Iðunn Andrésdóttir
idunn@mbl.is
Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri í Hornafirði, segir uppbyggingu sveitarfélagsins í fullum gangi. Samfélagið sé ört vaxandi og uppbygging innviða mikil. Samfélagið sé vissulega breytt vegna uppvaxtar ferða- og kvikmyndaiðnaðarins á svæðinu. „Landslagið hérna er náttúrulega bara kvikmyndalandslag og er sviðsmynd ýmissa bíómynda, þáttaraða og auglýsinga,“ segir Sigurjón.
„En svo er náttúrulega líka smá galið að að svona lítið sveitarfélag sé með um 20 a la carte-eldhús,“ bætir hann við og skellir upp úr.
Sigurjón tók til starfa sem bæjarstjóri í Hornafirði fyrir tveimur árum og unir sér þar afar vel þrátt fyrir að vera nýr í sveitarfélaginu. Sjálfur er hann ættaður úr Eyjum og er búsettur í Flóahreppi.
Breytt bæjarmynd
Sigurjón tók á móti blaðamanni og ljósmyndara og veitti sýnisferð um Höfn til að sýna þá miklu uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað á síðustu árum og þau áform sem eru á prjónunum hjá sveitarfélaginu.
Talsverðar breytingar á bæjarmyndinni eru í vændum en auk yfirstandandi brúa- og vegaframkvæmda yfir Hornafjarðarfljót stendur uppbygging nýs miðbæjar á Höfn einnig til og verða þar hótel, íbúðir og verslanir. Arkitektastofan Batteríið, sem stóð að hönnun miðbæjarins á Selfossi, stendur að hönnun nýja miðbæjarins á Höfn.
Mun nýi miðbærinn rísa á hafnarsvæðinu þar sem þegar eru vinsæl veitingahús en Sigurjón segir greinileg skil verða á milli nýja miðbæjarins og vinnusvæðis hafnarinnar, svo starfsemi sjávarútvegsins raskist ekki.
„Við sjáum svona samspilið milli ferðamannsins og sjávarútvegsins hér. Þetta er mjög skemmtilegt svæði sem við erum að vinna í að þróa,“ segir Sigurjón um hafnarsvæðið.
Ferðaþjónustan sé orðin önnur meginstoð atvinnulífsins á Höfn, samhliða sjávarútveginum, og sé oftar en ekki fyrsta sjávarútvegsþorpið sem ferðamenn heimsæki á ferð sinni um landið. Flesta daga ársins séu um það bil jafn margir ferðamenn og heimamenn í sveitarfélaginu öllu.
Sigurjón segir mörg baðlón og hótel í vinnslu og margt á uppleið í þeim efnum. Bláa lónið hf. hafi nýverið fest kaup á jörðinni Hoffelli 2 við rætur Hoffellsjökuls í Austur-Skaftafellssýslu. Þar hyggist forsvarsmenn þess byggja upp tvö hótel og baðlón þar sem gestir geti notið útsýnisins yfir jökullónið.
Bæjarstjórinn fagnar uppbyggingu Bláa lónsins og segir hana vera í afar góðu samstarfi sem sé svo sannarlega öðrum til eftirbreytni. Margir rekstraraðilar hafi hug á að kaupa þar jarðir og byggja upp stærðarinnar rekstur en það þurfi ávallt að vera í samtali við nærsamfélagið.
„Okkur gengur vel í Hornafirði og við viljum hafa eitthvað um málið að segja,“ segir Sigurjón. „Við ætlum að hafa skoðun á því hversu hröð uppbyggingin verður,“ bætir hann við.
Nýr „Jakobsvegur“
Þá standi til að byggja upp betra útisvæði við Leiðarhöfða eftir vinningstillögu en Sigurjón segir einnig standa til að leggja fram drög að jöklastíg sem tengi Reynivelli við þann hluta sem þegar sé komin úr Skaftafelli inn í Svínafell og úr Fjallsárlóni inn í Jökulsárlón.
„Við sjáum fyrir okkur svona Jakobsveg, fyrir sunnan jökul, þar sem er hægt að ganga, hjóla og hlaupa,“ segir Sigurjón og segir veginn verða um 200 kílómetra á lengd.
Hann segir mikilvægt að uppbygging ferðaþjónustunnar fari hönd í hönd við styrkingu innviða og sveitarfélagsins fyrir fólkið sem þar býr og segir Hornafjörð svo sannarlega ekki slá slöku við í þeim efnum.
Bæjarstjórnin undirbúi til að mynda uppbyggingu á íbúðasvæði í norðurhluta bæjarins þar sem um 220 íbúðir ásamt nýju verslunar- og þjónustusvæði muni rísa.
Sömuleiðis sé ný viðbygging við hjúkrunarheimilið Skjólgarða við það að taka á sig mynd og er búist við að íbúar get flutt inn í lok þessa árs.
Auk nýju byggingarinnar verður gamla hjúkrunarheimilið tekið í gegn og tíu tvöföld herbergi gerð að einkaherbergjum. Er búist við að framkvæmdum ljúki í lok árs 2025.
„Þetta er glæsilegt hjúkrunarheimili sem gjörbreytir aðstöðu allra íbúa,“ segir Sigurjón.
Koma ekki öllu í verk
Framkvæmdir við menningarhús Austur-Skaftafellssýslu séu sömuleiðis hafnar, en um 350 milljónir fara í verkefnið að sögn Sigurjóns og verður gamla húsið tekið algjörlega í gegn og undirbúningur uppbyggingar nýs íþróttahúss hafinn, svo eitthvað sé nefnt.
Sveitarfélagið hafi nýlega opnað fyrir tilboð á breytingum á fyrstu hæð ráðhússins, þar sem Vatnajökulsþjóðgarður muni hafa aðsetur ef allt gengur eftir, enda sé þjóðgarðurinn mikið hjartans mál Hornfirðinga. Oft sé þó hægara sagt en gert að bjóða slík verk út og ekki alltaf mörg eða hagstæð tilboð sem berast.
„Við erum að bjóða út verk og við erum að fá fáa sem bjóða í og þeir eru mögulega að bjóða mjög hátt. Það er bara svo mikil uppbygging að við komum ekki öllum þeim framkvæmdapeningum sem við áætlum á hverju ári í vinnu.“