Ein með öllu Fjölmennt var í miðbæ Akureyrar í gær en gert er ráð fyrir miklum fjölda á Eina með öllu um helgina.
Ein með öllu Fjölmennt var í miðbæ Akureyrar í gær en gert er ráð fyrir miklum fjölda á Eina með öllu um helgina. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Engan skal undra að á annan tug þúsunda gesta sé á Einni með öllu á Akureyri, enda spáð 18 stiga hita á sunnudaginn. Fjöldi viðburða er á dagskrá á hátíðinni um helgina. „Það er komið fullt af fólki í bæinn,“ segir Davíð Rúnar…

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Engan skal undra að á annan tug þúsunda gesta sé á Einni með öllu á Akureyri, enda spáð 18 stiga hita á sunnudaginn. Fjöldi viðburða er á dagskrá á hátíðinni um helgina.

„Það er komið fullt af fólki í bæinn,“ segir Davíð Rúnar Gunnarsson, eigandi Viðburðastofu Norðurlands, í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir erfitt að segja til um það nákvæmlega hversu margir mæta þar sem enginn aðgangseyrir er á hátíðina. Hann segir þó að venjulega sé miðað við um 15 þúsund manns.

„Þetta er svolítið mikið þannig að fjölskyldur eru að koma til að vera alla helgina,“ segir hann spurður hvort mikill munur sé á fjölda fólks eftir dögum.

Páll Óskar kemur fram

Á dagskránni kennir ýmissa grasa og hinn sívinsæli dagskrárliður Mömmur og möffins fer fram í ár sem fyrr, en á nýjum stað.

Viðburðurinn verður haldinn á Ráðhústorginu í miðbænum, en þar er betra aðgengi fyrir fjöldann sem fylgir viðburðinum.

Mömmur og möffins stendur frá klukkan 14 til 16 í dag og rennur allur ágóðinn af sölunni til fæðingardeildarinnar á Akureyri.

„Þá eru mömmur í bænum og einhverjir feður sem eru að taka sig saman og baka möffins. Þetta er skreytt í öllum litum og alls konar,“ segir Davíð og bætir við:

„Þetta hefur alltaf verið haldið í Lystigarðinum á Akureyri en núna færðum við þetta niður á Ráðhústorg vegna þess að þetta er orðið svo risastórt. Þetta er ótrúlega skemmtilegur viðburður og þá enda möffins inni í öllum hjólhýsum og öllum íbúðarhúsum Akureyrar og nágrennis.“

En vafalaust er aðalkvöldið á sunnudag þegar Sparitónleikarnir eru haldnir.

Þar koma fram margir tónlistarmenn eins og til dæmis Páll Óskar, Stjórnin, Herra Hnetusmjör og Prettyboitjokko.