Hanna Katrín Friðriksson fæddist í París í Frakklandi 4. ágúst 1964. Þegar hún var tæplega tveggja ára fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur, fyrst í Álfheimana en þegar hún var sex ára flutti fjölskyldan í fallegt hús í Neðra-Breiðholti sem foreldrar hennar höfðu byggt.
„Ég dvaldi aldrei í íslenskri sveit á sumrin sem barn en fór þess í stað oft til Danmerkur á æskuslóðir föður míns. Honum hafði mamma kynnst þegar hún var í námi í Kaupmannahöfn og þau bjuggu saman á pensjónati þar eftir að hann flutti eftir menntaskóla til borgarinnar frá Faaborg á Fjóni þar sem hann ólst upp.“
Mikil handboltakona
Hanna Katrín gekk í Breiðholtsskóla, síðan Hólabrekkuskóla og fór eftir grunnskólann í Menntaskólann í Reykjavík. Hún var mikil íþróttastelpa og lék handbolta með ÍR fram undir tvítugt og eftir það með Val og landsleikirnir urðu hátt á fjórða tuginn. „Úr boltanum koma margar af mínum bestu vinkonum og við hittumst mjög reglulega en höfum skipt út handboltanum fyrir golfbolta.“
Eftir menntaskólann fór hún í Háskóla Íslands og lærði þar heimspeki og hagfræði áður en hún fór til Bandaríkjanna og lauk MBA-gráðu frá Kaliforníuháskólanum í Davis. „Ég starfaði í áratug sem blaðamaður við Morgunblaðið áður en ég hélt til frekara náms í Bandaríkjunum. Þar á ritstjórninni kynntist ég konu minni Ragnhildi Sverrisdóttur en við héldum einmitt í vor upp á 30 ára samband okkar. Morgunblaðið var einn skemmtilegasti vinnustaður sem ég hef kynnst og ég á marga góða vini frá árunum þar.“
Þegar þær Ragnhildur fluttu aftur heim til Íslands haustið 2001 hafði fjölgað í fjölskyldunni því úti eignuðust þær dæturnar Elísabetu og Margréti. „Við vorum svo heppnar að fá tvíbura og það hefur bæði verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt að fylgjast með þessum ólíku flottu einstaklingum vaxa úr grasi. Ég reyndi að koma þeim í handbolta en það tókst ekki. Fótboltinn varð ofan á hjá þeim, en við deilum meðal annars áhuga á útivist og lestri góðra bóka.“
Hanna Katrín fór að vinna við Háskólann í Reykjavík við heimkomuna. „Það var annar skemmtilegur og frjór vinnustaður, og aftur naut ég þess að kynnast frábæru fólki sem margt er meðal góðra vina minna í dag. Í HR var ég í nokkur góð ár sem framkvæmdastjóri Stjórnendaskólans og síðar framkvæmdastjóri HR, en næsta stóra skref var þegar ég hóf störf hjá Icepharma árið 2010 þar sem ég gegndi stöðu framkvæmdastjóra heilbrigðistæknisviðs.“
Nýr vettvangur í Viðreisn
Haustið 2016 bauðst Hönnu Katrínu að taka efsta sætið á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir kosningarnar í lok október það árið. „Ég hafði í nokkurn tíma þar á undan tekið þátt í hugmyndavinnu um stofnun frjálslynds og borgaralegs stjórnmálaflokks sem hafði aðild Íslands að Evrópusambandinu á stefnuskrá sinni, að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu vel að merkja. Stofnun Viðreisnar varð að veruleika í maí 2016, en það hafði ekki hvarflað að mér að taka beinan þátt í stjórnmálastarfinu. Það breyttist hins vegar síðustu daga ágústmánaðar þegar ég tók þá ákvörðun að hella mér út í þetta, ég kvaddi minn góða vinnustað 1. september og var komin á fullt í kosningabaráttu 2. september.“ Síðan þá hefur hún verið þingmaður Viðreisnar eftir að hafa gengið í gegnum þrennar þingkosningar á þessum tæpu átta árum.
„Stjórnmálin eru þess eðlis að þau eiga það til að taka allt pláss sem í boði er. Það er því eins gott að þau eru líka áhugamálið. Fyrir utan hefðbundin þingstörf og þau verkefni sem fylgja starfi þingflokksformanns sem ég hef verið frá upphafi þingferilsins sit ég í forsætisnefnd Norðurlandaráðs þar sem ég hef líka verið formaður flokkahóps Miðjuflokka þar sem Viðreisn og fleiri íslenskir flokkar eru meðal annarra.“
Hanna Katrín hefur í gegnum tíðina setið í fjölda nefnda og stjórna þótt það hafi borið minna á slíku eftir að hún var kjörin á þing.
Fyrir utan stjórnmálin hefur Hanna Katrín mikinn áhuga á íþróttum. „Þess utan er ég mikið fyrir útiveru alls konar allan ársins hring og hef alltaf verið mikill lestrarhestur. Ég sæki orku fyrst og fremst í samskipti við fjölskyldu og vini og er svo heppin að þar á ég mikinn fjársjóð.“
Hanna Katrín bendir á að reynslan úr íþróttum nýtist vel á þingi. „Það eru margir sameiginlegir þættir. Ég hef keppnisskap og vil ná árangri, bæði persónulega og fyrir liðið mitt. Vissulega verða stundum átök, en þegar þeim lýkur þá get ég lagt þau að baki og snúið mér að næsta baráttumáli, rétt eins og þegar einum handboltaleik lauk og annar beið.“
Fjölskylda
Maki Hönnu Katrínar er Ragnhildur Sverrisdóttir, f. 28.8. 1960, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. Foreldrar hennar voru hjónin Greta Lind Kristjánsdóttir, f. 25.7. 1931, d. 20.11. 2009, húsmóðir og Sverrir Hermannsson, f. 26.2. 1930, d. 12.3. 2018, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og bankastjóri í Reykjavík.
Börn Hönnu Katrínar og Ragnhildar eru Elísabet Friðriksson, f. 19.3. 2001, háskólanemi í Bandaríkjunum, og Margrét Friðriksson, f. 19.3. 2001, háskólanemi í Bandaríkjunum.
Bræður Hönnu Katrínar eru Steen Magnús Friðriksson, f. 12.9. 1961, læknir í Reykjavík; og Knútur Þór Friðriksson, f. 15.10. 1968, flugstjóri í Reykjavík.
Foreldrar Hönnu Katrínar eru Torben Friðriksson, f. 21.4. 1934, d. 4.2. 2012, ríkisbókari, áður framkvæmdastjóri Innkaupastofnunar Reykjavíkur, og Margrét Björg Þorsteinsdóttir, f. 17.10. 1930, d. 6.7. 2016, handavinnukennari í Bjarkarási.