Mikilvægt er að skoða reglur um lögheimilisskráningu úr landinu til að tryggja að fólk sem ekki býr hér á landi nýti sér ekki áfram áunnin lífeyrisréttindi úr íslenska almannatryggingakerfinu. „Vissulega er þetta vandi allra landa í Evrópu en…

Iðunn Andrésdóttir

idunn@mbl.is

Mikilvægt er að skoða reglur um lögheimilisskráningu úr landinu til að tryggja að fólk sem ekki býr hér á landi nýti sér ekki áfram áunnin lífeyrisréttindi úr íslenska almannatryggingakerfinu.

„Vissulega er þetta vandi allra landa í Evrópu en hlutfallslega er hann mikill á Íslandi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

„Vegna þess að það er svo mikið af fólki sem kemur hér inn til að vinna, þá tímabundið, og skráir sig eðlilega til þess að geta fengið sín réttindi og verið þátttakendur í samfélaginu með kennitölu. En þegar þú ferð úr landi þá finnst þér engin þörf á að skrá þig úr landinu heldur skráir þú þig bara í hinu landinu sem þú ert að flytja til, til að fá réttindi þar.“

Rúmlega 11 þúsund erlendir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili hér á landi ávinna sér áfram lífeyrisréttindi úr íslenska almannatryggingakerfinu þrátt fyrir að hafa yfirgefið landið.

Segir Sigurður mikilvægt að skoða málið og athuga hvað sé til ráða til að bæta úr lögheimilisskráningum í landinu. Rangar upplýsingar geti til að mynda skekkt tölur Hagstofunnar. „Það sama gildir um lífeyrisréttindi og önnur réttindi. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða betur með Þjóðskrá og öðrum ráðuneytum og stofnunum sem að þessu koma, eins og Hagstofunni.“

Spurður hvort til greina komi að breyta skráningarreglum segir Sigurður það alla vega þarfnast skoðunar.