Rússland og Bandaríkin sömdu í vikunni um gagnkvæma lausn fanga í umfangsmestu skiptum af því tagi síðan í kalda stríðinu fyrra. Sumir vona að það sé til marks um þíðu á tvísýnum tímum, en það er því miður óskhyggja.
Ástæða er til að fagna endurheimtu frelsi fjölda manna, sem harðstjórn Vladímírs Pútíns fangelsaði að ósekju. Það var brýnt að leysa þá eftir skuggalegan dauða stjórnarandstöðuhetjunnar Alexeis Navalníjs í rússnesku fangelsi nú í febrúar.
Meðal þeirra, sem leystir voru úr haldi, má nefna Evan Gershkovich, blaðamann Wall Street Journal, sem áður hefur verið getið á þessum stað, Alsu Kurmasheva, fréttamann Radio Liberty, og Pulitzer-verðlaunahafann Vladimir Kara-Murza.
Engan blaðamann skyldi hneppa í varðhald fyrir það eitt að vinna vinnuna sína. Það var þó það sem henti þau. Að hluta til vegna þess að þau sögðu fréttir, sem Pútín vildi ekki að fréttust, en í raun ekki síður vegna þess að Pútín vantaði gísla, vantaði skiptimynt í einmitt svona fangaskipti.
Pútín fékk nefnilega lausa ýmsa útsendara sína, sem hann hafði gert út til myrkraverka á Vesturlöndum. Þar á meðal er leigumorðinginn og leyniþjónustumaðurinn Vadím Krasikov, sem myrti tsjetsjenskan andófsmann um hábjartan dag í miðborg Berlínar 2019.
Með því sýnir Pútín að hann „sér um sína“, hvað sem það kostar. Og vílar ekki fyrir sér að handtaka saklaust fólk að þörfum til þess.
Verra er að þá er staðfest að slíkir klækir virka og Pútín getur áfram sent dauðasveitir til Vesturlanda áhyggjulaus um afdrif þeirra. Það mun reynast öðrum útlagaríkjum fyrirmynd um aðferðina.