Sveinn Valfells
sveinnv@mbl.is
„Staðan á máli Helguskúrs er sú að sveitarstjórn hefur átt í samræðum við eigendur eignarinnar en samþykkt deiliskipulag frá árinu 2017, um að skúrinn eigi að víkja, liggur enn fyrir. Farið var í viðræður við eigendur skúrsins um framhaldið þegar þetta lá fyrir, og þær standa enn yfir,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþing í samtali við Morgunblaðið, en miklar umræður hafa skapast á Húsavík um hvort áðurnefndur Helguskúr á hafnarsvæðinu skuli fjarlægður eða standa áfram.
Samkvæmt deiliskipulagi Húsavíkurkaupstaðar allt frá árinu 1998 hefur verið áformað að húsið víki, en á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs bæjarins árið 2023 var bókað að ekki væru forsendur til að leyfa skúrnum að standa áfram, þar sem staðsetning hans samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi ásamt því sem framkvæmdir á aðliggjandi lóð miðuðust við að húsið yrði fjarlægt.
Íbúar hafa margir brugðist illa við þessum hugmyndum og var meðal annars blásið til undirskriftasöfnunar um að skúrinn yrði látinn vera. Þá sendu samtök um þingeyskan byggingararf einnig áskorun til sveitarstjórnar Norðurþings um að skúrinn yrði ekki rifinn.
„Ég hef vissulega tekið eftir þessari miklu umræðu, og því er nauðsynlegt að málsaðilar ræði framhaldið í sameiningu, en það er enn í gangi, á góðum nótum. Hver sem niðurstaða málsins verður, hef ég þó skilning á því að fólk beri miklar tilfinningar til þessa máls,“ segir Katrín að lokum.