Björgvin Jóhannsson fæddist í Reykjavík 9. júlí 1981. Hann lést á Landspítalanum 6. júlí 2024 eftir erfið veikindi.
Foreldrar hans eru Anna Kristín Svavarsdóttir, f. 11. maí 1960 og Jóhann Guðmundsson, f. 24. júní 1958.
Systkini hans eru Marteinn Jóhannsson, f. 10. apríl 1984 og Rut Jóhannsdóttir, f. 6. desember 1987.
Systursynir hans eru Ólafur Jóhann Sigurðsson, f. 20. júní 2013, Aron Bjarni Sigurðsson, f. 11. febrúar 2016 og Heiðar Máni Sigurðsson, f. 3. maí 2018.
Björgvin ólst upp í Breiðholtinu og gekk í Hólabrekkuskóla og Fjölbraut í Breiðholti.
Hann hafði mikinn áhuga á körfubolta, rokktónlist, bíómyndum og tölvuleikjum. Hann var mikill fjölskyldumaður, vinur vina sinna og átti einstakt samband við litlu frændur sína.
Útför Björgvins Jóhannssonar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Elsku stóri bróðir minn. Þú kenndir mér svo margt, alltaf hugulsamur, hjálpsamur og góður. Við gátum talað saman um allt og með þér var ég alltaf örugg. Þú varst svo fróður um margt. Þegar við vorum yngri þá fræddir þú mig um hljómsveitir og við hlustuðum saman á tónlist. Þú bauðst mér í ótal bíltúra á öllum þeim bílum sem þú eignaðist. Þú hafðir þann eiginleika að vita alltaf ef eitthvað var að og tókst að breyta því um leið. Faðmlag þitt gerði kraftaverk. Þú varst alltaf stoð mín og stytta í gleði og í sorg. Þú munt alltaf hafa sérstakan stað í hjarta mínu.
Það var svo yndislegt að fylgjast með fallega sambandinu sem varð á milli þín og litlu frænda þinna þriggja. Þú varst sá allra besti frændi sem hugsast gat og þeir dýrkuðu þig. Ólafur, Aron og Heiðar voru og munu alltaf vera strákarnir þínir. Þú gafst svo mikið af þér til þeirra. Þér þótti svo gaman að fá þá í heimsókn. Tímans sem strákarnir áttu með þér að spjalla, leika í ofurhetjuleik, horfa á bíómyndir eða spila tölvuleiki munu þeir ávallt minnast.
Þú varst orðinn svo veikur en alltaf varstu jákvæður og glaður og tókst hvern dag með ró og yfirvegun. Hugsaðir meira um aðra en sjálfan þig.
Ég vona að þú sért núna verkjalaus, brosandi og hlaupandi um í körfubolta í sumarlandinu.
Þú verður alltaf í hjörtum okkar og við munum alltaf geyma allar þær minningar sem við áttum með þér. Við tölum um þig á hverjum degi og munum halda því áfram. Þú varst einstakur og það mun enginn koma í þinn stað. Við elskum þig og munum ávallt sakna þín.
Þú varst ofurhetjan okkar!
Þín litla systir og litlu frændur,
Rut, Ólafur, Aron og Heiðar.
Ég kynntist Björgvin fyrst í grunnskóla, báðir vorum við í Hólabrekkuskóla og það sem leiddi okkur fyrst saman var sameiginlegur áhugi á körfubolta. Við urðum strax góðir vinir og eyddum mjög miklum tíma saman. Ég hafði auðvitað átt góða vini fyrir en við Björgvin náðum einstaklega vel saman og ég tengi margar af mínum bestu minningum frá unglingsárunum við hann enda vorum við nánast alltaf í samfloti.
Þar er af nógu að taka en við fórum til dæmis í utanlandsferðir, sáum uppáhaldshljómsveitirnar okkar saman og sáum meira að segja Michael Jordan spila í Washington á lokasprettinum hans í NBA svo fátt eitt sé nefnt. Ég á ótal minningar frá þessum árum sem voru hreint út sagt frábær og mjög mótandi fyrir mig sem einstakling.
Það er líka gaman að þeirri staðreynd að Björgvin á stóran þátt í því að ég hafi kynnst konunni minni en hann lét mig bókstaflega ekki í friði fyrr en ég samþykkti að byrja að vinna í Árbæjarlaug meðfram námi en það var einmitt þar sem ég kynnist Jóhönnu og í dag eigum við tvo frábæra drengi saman. Tíminn í Árbæjarlaug var einstakur þar sem ég kynnist ótrúlega mörgu góðu fólki. Sumrin voru þó sérstaklega góð en við Björgvin, með hjálp Jóa pabba hans, komum því auðvitað þannig fyrir að við vorum á vöktum saman sem þýddi auðvitað að við vorum í fríi á sama tíma og gátum þannig eytt frítímanum saman þar sem spilaður var körfubolti, horft á NBA-úrslitin og horft á ansi margar bíómyndir. Svo verður að fylgja með að það var að sjálfsögðu farið á rúntinn reglulega enda var Björgvin mikill áhugamaður um bíla og átti fjöldann allan af flottum bílum á þessum árum. Þetta var frábær tími sem ég hugsa til baka til með mikilli hlýju.
Samband okkar var alltaf sterkt þó að við höfum ekki náð að hittast eins mikið síðustu ár og maður hefði viljað. Þrátt fyrir það vorum við alltaf í reglulegu sambandi og hann var alltaf stór hluti af lífi mínu. Björgvin var ótrúlega blíður og góður maður, það sem hann þurfti að þola í gegnum lífið finnst manni ólýsanlegt og ósanngjarnt. Maður skilur ekki hvernig einn maður gat gengið í gegnum alla þessa heilsubresti en alltaf haldið í jákvæðnina og verið tilbúinn í slaginn.
Í síðasta skiptið sem ég hitti Björgvin þá spurði hann mig hvað ég héldi að væri erfiðast við veikindin. Ég spurði hvort það væri sársaukinn en hann svaraði því strax til að svo væri ekki og sagði mér að það væri erfiðast að horfa upp á hans nánasta fólk ganga í gegnum þetta með honum og að sjá sorgina í augum þeirra þegar það fylgdi honum í gegnum þessa löngu og hörðu baráttu sem hann háði við illvígan vágest.
Björgvin hugsaði aldrei um sjálfan sig, ekki einu sinni þegar lífið lá við, hans nánustu voru alltaf í forgrunni hjá honum og ég veit að hann hefði viljað lengri tíma með þeim en því miður þá kvaddi hann alltof snemma. Ég mun alltaf sakna hans og hugsa mikið til hans en sem betur fer áttum við mikið af góðum tímum saman og ég get heiðrað hann með því að halda þeim minningum á lofti.
Hvíldu í friði kæri vinur, þín er sárt saknað.
Brynjar Smári
Rúnarsson.