„Það kom mér mest á óvart hversu margir hafa fyrir því að láta mann vita að þeir séu ánægðir,“ segir Pétur
„Það kom mér mest á óvart hversu margir hafa fyrir því að láta mann vita að þeir séu ánægðir,“ segir Pétur — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ég hef fengið fleiri en eitt bréf frá fólki sem hefur miklar áhyggjur af því að það sé verið að brjóta á mér vökulög því kynningar sem ég les eru spilaðar allan sólarhringinn.

Pétur Grétarsson hefur starfað hjá Ríkisútvarpinu í fjörutíu ár og er hlustendum að góðu kunnur. Hann er afar vinsæll þulur og kynnir á sinn ljúfa hátt tónlist milli dagskrárliða.

Pétur er trommu- og slagsverksleikari. Hann hefur spilað með aragrúa fólks á flestum sviðum íslensks tónlistarlífs bæði á tónleikum og í hljóðritunum. Hann hefur starfað við kvikmyndir og leikhús og leikið á hinar ýmsu plötur.

Áður en Pétur gerðist þulur hjá Ríkisútvarpinu gerði hann þar vinsæla útvarpsþætti um tónlist. „Ég var starfandi á akri tónlistarinnar, sinnti kennslu og spilaði líka í leikhúsum. Sumrin voru nokkuð dauf og mér datt í hug að tala við Ólaf Þórðarson sem þá var allt í öllu hjá RÚV og spurði hvort eitthvert svigrúm væri fyrir mig til að gera útvarpsþætti um tónlist. Hann brást við og ég gerði prufuþátt og svo var ég lengi með djassþætti á Rás 2, einu sinni í viku, þetta voru þriggja tíma þættir frá tíu til eitt á kvöldin. Í kjölfarið fylgdu síðan fleiri tónlistarþættir.“

Árið 2018 fékk Pétur, á degi íslenskrar tónlistar, viðurkenninguna Lítill fugl, sem veitt er þeim sem þykja hafa skarað fram úr í umfjöllun, ræktarsemi og kynningu á íslenskri tónlist.

Jakob Frímann Magnússon afhenti viðurkenninguna með þessum rökstuðningi: „Sá sem hlýtur þessi verðlaun hefur skarað fram úr að okkar mati og margra annarra fyrir frábæra dagskrárgerð, djúpa, víðtæka og skemmtilega köfun í tónlistarheiminn og íslenska tónlistarlífið.“

Í þakkarræðu sinni sagði Pétur meðal annars: „Ég er þakklátur fyrir þessa fallegu viðurkenningu og tileinka hana öllu tónlistarfólkinu sem deilir með okkur list sinni í gegnum útvarpið – og músíkölskum hlustendum Rásar 1, sem áratugum saman hafa í umburðarlyndi sínu tekið slaginn með mér í leitinni að forvitnilegri músík.“

Gerir hlutina hversdagslega

Pétur byrjaði í þularstarfi hjá RÚV í covid. „Á þeim tíma kom upp hugmynd um að breyta þularstarfinu, gera það persónulegra og ekki eins hátíðlegt og verið hafði. Ég hafði verið að bralla margt hér hjá RÚV sem viðkom tónlist og fannst að þetta væri rétti tíminn til að prófa eitthvað nýtt í útvarpsmennskunni. Ég hafði einhverjar hugmyndir um hvernig væri hægt að breyta tóninum í þularstarfinu. Ég sótti um og fékk starfið og tveimur vikum seinna brast covid á. Ég var ótrúlega heppinn að hafa fengið þetta starf því allt sem ég hafði verið að gera í tónlistarbransanum í fjörutíu ár þurrkaðist beinlínis út. Það var nákvæmlega ekkert að gerast þar.

Jórunn Sigurðardóttir sagði við mig þegar ég byrjaði: Ég vissi ekki að þú hefðir gengið með þul í maganum. Ég sagði: Ég vissi það ekki heldur.“

Fannstu strax að þularstarfið ætti vel við þig?

„Ég byrjaði á því að fylgjast með og hlusta hvernig aðrir þulir gerðu þetta. Það var að ýmsu að huga – og ekki síst því hvernig maður talar við fólk. Það er kannski aðalatriðið því úvarp er fyrst og fremst félagsskapur.

Ég hef líka þurft að tileinka mér tæknina. Það er enginn tæknimaður sem hjálpar mér, þannig að ég tek sjálfur upp allar kynningar, raða þeim á lista og geng frá þeim.“

Hann segist fá mikil viðbrögð frá hlustendum. „Það kom mér mest á óvart hversu margir hafa fyrir því að láta mann vita að þeir séu ánægðir. Ég skil vel þá sem þola mig ekki og hugur minn er hjá þeim. Ég geri mér grein fyrir því að þeim þykir hræðilegt að sitja uppi með þennan karl.

Í þularstarfinu geri ég hlutina hversdagslega af því ég er að tala við alla. Ég er ekkert að ofhugsa það en veit af því að ég er að tala við alla, líka þá sem finnst að það eigi að gera þetta öðruvísi.

