Fagnað Kamala Harris og Joe Biden taka á móti Evan Gershkovich.
Fagnað Kamala Harris og Joe Biden taka á móti Evan Gershkovich. — AFP/Roberto Schmidt
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fangar, sem sleppt var úr haldi á fimmtudag í umfangsmestu fangaskiptum Rússa og vestrænna ríkja frá lokum kalda stríðsins, fengu hlýjar mótttökur þegar þeir komu á áfangastaði eftir skiptin. Joe Biden Bandaríkjaforseti og Kamala Harris varaforseti…

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Fangar, sem sleppt var úr haldi á fimmtudag í umfangsmestu fangaskiptum Rússa og vestrænna ríkja frá lokum kalda stríðsins, fengu hlýjar mótttökur þegar þeir komu á áfangastaði eftir skiptin. Joe Biden Bandaríkjaforseti og Kamala Harris varaforseti tóku á móti fólkinu á Andrews-herflugvellinum nálægt Washington, Vladimír Pútín Rússlandsforseti var mættur á Vnukovo-flugvelli í Moskvu þegar flugvél með Rússa, sem sleppt var, lenti þar og Olaf Scholz kanslari Þýskalands var á alþjóðaflugvellinum í Bonn þegar flugvél lenti þar með fólk sem setið hafði í rússneskum fangelsum.

Fangaskiptin sjálf gengu hratt og vel fyrir sig en aðdragandi þeirra var langur og flókinn og samningaviðræðurnar kröfðust þolinmæði og skapandi hugsunar en að lokum náðu báðir aðilar aðalmarkmiðum sínum fram.

Leynilegar viðræður

Háttsettir bandarískir embættismenn veittu blaðamönnum upplýsingar um þróun viðræðnanna á fimmtudagskvöld. Þeir sögðu að fyrstu vísbendingar um að Rússar kynnu að vilja gera samkomulag um fangaskipti hefðu komið fram haustið 2022. Bandaríkjamenn voru þá að semja um að körfuboltakonan Brittney Griner yrðu látin laus úr fangabúðum í Rússlandi en hún var dæmd til fangelsisvistar fyrir að hafa kannabisolíu í fórum sínum. Griner var látin laus síðar það ár í skiptum fyrir rússneskan vopnasala, Viktor Bout.

En í þessum samningaviðræðum gáfu Rússar skýrt til kynna, að þeir vildu einnig að Vadim Krasikov yrði látinn laus. Hann afplánaði lífstíðarfangelsisdóm í Þýskalandi fyrir að myrða tétjenskan uppreisnarleiðtoga í fjölförnum almenningsgarði í Berlín árið 2019 samkvæmt fyrirskipun stjórnvalda í Kreml en talsmaður Rússlandsstjórnar sagði í gær, samkvæmt frétt AFP, að Krasikov væri starfsmaður rússnesku leyniþjónustunnar FSB.

Jake Sullivan þjóðaröryggisráðgjafi Bandarkjanna kom þessu á framfæri við þýsk stjórnvöld og spurði hvort Þjóðverjar gætu hugsað sér að láta Krasikov lausan í skiptum fyrir rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní, sem þá var í fangabúðum í Rússlandi. Þjóðverjar tóku dræmt í að sleppa dæmdum morðingja en þessar viðræður lögðu grunninn að samkomulaginu um fangaskiptin sem fóru fram á fimmtudag því báðir aðilar komu því skýrt á framfæri hverja þeir vildu fá lausa. Rússar vildu fá Krasikov og Bandaríkjamenn vildu ekki aðeins fá Navalní lausan heldur einnig Paul Whelan, bresk-bandarískan fyrrum hermann sem var dæmdur í Rússlandi í 16 ára fangelsi fyrir njósnir árið 2018.

Fyrstu drög að samkomulagi

Fyrstu drög voru þarna lögð að samkomulagi en enn var langt í land. Í mars 2023 var Evan Gershkovich, 31 árs gamall blaðamaður Wall Street Journal, handtekinn í Rússlandi þar sem hann var í vinnuferð og sakaður um njósnir. Bandaríkin og önnur vestræn ríki gagnrýndu handtökuna harðlega og daginn eftir fyrirskipaði Joe Biden Sullivan að ná samkomulagi við Rússa sem myndi tryggja lausn Gershkovichs og Whelans.

