Félagar Á sýningunni, sem er til húsa á Laugavegi 29 þar sem verslunin Brynja var áður, má sjá brot af eldri verkum þeirra Eiðs og Einars. Sýningunni lýkur á morgun.
Félagar Á sýningunni, sem er til húsa á Laugavegi 29 þar sem verslunin Brynja var áður, má sjá brot af eldri verkum þeirra Eiðs og Einars. Sýningunni lýkur á morgun. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Í húsinu, sem áður hýsti verkfæraverslunina Brynju á Laugavegi 29, er nú að finna tímabundna vinnustofu og sýningarstúdíó, og þar hafa félagarnir Eiður Snorri og Einar Snorri, sem einnig ganga undir listamannanafninu Snorri Bros, komið sér fyrir, og …

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Í húsinu, sem áður hýsti verkfæraverslunina Brynju á Laugavegi 29, er nú að finna tímabundna vinnustofu og sýningarstúdíó, og þar hafa félagarnir Eiður Snorri og Einar Snorri, sem einnig ganga undir listamannanafninu Snorri Bros, komið sér fyrir, og prýða nú ljósmyndir þeirra veggi sýningarrýmisins.

Sýningin ber heitið Strákar og stelpur – í lit og lýkur á morgun, sunnudag, en hún byggir á eldri verkum þeirra félaga úr samnefndri bók frá árinu 1994. Tilefni sýningarinnar er þó ekki 30 ára útgáfuafmæli bókarinnar, heldur það, að þeir Eiður og Einar hafa nú unnið ötullega við að færa myndirnar í nýjan búning, en það hafa þeir gert með að handmála öll gömlu svarthvítu prentin í fjölskrúðugum litum.

Innblástur úr óvæntri átt

„Kveikjan að þessu öllu kom þegar nokkrar myndanna skemmdust lítilega þegar termítar komust hluta í þeirra. Myndirnar fóru frá því að vera bara venjulegar ljósmyndir, og öðluðust því óvænt listrænt gildi, með hjálp mauranna,“ segir Einar Snorri, í samtali við Morgunblaðið.

„Við byrjuðum því á að leika okkur, og gera tilraunir með liti og áferð myndanna. Fyrstu prufurnar komu svo einstaklega vel út, að eftir það var ekki aftur snúið og við héldum við áfram með alla seríuna,“ segir Einar og bætir við:

„Innblástur myndanna sjálfra kemur ekki úr neinni sérstakri átt, heldur algjörlega frá okkur sjálfum. Þegar upp er staðið hafa þó sumir bent á að þær minni á verk í anda Michelangelos.“

Einar segir afar ánægjulegt að myndirnar fái nú að njóta sín uppi á vegg, í stað þess að safna ryki ofan í geymslukössum. Hann og Eiður hafa starfað lengi saman, en þeir eru báðir fjölhæfir listamenn. Ásamt því að vera ljósmyndarar starfa þeir einnig við kvikmyndagerð en sýningin nú er þó sú fyrsta sem þeir setja upp saman aftur, eftir nokkurra ára hlé.

„Það var algjör skyndiákvörðun að setja upp sýninguna, en okkur fannst þetta svo flott, að fljótlega vorum við komnir með efni í heila sýningu,“ segir Einar að lokum.