Hinn 5. júlí voru 18 Íslendingar, 13 karlmenn og fimm konur á aldursbilinu 28-71 árs, ákærðir í máli sem tengist glæpahópi sem er grunaður um innflutning, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Málið er ýmist kennt við potta, þar sem fíkniefni fundust falin í pottum, eða Sólheimajökul, þar sem spjallhópur nokkurra sakborninga er sagður bera nafn jökulsins.
Samkvæmt ákæru sem Morgunblaðið hefur undir höndum eru níu sakborningar ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfelld fíkniefnalagabrot sem þeir eru sagðir hafa sammælst um að fremja á árinu 2023 og til 11. apríl 2024. Elstu sakborningarnir eru 63 ára kona og 71 árs karlmaður sem bæði eru foreldrar annarra sakborninga, en lögreglan telur sig hafa höfuðpaurinn, 47 ára gamlan karlmann, í haldi.
Við rannsókn málsins lagði lögreglan hald á fimm kíló af fíkniefnum og 37 milljónir króna í reiðufé, en einnig lagði hún hald á verulegt magn vopna, m.a. ýmsar gerðir skotvopna, sverð, fimm axir og fjölda stunguvopna, en nánar er fjallað um málið á mbl.is.