Bandaríkin höfðu samband við Rússa og utanríkisráðherrar landanna, Sergei Lavrov og Antony Blinken, ræddu meðal annars saman í síma. Samningaviðræðurnar voru eftir það aðallega í höndum leyniþjónusta landanna þótt embættismenn í Hvíta húsinu væru fyrst um sinn tregir til að blanda CIA eða öðrum leyniþjónustustofnunum í málið þar sem þeir óttuðust að slíkt myndi styðja við ásakanir Rússa um að Gershkovich hefði stundað njósnir.

Ljóst þótti í lok síðasta árs að Rússar myndu ekki taka fangaskipti í mál nema Krasikov væri hluti af þeim. Sullivan ræddi við Jens Plötner þjóðaröryggisráðgjafa Þýskalands nærri vikulega undir lok síðasta árs og í janúar á þessu ári um að Þjóðverjar létu Krasikov lausan. Rússar drógu heldur ekki dul á þá afstöðu sína, að bandarískir þegnar, sem voru í rússneskum fangelsum sakaðir um njósnir, yrðu aðeins látnir lausir í skiptum fyrir einstaklinga sem sætu í vestrænum fangelsum sakaðir um njósnir fyrir Rússa.

Bandaríkin hófu þá leit að njósnurum, sem bandalagsríki þeirra höfðu í haldi og gætu orðið hluti af fangaskiptasamkomulagi. Niðurstaðan varð að Rússum var sleppt úr fangelsum á fimmtudag í Noregi, Póllandi og Slóveníu.

Olaf Scholz kanslari Þýskalands hitti Biden í Hvíta húsinu í febrúar sl. og að sögn embættismanna ræddu þeir möguleika á fangaskiptum þar sem Krasikov, Navalní, Whelan og Gershkovich yrði sleppt. Jákvæðar vísbendingar komu einnig frá Rússlandi. Pútín sagði þannig í viðtali við sjónvarpsmanninn Tucker Carlson í byrjun febrúar, að hann útilokaði ekki að Gershkovich gæti farið til síns heima. Þetta var túlkað sem svo að Rússar væru opnir fyrir samkomulagi.

Uppnám vegna dauða Navalnís

En 16. febrúar bárust fréttir af því að Navalní hefði látist í fangaklefa í Síberíu og það setti samkomulagið um fangaskiptin í uppnám. Háttsettur bandarískur embættismaður sagði við breska ríkisútvarpið BBC, að Kamala Harris hefði síðan átt tvo mikilvæga fundi sem héldu viðræðunum gangandi. Hún sótti öryggsmálaráðstefnu í München í febrúar þar sem hún ræddi við Scholz um mikilvægi þess að Krasikov yrði látinn laus, og einnig ræddi hún við forsætisráðherra Slóveníu þar sem rússnesk hjón sátu í fangelsi fyrir njósnir. Þau voru látin laus á fimmtudag og komu til Moskvu ásamt tveimur börnum þeirra.

Í vor fór nýtt samkomulag að taka á sig mynd. Í júní samþykktu þýsk stjórnvöld loks að Krasikov yrði leystur úr haldi. „Ég skal gera þetta fyrir þig,“ sagði Scholz við Biden, að sögn embættismanna.

Blaðið New York Times segir síðan, að þáttaskil hafi orðið 25. júní þegar hópur starfsmanna CIA átti leynilegan fund með rússneskum leyniþjónustumönnum í höfuðborg í Mið-Austurlöndum. Þar lögðu Bandaríkjamenn fram tilboð um að skipst yrði á 24 föngum, sem sátu í fangelsum í Rússlandi, Bandaríkjunum og nokkrum Evrópuríkum, mun stærra og flóknara samkomulag en áður var til umræðu. Rússnesk stjórnvöld svöruðu um miðjan júlí og féllust á þetta. Bandarískir embættismenn sögðu við blaðið, að samkomulagið sem á endanum náðist hefði í öllum aðalatriðum verið í samræmi við þessa tillögu.

Viðræðurnar voru á lokastigi á sama tíma og þrýstingur jókst á Biden að hætta við forsetaframboð. Sullivan sagði, að aðeins um klukkustund áður en Biden lýsti því yfir að hann myndi draga sig í hlé 21. júlí, ræddi hann í síma við forseta Slóveníu þar sem lokahönd var lögð á fangaskiptin. Þau fóru síðan fram í vikunni og allir önduðu léttar.

Bandarískir embættismenn lögðu áherslu á það í gær, að fangaskiptin boðuðu ekki þíðu í samskiptum Bandaríkjamanna og Rússa. „Það ríkti ekkert traust í þessum samskiptum eða samningum,“ sagði Jon Finer, aðstoðarþjóðaröryggisráðgjafi við CNN.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson