27.7. – 2.8.
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Ólympíuleikarnir voru settir í Parísarborg, en við opnunarathöfnina sigldi íslenska liðið niður Signu á sama báti og Ísraelsmenn, sem eru næstir í stafrófinu.
Umboðsmaður barna sagði í bréfi til Ásmundar Einars Daðasonar að menntamálaráðherra hefði trassað í mörg ár að skila Alþingi skýrslu um grunnskólastarf líkt og lög bjóða og krafðist skýringa á.
Arnór Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Menntamálastofnunar, segir gæðamál í menntakerfinu í ólestri, líkt og PISA-kannanir sýni. Öðrum mælingum sé ekki lengur að heilsa. Hann gagnrýndi Lilju Alfreðsdóttur fv. menntamálaráðherra fyrir að hafa mælt fyrir um stafræn, samræmd próf, en ekki látið fjárveitingu fylgja.
Margrét Kristín Pálsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði að fjöldi mótmælaaðgerða dreifði kröftum lögreglunnar óþægilega mikið, þó undantekning væri að upp úr syði.
Um 10% íbúa í Vogum eru nú úr Grindavík, en bæjarstjórinn þar segir brýnt að lögheimilisskráning þeirra færist yfir. Bærinn beri ekki til lengdar að slíkur fjöldi íbúa greiði skatta og gjöld annars staðar.
Stórfelldar viðgerðir hófust á hinum nýreista leikskóla Brákarborg inn við Voga í Reykjavík, en mistök í burðarþolsútreikningum hafa skekkt húsið og skælt. Var það þó verðlaunahús, en Dagur B. Eggertsson þáv. borgarstjóri veitti sjálfum sér „grænu skófluna“ fyrir undrin.
Fótboltamótið Rey Cup hófst í Laugardal, sem fylltist af hressum unglingum víðs vegar að úr heiminum.
Starfsævi í Evrópu er lengst á Íslandi, en eyjarskeggjar eru að jafnaði 45,7 ár á vinnumarkaði hér í fásinninu. Er hún þó tekin að styttast ört.
Mikið jökulhlaup kom úr Mýrdalsjökli og rauf skarð í hringveginn við brúna yfir Skálm, austan jökulsins. Langar biðraðir mynduðust beggja vegna árinnar, en bráðabirgðaviðgerð á veginum lauk á sunnudagskvöld.
Aukin varnarútgjöld eru rædd á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, en þar er miðað við að þau sé að lágmarki 2% landsframleiðslu. Þó Ísland sé undanþegið því er rætt um að auka þau verulega.
Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra hefur afhent Þjóðskjalasafninu um 12 hillumetra af skjölum úr einkasafni sínu, en hún sinnti stjórnmálastörfum frá árinu 2005 þar til nú í vor. Hún mun sjálf annast flokkun þeirra.
Fornleifastofnun safnar nú upplýsingum um fornsundlaugar frá 20. öld. Snorralaug sleppur því við athygli hennar að sinni.
Sumarið hélt áfram að fresta komu sinni, en á hinn bóginn hafa lægðir komið hingað í stríðum straumum. Á móti kemur að bæði lúsmý og geitungar eru seinna á ferð en áður.
Lögregla athugar hvort maður sem var handtekinn um helgina fyrir að elta og áreita konu með því að bera leyndarlim sinn fyrir henni, hafi fleira slíkt á samviskunni. Upp höfðu safnast allnokkur óupplýst mál af þeim toga.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari lagði til við dómsmálaráðherra að vararíkissaksóknari yrði leystur frá störfum vegna kæru samtakanna Solaris á hendur honum. Hefur sú kæra þó ekki verið rannsökuð, en samtökin eru sjálf til rannsóknar hjá lögreglu.
Byggðastofnun krefst nauðungarsölu á norðurljósamiðstöðinni á Kárhóli, sem þar var reist í félagi við Kínverja, en svo skemmtilega vill til að framkvæmdastjóri hennar er einnig starfsmaður Byggðastofnunar. Málið er allt hið óskiljanlegasta.
Vegagerðin athugar flutning á hringveginum við Vík í Mýrdal, annaðhvort upp fyrir bæinn og inn fyrir Reynisfjall eða með göngum í gegnum það.
Færeyingar vilja fulla aðild að Norðurlandaráði en hóta „afleiðingum“ ella. Ekki er þó talið að stríðshætta hafi aukist verulega.
Utanríkisráðuneytið hefur falið tveimur stjórnarerindrekum sínum að aðstoða við aðildarumsókn Úkraínu að Evrópusambandinu (ESB). Væntanlega af því að ráðuneytinu tókst svo ljómandi upp við aðildarviðræður Íslands um árið.
Einn Súðvíkingur lýsti þeirri skoðun á borgarafundi að réttast væri að sameinast Ísafirði.
Anton Sveinn McKee þurfti að gera sér 15. sætið að góðu í undanúrslitum í 200 m bringusundi á Ólympíuleikunum.
Meira en helmingur erlends vinnuafls er menntaður umfram það sem störf hans krefjast. Það er með því mesta sem þekkist í Evrópu.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari fellst ekki á að ríkissaksóknari hafi grundvöll til þess að leysa hann frá störfum. Fyrri áminning, sem ríkissaksóknari vísi til, hafi verið veitt í valdþurrð, ráðherra hafi skipað hann, ekki saksóknari.
Greiningum á covid-19 hefur fækkað talsvert aftur.
Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins játaði að Íslendingar væru eftirbátar annarra í mælingum á námsgæðum, en það stæði umbótum í skólastarfi fyrir þrifum.
Laxgengd er góð í flestum ám landsins og veiði afbragð.
Mikil áform eru um breytingar við Skíðaskálann í Hveradölum, en þar á að stækka skálann, reisa nýjar hótelbyggingar og gróðurhús, gera baðlón, framleiða gervisnjó, gera nýjar skíðabrautir og reisa skíðalyftu.
Svo virðist sem þjóðskrá hafi verið á villigötum með því að heimila sakamanninum Mohamad Kourani að skipta um nafn. Og gott betur, því hún vísaði til leiðbeininga um framkvæmdina sem ekki eru til.
Mikill munur hefur reynst á menntun fólks eftir búsetu og kyni. Konur safna frekar háskólagráðum en karlar og úti á landi sækir fólk síður í langskólanám. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskólaráðherra hefur innleitt hvata til þess að landsbyggðarfólki bjóðist meira háskólanám.
Halla Tómasdóttir tók við embætti forseta Ísland með innsetningu í Alþingishúsinu. Hún er sjöundi forseti lýðveldisins, en þrír fyrrverandi forsetar voru viðstaddir athöfnina. Á Austurvelli fylgdist nokkur fjöldi með af skjáum.
Í ræðu við innsetninguna kvaðst Halla vera þakklát fyrir allt sem sér og Íslendingum hefði verið gefið. Hún lýsti áhyggjum af uppgangi öfga, talaði um nýsköpun, listir og íþróttir og vill að þjóðin leiti nýrra leiða til að takast á við samfélagsmál.
Víða á elliheimilum landsins skrýddust eldri borgarar litklæðum og klútum til þess að fagna nýjum forseta. Silkiklútar urðu óvænt eins konar einkenni Höllu forseta í kosningabaráttunni.
Jón Gunnarsson fv. dómsmálaráðherra segir umdeild ummæli vararíkissaksóknara ekki alvarleg og ekki tilefni til þess að leysa hann frá störfum.
Kostnaður vegna klúðursins við Brákarborg mun hlaupa á tugmilljónum, en hjá Reykjavíkurborg virðist enginn vita hvar hann endar. Borgarfulltrúi minnihlutans segir margt minna á braggamálið og telur málið þarfnast rannsóknar.
Dregið hefur úr nýskráningum bíla, en bílaleigur hafa haldið að sér höndum vegna minni ferðamannastraums og dregið hefur úr sölu á rafbílum eftir að skattaívilnanir vegna þeirra hurfu.
Áfengissala – bæði í Ríkinu og frjálsu vínbúðunum – var mikil í vikunni, eins og venja er fyrir verslunarmannahelgi, en fór þó hægar af stað en í fyrra. Er samt vel hægt að vökva sig þó hann rigni.
Þjóðhátíðargestir tóku að streyma til Vestmannaeyja.