Skráðum gistinóttum í ferðaþjónustunni á Íslandi á tímabilinu frá júlí í fyrra til loka júní sl. fjölgaði um 0,4% ef miðað er við sama tímabili áranna 2022 til 2023 samkvæmt tölum sem Ferðamálastofa hefur birt yfir þróunina á umliðnum tólf mánuðum.
Gistinóttum á hótelum fækkaði um 1,5% á þessu tímabili, gistinóttum fjölgaði um 1% á gistiheimilum og gistinóttum sem skráðar eru sem önnur gisting fjölgaði um 3,6%. Herbergjanýting á hótelum var 72,9% í júní síðastliðnum en var til samanburðar 86,7% í júlí á seinasta ári á landinu öllu.
Brottförum erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll á tímabilinu frá því í júlí í fyrra til loka júnímánaðar sl. fjölgaði um 10,2% miðað við sama tímabil 2022 til 2023. Breyting hefur þó orðið á undanförnum mánuðum því eins og fram hefur komið mældust 21 þúsund færri brottfarir frá landnu í júnímánuði síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra.
Nýbirtar tölur Ferðamálastofu yfir þróunina yfir lengra tímabil leiða m.a. í ljós að brottförum Bandaríkjamanna fjölgaði um 8,3% á seinustu tólf mánuðum frá sama tímabili milli áranna 2022 og 2023 og brottförum ferðamanna frá Kína fjölgaði um 119,5% frá því í júlí í fyrra samanborið við sama tímabil áranna 2022 til 2023.