Sagt var að einungis þrjú hundruð manns hefðu mætt á Austurvöll til að samfagna nýjum forseta og fjölskyldu hans á innsetningardegi. Það má vera. En þær tölur segja þó ekki mikla sögu, þar sem veðurspár voru mjög óhagfelldar og mikil rigning, nánast skýfall, varð skömmu fyrir athöfnina. Dró það vafalaust kjark úr mörgum manni til þátttöku í þessari virðulegu útihátíð. Margir hafa þess í stað látið nægja að fylgjast með útsendingum miðla, sem sýndu velskipulagða og virðingarverða athöfn, sem fylgdi, eins og sjálfsagt er, viðteknum venjum.
Valdaleysið er ekki vandi
Það vefst fyrir mörgum að embætti forseta Íslands, sem slíkt, sé ekki valdamikið, enda ef svo háttaði til hér á landi myndu þeir kjósendur, sem „yrðu undir“ í baráttunni um forsetaembættið, þurfa mun lengri tíma til að jafna sig eftir úrslit slíkra kosninga, hefði meiri harka og einhver raunveruleg pólitísk alvara fylgt þeim. Og eins er mjög ólíklegt að forsetar fengju stuðning til að sitja jafn lengi á sínum sessi, eins og svo mörg dæmi eru um hér á landi og gerir engan skaða.
Það er einnig alþekkt, að þótt einungis sé tiltölulega stuttur tími liðinn frá forsetakosningum og þá sé spurt um fylgi við eða velvild til nýja forsetans, að þá er allur þorri þjóðarinnar að jafnaði ágætlega sáttur við viðkomandi, og það þótt sæmilega hafi verið tekist á af frambjóðendum í aðdraganda kjördags. Umræðan í nýliðinni kosningabaráttu um forsetann fór að nokkru í svipaðan farveg og stundum áður.
Ef vilji stendur til þess, að finna að einhverju í aðdraganda kosninga, þá væri það ekki síst það atriði, sem ekki hefur fundist lausn á, að frambjóðendur séu orðnir of fjölmenn sveit og þar á meðal voru nokkrir sem í ljós kom að áttu ekkert erindi. Fjölmiðlar og þá ekki síst sá opinberi, töldu sér eðlilega skylt að gæta eins mikils jafnræðis og frekast væri hægt. Og var þá enginn kostur góður, og því oft að fyrirkomulaginu fundið. Væri reynt að skilja þá að, sem minnst fylgi höfðu það og það sinnið í könnunum, þá fékk það fólk, sem dregið var í þann dilk, litla von um að rífa sig upp úr fylgisleysinu, þar sem þá lá fyrir að minnstur áhugi væri fyrir því fólki. Og innan þess hóps voru þó einstaklingar, sem fyrir fram mátti gera ráð fyrir að ættu raunverulegt og velgrundvallað erindi við kjósendur.
En jafnvel innan þess hóps, sem almenningur fyrir meðalgöngu kannanna taldi eiga mest erindi við þjóðina, leið frambjóðendum ekki nógu vel með það, sem stjórnarskráin segði fyrir um að væri verkefni forsetans. Enginn þeirra gat alveg látið vera að bæta við verkefnum fyrir forsetann, sem engin efni stóðu til, og var þeim vorkunn að telja sig þurfa að sýna hugmyndaflug, aðallega til að flytja ekki sömu rullu og hinir, sem voru komnir í fyrstu deild hjá fjölmiðlunum, og undirstrika þannig ímyndaða sérstöðu sína. Auðvitað skáru sumir sig úr, eins og Ástþór forsetaframbjóðandi og friður hans 2000, sem nú er orðinn 25 ára. Hann virðist reyndar sannfærður um, að ef handhafi fyrrnefnds friðar yrði óvænt forseti suður á Bessastöðum, þá stæði heimurinn í röð tilbúinn að hlýða, rauður í framan, á íslenska friðarhöfðingjann.
