Bragi telur að ljósmyndaskortur íslensku sögunnar stuðli að neikvæðu viðhorfi almennings á henni.
Bragi telur að ljósmyndaskortur íslensku sögunnar stuðli að neikvæðu viðhorfi almennings á henni. — Morgunblaðið/Anton Brink
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri í Handritasafni Landsbókasafns Íslands/Háskólabókasafns, hefur undanfarna mánuði verið að dunda sér við að útbúa myndir af merkum viðburðum í sögu Íslands með aðstoð gervigreindarforrits

Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri í Handritasafni Landsbókasafns Íslands/Háskólabókasafns, hefur undanfarna mánuði verið að dunda sér við að útbúa myndir af merkum viðburðum í sögu Íslands með aðstoð gervigreindarforrits. Hann segist hafa byrjað á því af gamni og því séu myndirnar ekki alveg sögulega réttar varðandi smáatriði, en þær geti þó hjálpað til við að breyta viðhorfi fólks til fortíðinnar og vekja áhuga þess á sögulegum atburðum.

„Þetta byrjaði þannig að mér leiddist eitthvað í sumarfríinu í fyrra og tók mig til og prufaði mig áfram í að nota gervigreindarforritið Imagine til að útbúa mynd af Kópavogsfundinum árið 1662, birti það á FaceBook, og bjóst eiginlega ekki við miklum viðbrögðum þannig séð.“ Hins vegar fengu myndirnar töluverð viðbrögð, en eins og við var búist bentu sumir kollegar hans á að mörg smáatriði á myndunum væru ekki sögulega rétt. „En það verður að hafa í huga að gervigreindarmyndir eru náttúrulega algjörar tilgátumyndir með litlu listrænu gildi og byggja á takmörkuðum upplýsingum um það sem myndirnar eiga að vera af.“

Allir brosandi á myndunum

Þá segir hann myndir forritsins af Íslandi oft og tíðum vera nokkuð yfirborðskenndar og keimlíkar, en eftir því sem gervigreindinni fleygir fram muni hún getað teiknað æ nákvæmari myndir af viðfangsefni sínu. „Þannig að það má útbúa lauslegar tilgátumyndir til dæmis af atburðum úr Íslandssögunni sem engin mynd er til af eða af atburðum sem hefðu getað gerst, þó að listrænt gildi sé ekkert.“

Af íslenskri sögu eru ekki til margar ljósmyndir, og ef þær eru til eru miklar líkur á því að fólk sé alvarlegt á svip og ekki bætir úr að myndirnar eru svarthvítar.

„Þetta gerir það að verkum að fólk sér fortíðina almennt í frekar slæmu ljósi, en ég tók eftir því bara þegar ég rúllaði aðeins í gegnum samfélagsmiðlinn X, að margir gera oft grín að því. Þannig í þessum gervigreindarmyndum lét ég alla, þar sem átti við, vera brosandi til að reyna að breyta aðeins þessari ímynd.“

Vekur áhuga í kennslu

Ásamt því að vera fagstjóri Handritasafnsins, starfar Bragi sem stundakennari í sagnfræði við HÍ. Hann segist stundum notast við þessar myndir í kennslunni til að vekja frekari áhuga nemenda á viðburðum í sögunni sem áttu sér stað áður en myndavélar urðu til.

Meðal þeirra viðburða sem hann hefur fengið forritið til að teikna upp mynd af er þegar Páll Vítalín og Árni Magnússon tóku saman manntalið árið 1703. „Ég birti þá mynd á Facebook þar sem einn fýlupúki benti réttilega á í athugasemdum að: Þetta eru ekki þeir. Það vissi ég nú,“ segir Bragi kíminn.

Einnig hefur hann prufað sig áfram með myndir af viðburðum sem hefðu getað hafa átt sér stað, eins og sögusagnirnar sem koma fram í Annálnum um að í Hólum í Hjaltadal hafi verið gríðarlegt smjörfjall. „Þannig ég ákvað bara að láta teikna mynd af því og það kom svona skemmtilega út.“

Bragi ítrekar að myndirnar séu algjörar tilgátur og alls ekki sögulega réttar, þótt þær fari stundum nálægt raunveruleikanum. Hann lét til dæmis teikna upp mynd af fyrsta Reykjavíkurmaraþoninu, en gervigreindin ofmat gríðarlega glæsileika þess. „Hún heldur greinilega að það hafi bara þúsundir manna tekið þátt og húsin
verið mikið reisulegri en þau voru.“

Þá bendir Bragi á að gervigreindin hafi enn einhverja galla, en oft birtast aukahendur eða aukaputtar á persónum myndanna.

Hann segir landslagið sem birtist á myndunum sem eiga að gerast á Íslandi komast býsna nálægt raunveruleikanum, en þó sé skýjað á þeim flestum.

Myndirnar hafa vakið áhuga margra, en Bragi var meðal annars beðinn að búa til slíka mynd á kápu vorheftis Sögu, tímarits Sögufélags sem kom út síðasta vor. Hann skrifaði þá einnig grein í ritið um kosti og galla slíkra mynda og gervigreindar yfir höfuð.

„Þetta var ekki hugsað sem innlegg í fræðilega umræðu, ég var bara eitthvað að leika mér, en svo virðist sem þetta geti hjálpað einhverjum að kynnast fortíð Íslands betur eða breyta viðhorfi fólks á henni til hins betra.“ Hann bendir einnig á að þótt þessi möguleiki sé til staðar fyrir myndskreytingu bóka og annarra rita væri gervigreindin best nýtt í að auðvelda líf fólks, en ekki hrifsa af listamönnum og myndskreyturum störfin.