Úrkoma var sú mesta sem hefur mælst í júlímánuði á Ásgarði, Lambavatni og Hjarðarfelli á Vesturlandi. Það var óvenjublautt og þungbúið á suðvestan- og vestanverðu landinu en þurrara og sólríkara á Norður- og Austurlandi. Þetta kemur fram í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar.
Hlýjast var á Norðausturlandi en kaldast á Suðvesturlandi. Hæsti hiti mánaðarins mældist á Egilsstaðaflugvelli 14. júlí, þá 27,5 stig. Lægsti hiti mældist á Gagnheiði, þá 5,7 stig.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 110,9 sem er 73,9 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á meðan mældust sólskinsstundir á Akureyri 22,5 stundum yfir meðallagi fyrir sama tímabil eða 175,0 stundir.
Úrkomusamur mánuður
Það var mikið vatnsveður á Vesturlandi, þá sérstaklega á Snæfellsnesi og Barðaströnd, dagana 13. og 14. júlí. Því fylgdu miklir vatnavextir og einhverjar skriður féllu á þessum svæðum.
Sólarhringsúrkoman á Grundarfirði að morgni 14. júlí mældist 227 mm sem er mesta úrkoma sem hefur verið mæld á einum sólarhring í júlímánuði á landsvísu. Einnig var mjög úrkomusamt á Tröllaskaga og í Skagafirði dagana 21. og 22. júlí. Nokkrar aurskriður féllu í kjölfarið á Siglufirði og Ólafsfirði.
Í Reykjavík mældist úrkoma 89,7 mm sem er 80% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020 og hefur hún ekki mælst meiri í júlí síðan 1984, þó var júlí 2014 álíka blautur. Á Akureyri mældist úrkoman 24,4 mm sem er um 70% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 56,7 mm og 61,5 mm á Höfn í Hornafirði.
Meðalhiti lækkandi
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins var 4,3 stig sem er 0,6 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur meðalhiti mánaðanna verið 3,5 stig sem er 0,5 stigum undir meðallagi.
Fyrstu sjö mánuðina mældist heildarúrkoma í Reykjavík 443,3 mm sem er 95% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020 en á Akureyri mældist hún 321,1 sem er 20% umfram meðalúrkomu.