En Ísland á ekkert sérstakt tilkall til þess, að ímynda sér að allt það undarlega tal myndi fá sérstakan hljómgrunn hjá helstu valdamönnum heims. Við hér höfum aldrei kynnt okkur sem friðarhöfðingja, með fjöður í hattinum, en höfum stöku sinnum gert okkur bærilega hlægileg með öðrum hætti. Að vísu lét sá ágæti Ástþór iðulega ófriðlega, þegar hann vildi fá meiri tíma en hinir sem voru með honum í settinu, en höfðu, að hans mati, ekki eins brýnt erindi.
Þannig byrjaði þetta
Sjaldan hefur verið tekist á við forsetakjör á Íslandi af hálfu pólitískra flokka, eða hlutur þeirra orðið fyrirferðarmikill í kosningabaráttunni. En það var gert við forsetakosningarnar 1952. Ásgeir Ásgeirsson vann þær kosningar naumlega. Hann var studdur af mörgum og þá ekki síst af Alþýðuflokknum. Og einmitt þá varð munurinn hvað minnstur á milli tveggja frambjóðenda og segja má að Gísli Sveinsson, sem var forseti sameinaðs þings á Þingvöllum, það herrans ár 1944, þegar til Lýðveldisins Íslands var stofnað, hafi þar valdið miklu.
Gísli Sveinsson bauð sig fram til embættis forseta, gegn meintu ofurvaldi þeirra Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar í stjórnmálalífi landsins, en báðir höfðu gegnt embætti forsætisráðherra þess lengi. En miklu og kannski öllu hefur annar ráðið meiru í þetta sinn. Gunnar Thoroddsen, tengdasonur Ásgeirs Ásgeirssonar og borgarstjóri í Reykjavík fyrir stuðning Sjálfstæðisflokksins, fór gegn forystunni og flokknum sem slíkum og færði rök fyrir því, að flokkarnir ættu ekki að binda meðlimi sína við forsetakjör og menn áttu að hafa „frelsi til að velja“.
Þegar Gunnar Thoroddsen sóttist eftir því, að taka við forsetaembættinu af Ásgeiri tengdaföður sínum 1968, mátti Gunnar finna að ekki höfðu allir Sjálfstæðismenn gleymt „svikunum“ frá 1952, eins og það var iðulega kallað á milli manna. En það þýðir ekki, að Gunnar hafi ekki enn notið mikils fylgis meðal margra Sjálfstæðismanna, en það fylgi átti mjög erfitt þegar Gunnar Thoroddsen, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, myndaði ríkisstjórn með fáeinum stuðningsmönnum sínum í flokknum, gegn þorra Sjálfstæðismanna og skildi formann Sjálfstæðisflokksins eftir, sem leiðtoga stjórnarandstöðunnar! Ríkisstjórnin sú stóð frá 1980 til 1983 og stjórnarferillinn var mjög ólánlegur, enda sló verðbólgan upp í 130% og um 80% sé miðað við heilt ár. Hinir ábyrgðarlausu vinstriflokkar, sem tóku þátt í þessari stjórnarmyndun og sátu uppi með óvinsældir hennar, gátu ekki ímyndað sér að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi standa þetta ólán af sér.
Borgarstjóratíð
Bréfritari sóttist eftir því að ná meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur 1982 og heyrði hann raunar í útvarpi, að samstjórnarmenn Gunnars Thoroddsen í ríkisstjórn hans, sögðu algjörlega ljóst, að hann myndi aldrei styðja sinn gamla flokk, „eins og hann hefði farið með hann“. Síðasta kvöldið fyrir kjördag hélt borgarstjóraefnið og stuðningsmenn þess baráttufund á Lækjartorgi, gegnt forsætisráðuneytinu. Þegar hann var kynntur sem ræðumaður og var á leið í pontu, sá hann að aðaldyr forsætisráðuneytisins lukust upp og forsætisráðherrann, Gunnar Thoroddsen, fór hægt og virðulega, eins og var hans venja, gekk yfir Lækjargötuna og stillti sér upp í fremstu röð á meðal flokksmanna. Már Jóhannsson, skrifstofustjóri flokksins, gekk til hans og límdi á brjóst hans myndarlegt merki X-D og Gunnar lét það gott heita og brosti. Þetta ár sem hann lifði átti nýi borgarstjórinn iðulega fund í Stjórnarráðinu með forsætisráðherranum, gamla borgarstjóranum, frænda sínum.
Þegar fyrrnefndir atburðir voru rifjaðir upp og meðal annars það, hversu tiltölulega fá atkvæði Gísla Sveinssonar voru, (hann fékk 6,2% atkvæðanna) og þau réðu úrslitum. Án hans atbeina hefði sr. Bjarni Jónsson, sem var hinn prýðilegasti maður, og þráaðist lengi við að láta undan óskum foringja beggja stórflokka um að bjóða sig fram til forseta, náð kjöri. En þeir voru samferðamenn í þeim efnum, Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, og Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem voru báðir einlægir vinir sr. Bjarna Jónssonar. Þá rakst ritari á prýðilega og fróðlega ritgerð og lokaverkefni: „Frelsi til að velja? Gísli Sveinsson og áhrif hans á fyrstu forsetakosningar íslensku þjóðarinnar.“ Ritgerðin er eftir Söru Hrund Helgudóttur, en leiðbeinandi hennar var Ragnheiður Kristjánsdóttir.
Segir mikla sögu
Þessi lokaritgerð er einkar fróðleg og gagnleg til þess að skynja og skilja þetta upphaf og eins nútímaumgengni frambjóðenda um forsetakosningar. Menn muna að höfð voru í hinni gömlu umgjörð um fyrstu forsetakosningarnar þung orð um Gísla Sveinsson og þann „misskilning“ hans að bjóða sig fram og skaða með því alla aðra en Ásgeir Ásgeirsson og Gunnar Thoroddsen. Eins og fyrr sagði, fékk Gísli Sveinsson 6,2% atkvæðanna, en aðeins voru 2,8% atkvæða á milli Ásgeirs sem sigraði og sr. Bjarna Jónssonar. Þá kemur fram, að þessir tveir fyrstu frambjóðendur til embættis forseta Íslands, töldu óviðeigandi að þeir hefðu sig mikið í frammi eða töluðu sínu máli. Rétt væri að stuðningsmenn þeirra töluðu fyrir frambjóðendur og lýstu því hvað gerði það að verkum, að réttmætt þætti og sanngjarnt að mæla eindregið með því, að þeir fengju sem flest atkvæði. Og þá er það athyglisvert, að allir helstu stjórnmálaflokkar landsins og forystumenn þeirra létu mjög til sín taka. Gilti það bæði um að ýta undir frambjóðendur um að þeir byðu sig fram og ekki síður hitt, að amast við því, ef aðrir myndu rugla stöðuna, með því að bjóða sig fram, þegar forystumenn flokkanna höfðu sín á milli gengið frá málum „eins og vant var“.
Og það má glöggt lesa út úr fyrrnefndum fróðleik, að atbeini stjórnmálaflokkanna sem hafði verið í fyrirrúmi, varð í raun bannaður eftir þetta. Enda höfðu mestu valdamenn þjóðarinnar orðið svo ergilegir að þeir voru lengi að jafna sig og enn lengur að fyrirgefa þeim sem „brugðust“.
Þá skal nefnt, að bréfritari var forðum í jólaboði stórfjölskyldunnar, þar sem margt var rætt, og ekki endilega það nýjasta af nálinni. Hinir áhugasömustu um stjórnmál, sem voru margir á þeirri tíð, og nú var rætt um fyrstu forsetakosningarnar. Bréfritara varð á að spyrja þá sem eldri voru á þessa leið. Hverjir í ósköpunum ösnuðust til að kjósa Gísla Sveinsson og gefa þar með alla möguleika frá sér? Og svarið var höstuglegt: „Þetta er furðuleg spurning. Og að þú af öllum mönnum skulir spyrja, þú, sem kaust Gísla Sveinsson, eins og allt þitt fólk.“ Bréfritari taldi, að hann hefði ekkert upp úr því að hafa að segja sem svo: „Ég var nú bara fjögurra ára, þegar þessar kosningar fóru fram.“ Það hefði jólaboðinu þótt ótæk rök. Svo málið var látið kyrrt liggja.