Þetta er hversdagslegt og mjög endurtekningarsamt sem er líka áskorun því hvað er hægt að tilkynna á marga mismunandi vegu að nú sé komið að veðurstofunni með veðurfréttir?“

Borgað fyrir forvitni

Annar þáttur í starfi hans eru kynningar á tónlist milli dagskrárliða. Þetta eru hlýjar kynningar þar sem hann læðir að fróðleiksmolum um tónlistina og tónlistarmennina og lögin sjálf eru yfirleitt þægileg.

„Ríkisútvarpið er með yfirlýsta stefnu um að spila það sem við köllum millitónlist. Sú tónlist er yfirleitt ekki ágeng en má vera það inn á milli og þá þarf maður að fylgja henni betur úr hlaði, vara fólk aðeins við. Ég hef líka orðið var við að fólk er til í að hlusta á hvað sem er en það þarf að finna að það verði skorið niður úr snörunni, viti að þótt það heyri eitthvað skrýtið þá verði það ekki endilega þannig í einn og hálfan tíma.“

Spurður hvort hann spili mikið af uppáhaldstónlist sinni segir hann: „Það er ekki hægt að segja að ég sé að troða eigin tónlistarsmekk að því ég hef engan tónlistarsmekk.

Tónlistarsmekkur er eitthvað sem verður til hjá manni þegar maður upplifir músík á mótunarárum. Ég hef reynt að viðhalda forvitni um tónlist og fór í útvarp til að fá tækifæri til þess. Ég hef alltaf hlustað mikið á tónlist og leitað í hana og með starfi í útvarpi sá ég möguleika á að eiga farveg fyrir leit mína í tónlist. Ég hef fengið borgað fyrir að vera forvitinn um músík. Þessi forvitni verður til þess að allt sem heitir smekkur þurrkast út.

Það er líka talað um að skilja músík. Ég skil músík ekki endilega en ég skynja hana. Það sem talar mest til mín er mjög abstrakt músík sem einhver frásögn er í en ekki endilega hefðbundin. Ég hrífst þó líka af hefðbundinni tónlist, hef spilað með sinfóníunni í mörg ár og þegar maður heyrir sama verkið aftur og aftur á æfingum þá síast inn öðruvísi skynjun.“

Spurður hvort það komi fyrir að hann sé staddur einhvers staðar og verði var við að fólk þekki rödd hans þótt það þekki ekki manninn segir hann: „Já, það hefur komið fyrir og er mjög skrýtið. Þetta er samt allt öðruvísi en var. Þeir voru svo miklar poppstjörnur Jón Múli Árnason, Pétur Pétursson og fleiri. Það er ekki þannig að fólk rjúki á mig en ég hitti fólk og tala við það og þá rennur upp fyrir því ljós og það segir: Þú ert þulur á Rás 1.

Á Rás 1 eigum við marga afskaplega dygga hlustendur og margir eru með útvarpið í gangi allan daginn sem félaga. Ég hef fengið fleiri en eitt bréf frá fólki sem hefur miklar áhyggjur af því að það sé verið að brjóta á mér vökulög því kynningar sem ég les eru spilaðar allan sólarhringinn.

Þegar ég byrjaði í þularstarfinu var ég eini þulurinn í sex mánuði. Kannski var það ekki skrýtið að fólk héldi að ég væri hér í koju og ræstur út milli þátta.“

Tónlist sem sáluhjálp

Spurður hvort hann hafi nægan tíma til að sinna eigin tónlist og tónlistarflutningi segir hann: „Ég myndi alveg þiggja meiri tíma en á móti kemur að nú er ég að gera nákvæmlega það sem mér sýnist. Sem frílanserandi músíkant er maður í öllu og það er ótrúlega skemmtilegt líf en ég varð dálítið leiður á sjálfum mér í því. Ég held að það séu tímamörk á því hvað maður getur verið lengi að gera hluti sem keyra bara á því að það sé gaman að spila músík með fólki. Það kemur að því að maður spyr sig: Hvað langar þig að gera?

Í dag er mín músík meira eins og golfsett. Ég fer og reyni að bæta minn leik en það skiptir ekki máli fyrir neinn annan. Ég er í afskaplega skemmtilegu djasstríói sem heitir Skúrinn ásamt Óskari Guðjónssyni og Kjartani Valdimarssyni og við gáfum út plötu fyrir tveimur árum. Heima er ég mest í rafmagnstónlist og dett inn í tölvuna og ný forrit. Nýja kylfan í pokann er nýtt forrit sem ég læri á og kanna hvað kemur út úr því.“

Tónlistin hefur alltaf skipt þig miklu máli.

„Já, hún er alveg ótrúlegt fyrirbæri og vanmetin sáluhjálp. Ég á marga vini í músík og hef stundum hugsað hvaða greiningar við værum með ef við hefðum ekki dottið inn í tónlistina. Tónlist kemur í staðinn fyrir mikla lyfjagjöf. Eins og einn vinur minn sagði þegar hann byrjaði að semja tónlist: Ég fann strax að ég myndi alltaf eiga þarna athvarf. Ég tengi mjög sterkt við það. Ég get alltaf farið í tónlistina og gleymt mér þar.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir