Sjónarhorn
Kolbrún Berþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Móðgunargirni er ekki skemmtilegur eiginleiki í fari fólks. Í umhverfi okkar er þó stöðugt meira tillit tekið til hennar. Móðgunargirni er ekki lengur talin vandi viðkomandi einstaklings heldur tilfinning sem skylda sé að taka tillit til. Þess vegna erum við hvað eftir annað að verða vitni að því að fólk sem hefur móðgast er beðið afsökunar. Einhver segir opinberlega misheppnaðan brandara, viðhefur ögrandi orð eða skrifar umdeilda grein og viðbrögðin einkennast af svo mikilli hneykslan að viðkomandi telur sig tilneyddan að stíga fram og biðjast afsökunar á að hafa móðgað aðra. Viðburðir geta síðan vakið það mikla hneysklan að skipuleggjendur biðjist afsökunar.
Dæmi um það síðastnefnda eru viðbrögð við skrýtnu atriði á opnunarhátíð Ólympíuleikanna í París. Þar fannst einhverjum hópum kristinna manna að verið væri að gera grín að Síðustu kvöldmáltíðinni eftir Leonardo da Vinci og töldu það aðför að kristinni trú.
Eins og tíðkast oft þegar ódauðleg listaverk eiga í hlut hefur Síðasta kvöldmáltíð da Vincis verið útfærð á allan mögulegan hátt í gegnum árin og jafnvel skrumskæld án þess að menn hafi kippt sér sérstaklega upp við það. Ekki lá alveg í augum uppi að atriðið umdeilda á setningarhátíðinni væri stæling á kvöldmáltíðinni en þó mátti vel túlka það þannig. Þetta var hins vegar alls ekki góð stæling á snilldarverkinu. Þarna sást sælleg mannvera sem átti víst að tákna gríska guðinn Díónýsos og bak við hana voru dragdrottningar í alls kyns stellingum við það sem virtist vera langborð.
Kristnir menn létu í sér heyra og þeim var ekki skemmt yfir atriði sem var örstutt og furðulegt frekar en ögrandi. Skipuleggjendur báðust afsökunar og voru að því leyti fullkomlega í takt við tíðaranda þar sem þeim móðgunargjörnu er strokið blíðlega til að friða þá og koma í veg fyrir frekara vesen.
Það má sannarlega deila um hvort þetta tiltekna atriði hafi verið sérlega gott en það er nokkuð langt seilst að telja það móðgun við kristna trú, jafnvel þótt ætlunin hafi verið að stæla síðustu kvöldmáltíðina. Þeir móðgunargjörnu geta þó ætíð fundið eitthvað til að láta fara í taugarnar á sér. Nútíminn býður nefnilega upp á afar fjölbreytt hlaðborð fyrir hina móðgunargjörnu, það þarf einungis að benda og segja: Mér líkar þetta ekki! – og næsta víst er að svo til samstundis berst afsökunarbeiðni.
Forsvarsmenn sögðu að atriðið hefði átt að endurspegla fjölbreytileika og umburðarlyndi. Þeir virtust furða sig á því að heimsbyggðin hefði ekki áttað sig á þeim skilaboðum. Þessi skilaboð voru hins vegar sett í svo ruglingslegan búning að afar erfitt var að átta sig á þeim. Auk þess lyktaði atriðið illa af tilgerð. Svo er alltaf jafn þreytandi þegar listamenn taka að sér að sinna uppeldisstarfi í gegnum list sína og reyna að siða okkur hin til og gera okkur að betri manneskjum. Siðaboðskapurinn mistókst að þessu sinni því fæstir skildu það sem verið var að reyna að segja þeim. Ósk um frið, umburðarlyndi og margbreytileika má koma til skila á miklu einfaldari og áhrifameiri hátt og án predikunar. Það þarf engar skringilegar umbúðir. Skipuleggjendur opnunarhátíðarinnar hefðu mátt huga meira að því að skemmta áhorfendum í stað þess að leggja sig fram við að skapa kennslustund í góðum siðum og réttum skilningi.
Atriðið fáránlega á opnunarhátíð Ólympíuleikanna var engin móðgun við kristna menn, sem brugðust þó margir illa við. Það sem helst kom á óvart og telst til tíðinda er að hlustað var á sárar kvartanir þeirra og þeir beðnir afsökunar. Venjulega er talið sjálfsagt að hundsa vilja og óskir þeirra sem telja sig kristna, þeir eru nánast afgreiddir sem afturhaldspésar sem fylgi hugmyndafræði sem sé ekki alveg í takt við nútímasamfélag. Gott ef það er eitthvað að breytast.
Það þarf ekki að hlaupa í vörn fyrir trúna. Góð trú ver sig sjálf með því að þola allt. Líka háð og grín. Trú sem byggist á því að saka aðra um guðlast er á villigötum því hún búin að gera sig að kreddu.