Í Châteauroux
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Hákon Þór Svavarsson varð í gær annar Íslendinga til að keppa í leirdúfuskotfimi með haglabyssu á Ólympíuleikum og sá fyrsti frá því Alfreð Karl Alfreðsson hafnaði í 47. sæti í greininni á leikunum í Sydney árið 2000.
Hákon hóf keppni á fyrri degi í undankeppninni í Châteauroux í Frakklandi, en skotkeppnin fer fram í borginni, sem er 270 kílómetra suður af París.
Hákon tók þátt í þremur umferðum af fimm í undankeppninni í gær og komst vel frá sínu. Tvær síðustu umferðirnar fara fram í dag. Hákon hitti úr 69 skotum og klikkaði á sex, sem dugði honum upp í 22. sæti fyrir seinni daginn í dag.
Þess má geta að Alfreð Karl fékk 66 stig á fyrri deginum árið 2000. Hákon fékk því flest stig sem íslenskur skotmaður hefur fengið á einum degi í íþróttinni á Ólympíuleikum.
Mikill stöðugleiki
Íslenski skotmaðurinn tók 25 skot í hverri umferð og tók því alls 75 skot í gær. Það vantaði ekki stöðugleikann því Hákon hitti úr 23 af 25 skotum í öllum umferðunum. Þeir allra bestu klikkuðu ekki á einu einasta skoti og fara aðeins sex áfram í úrslitin. Keppnin er því gríðarlega hörð og má lítið sem ekkert út af bregða hjá Hákoni í dag, ef hann ætlar að eiga einhvern möguleika á að fara áfram í úrslit.
„Ég er hvorki ánægður né óánægður með stigafjöldann,“ sagði Nikolaos Mavrommatis, grískur þjálfari Hákonar, við Morgunblaðið eftir keppnina.
Erfiðar aðstæður
„Hákon var óheppinn í dag. Hann hefði auðveldlega getað verið með fleiri stig því þrjár dúfur voru alveg við það að brotna. Litlu smáatriðin skipta svo rosalega miklu,“ bætti hann við.
Hákon er að keppa á sínum fyrstu Ólympíuleikum og sá gríski er ánægður með Íslandsmeistarann, sem keppti í krefjandi aðstæðum.
„Ég er ánægður með frammistöðuna hjá Hákoni og hvernig hann hélt einbeitingu. Það er mjög erfitt að einbeita sér með þessa áhorfendur. Stundum heyrðist of mikið í þeim þegar Hákon var að skjóta. Hann náði samt að halda ró sinni.
Venjulega heyrist ekkert í þessum keppnum nema á Ólympíuleikunum og áhorfendur þegja. Það breytist svo í úrslitunum en í undankeppninni fá skotmenn frið til að skjóta. Á Ólympíuleikunum hagar fólk sér eins og það vill.“
Fann fyrir stuðningnum
Hákon fékk góðan stuðning úr stúkunni frá vinum og vandamönnum, sem voru vel skreyttir íslenska fánanum.
„Við Hákon erum mjög ánægðir með það og Hákon finnur vel fyrir ólympíuandanum. Hann finnur fyrir ástinni og stuðningnum. Hann naut þess mjög mikið,“ útskýrði Grikkinn.
Það fylgir því mikil pressa að keppa á Ólympíuleikunum en það var ekki að sjá að það hafi náð til Hákons.
„Það kom mér á óvart hvað hann réði vel við stressið og pressuna. Ég held hann hafi komið sjálfum sér á óvart,“ sagði Mavrommatis við Morgunblaðið.