með embættistöku sjöunda forseta lýðveldisins, Höllu Tómasdóttur. Megi henni vel farnast!
Í Reykjavík var þjóðhátíðin haldin í Öskjuhlíð 2. ágúst 1874. Þau hátíðarhöld eru upphaf hátíða sem nú eru kenndar við verslunarmannahelgina. Í Vestmannaeyjum halda menn enn þjóðhátíð.
Vegna fjölda fólks í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874 voru þrjár messur í Dómkirkjunni þann dag. Í öllum messunum var nýr lofsöngur eftir Matthías Jochumsson sunginn rétt á eftir prédikun við lag eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Lofsöngurinn varð síðan þjóðsöngur okkar Íslendinga; 150 ára afmælis hans ber að minnast í þessari viku.
Messurnar þóttu takast betur en hátíðin síðdegis 2. ágúst í Öskjuhlíðinni. Vindur var „tilfinnanlegur“ og á svæði sem hafði verið hreinsað fyrir gesti var svo mikið moldryk að ekki leið á löngu þar til „allir höfðu á fötum sínum sýnilegan vott um að holtið, er eins og kunnugt er heitir Öskjuhlíð, mætti með fult eins miklum rétti bera nafnið „Öskuhlíð“, segir í Víkverja. Menn hafi unað þessu illa og tínst burtu. Forstöðunefnd hátíðarinnar fékk ámæli fyrir „að skipa um hátíð á jafnfjarlægum stað og Öskjuhlíð“.
Lygnara var um klukkan 19.00 þegar hátíðin hófst að nýju í Öskjuhlíð og konungi þóknaðist að sækja hana með sveit sinni. Þótti þá mörgum gaman að horfa út yfir nesin og Reykjavíkurhöfn þar sem skip fulltrúa frá mörgum löndum lágu, prúðbúin með flöggum.
Í ávarpi í Öskjuhlíð sagði konungur að hann hefði gefið Íslendingum stjórnarskrána „af fúsu geði“ og í trausti þess að hún yrði landinu til farsældar. „Var þessum orðum konungs fagnað með nýjum fagnaðarópum frá mannfjöldanum.“ Í öllum samtímafrásögnum er þess margoft getið að konungur hafi verið hylltur með hrópum samhliða lofsamlegum ræðum. Þá var jafnan sungið konungi til heiðurs og skemmtunar.
Það setti sorgarskugga á hátíðina í Öskjuhlíð að tveir sjóliðar af herskipinu Fyllu sem stóðu fyrir flugeldasýningu særðust illa þegar flugeldar sprungu í höndum þeirra.
Í Víkverja birtist ávarp á ensku fyrir erlenda gesti á þjóðhátíðinni þar sem segir að þátttaka „hins menntaða heims“ í hátíðinni sé „langt um meiri“ en nokkur hafi getað vænst. Útlendingar hafi á hinn bóginn heyrst segja að iðnaðarmenn í Reykjavík hafi haft þá „fyrir féþúfu“ og einnig hafi verið „kvartað yfir dýrri hestaleigu“. Eru gestir beðnir um að minnast þess að þeir komi til landsins á þeim tíma þegar Íslendingum „liggi lífið á“ að hafa hesta sína við heyskapinn.
Í hugleiðingum um stöðu okkar gagnvart öðrum þjóðum vegna stjórnarskrárinnar og þátttöku í alþjóðasamstarfi var sagt að stjórnmál landsins „komist eigi í viðunanlegt horf fyrr en stjórnin verði innlend“.
Þá er rifjað upp að í Kaupmannahöfn hafi sumir haldið á ýmsum tímum að Íslendingar væru að hugsa um að stofna til sambands við Norðmenn eða Ameríkumenn og þeim jafnvel brugðið um að þeir vildu leita styrks til stjórnarherra þýska ríkisins, herra Bismarcks. Hafi helsti „forvígismaður þjóðréttinda vorra“, Jón Sigurðsson, orðið að leita til dómstóla til að fá dæmdan ómerkan slíkan óhróður á sig borinn í dönskum blöðum.
Heimsókn konungs og stjórnarskráin kæfðu ekki sjálfstæðisþrána.
Páll Melsted, sýslumaður og þingmaður, var ritstjóri Víkverja 1873 til 1874. Hann skrifaði mannkynssögu og tók þátt í því með konu sinni Þóru að stofna Kvennaskólann í Reykjavík 1874 og kenndi við hann til 1889. Sú merka menntastofnun er því 150 ára í ár.
Sé litið eina og hálfa öld til baka er þjóðfélagsumgjörðin allt önnur en þjóðlífið ber kunnuglegan blæ í litríkum frásögnum.