Alfreð Gíslason er kominn með sína menn í þýska karlalandsliðinu í handknattleik í átta liða úrslitin á Ólympíuleikunum í París eftir góðan sigur á Spánverjum í hörkuleik í gær, 33:31.
Þýska liðið sýndi þar mikla seiglu en Alfreð tók leikhlé sex mínútum fyrir leikslok þegar staðan var 30:28, Spánverjum í hag. Þjóðverjar skoruðu í kjölfarið þrjú mörk í röð og síðan tvö síðustu mörk leiksins.
Þeir eru þar með efstir í A-riðli fyrir lokaumferðina á morgun þar sem þeim nægir jafntefli gegn Slóvenum til að vinna riðilinn.
Ljóst er að Þjóðverjar og Slóvenar fara áfram en Dagur Sigurðsson er í erfiðri stöðu með lið Króatíu eftir að hafa fengið skell gegn Svíþjóð í gær, 38:27. Svíum nægir að fá stig gegn Japan til að fara áfram og leikur Spánar og Króatíu er hreinn úrslitaleikur sem Króatar verða að vinna, annars komast þeir ekki í átta liða úrslitin.
Úrslitaleikur hjá Frökkum
Danmörk, Noregur og Egyptaland eru komin áfram úr B-riðlinum en Frakkar mæta Ungverjum í hreinum úrslitaleik um fjórða og síðasta sætið.
Sú staða getur því hæglega komið upp að liðið sem vinnur A-riðilinn þurfi að mæta gestgjöfunum og Evrópumeisturunum, Frökkum, í átta liða úrslitum.