Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Þótt setningarathöfn Ólympíuleikanna hafi komið ansi vel út í sjónvarpi er óhætt að segja að hún hafi verið stórslys fyrir þá sem voru á staðnum. Hugmyndin að láta báta sigla niður ána Signu með keppendur og fylgdarlið þeirra hljómaði vel á pappír og á teikningum fyrir leikana. Útkoman var hins vegar ömurleg.
Margt fólk borgaði tugi þúsunda til að vera viðstatt athöfnina en fékk afar lítið fyrir sinn snúð. Bátarnir sigldu hratt fram hjá áhorfendapöllunum og voru síðan horfnir örfáum sekúndum síðar.
Þá voru skemmtiatriði víða um borgina sem þýddi að fólkið á áhorfendapöllunum sá þau ekki, nema á stórum skjáum. Fólk var því að borga háar fjárhæðir til að sjá báta sigla hratt og horfa á skemmtiatriði í sjónvarpinu saman.
Til að bæta gráu ofan á svart var algjört úrhelli allan tímann og fólk fór ekki aðeins vonsvikið heim heldur einnig eins blautt og hægt var að vera, eftir um það bil sjö tíma hátíð í grenjandi rigningu.
Hátíðin var allt of löng, ansi lítið fyrir augað fyrir viðstadda og hreinlega misheppnuð. Hver langa og leiðinlega ræðan á fætur annarri og lopinn teygður eins mikið og hægt er. Það hefði enginn kvartað ef hátíðin hefði verið fjórum tímum styttri.
Bakvörður dagsins sat rétt hjá Eiffel-turninum meðan á hátíðinni stóð, nánast við hliðina á Frakklandsforseta og Bjarna Ben. Þrátt fyrir góðan félagsskap var ekki mikið að sjá þar heldur, þar sem bátarnir sigldu allt annars staðar í borginni.
Sem betur fer þurfti bakvörður dagsins ekki að borga sig inn. Hann hefði beðið um endurgreiðslu.