Pistill
Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is
Þegar ég var við nám í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands fyrir fáeinum áratugum lærðum við svolítið um sjónvarp enda voru heimatökin hæg, dr. Sigrún Stefánsdóttir hafði umsjón með náminu en hún var á þeim tíma líka fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu. Afbragðskennari, Sigrún.
Kúrsinn reis hæst þegar hópurinn fór í halarófu í opinbera heimsókn á Ríkissjónvarpið, sem þá var til húsa á Laugaveginum. Eftir að hafa virt fyrir okkur dýrðina í dágóða stund var okkur hleypt undir eftirliti inn í fréttamyndverið, þar sem við fengum það hlutverk að setjast við borðið í settinu og lesa fréttir. Og það voru engar falsfréttir, heldur hinar eiginlegu fréttir kvöldsins áður. Runnu þær í gegn á svokölluðum teleprompter, þannig að við þurftum ekki að læra þær utanbókar. Hún lætur ekki að sér hæða, tæknin.
Við spreyttum okkur, eitt af öðru, og gekk upp til hópa vel; sumir fengu hrós, aðrir klapp á bakið hjá eftirlitsmanninum, Jimmy Sjöland, sem var margreyndur pródúsent við stofnunina. Síðan kom röðin að mér. Ég kom mér makindalega fyrir í sætinu, með skósítt hár og í hnausþykkum leðurjakka, og hóf lesturinn eftir að ég fékk þar til gert merki frá Jimmy sem sat handan þils í pródúsentaklefanum.
Ég var ekki kominn inn í nema aðra, mögulega þriðju setningu þegar voldugri hurðinni á myndverinu var hrundið upp og þarna stóð Jimmy Sjöland – með skelfingarsvip. „Nei, nei, nei, stopp, stopp, stopp …“ gall í honum. Ég snarhætti auðvitað lestrinum, steinhissa. Hvað er að?
„Þetta gengur ekki, þetta gengur ekki,“ svaraði Jimmy óðamála. „Þú ert alltof alvarlegur, maður. Fólk heima í stofu flýr bara bak við sófa. Þakka þér fyrir! Næsti!“
Ha, fæ ég ekki að reyna aftur?
„Nei, þetta er búið hjá þér. En við hringjum í þig ef þriðja heimsstyrjöldin brýst út!“
Hafi ég alið í brjósti draum um að verða næsti Bogi eða Jóhanna Vigdís þá dó hann drottni sínum þarna í myndverinu og var jarðsunginn og grafinn. Jimmy Sjöland kastaði rekunum.
Í staðinn gerðist ég blaðamaður og hef satt best að segja ekki velt þessu mikið fyrir mér síðan – ég hlaut bara minn dóm og hlýddi honum – þangað til nú, að hver styrjöldin brýst út á fætur annarri í heiminum. Gæti símtalið frá Ríkissjónvarpinu virkilega verið handan við hornið? Nú er Jimmy Sjöland að vísu fallinn frá – blessuð sé minning hans! – en hann var fagmaður fram í fingurgóma og hlýtur að hafa skilið símanúmerið mitt eftir á miða á einhverri korktöflunni í húsinu. Ég er alltént byrjaður að æfa mig!