Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því í liðinni viku að William Calley, sem var yfirmaður í Bandaríkjaher og sá eini sem dæmdur var fyrir fjöldamorðin í víetnamska þorpinu My Lai, væri látinn áttræður að aldri. Bandarískir hermenn stráfelldu mörg hundruð manns, óvopnaða karla, konur og börn, í þorpinu árið 1968 og hefur verið talað um óhæfuverkið sem einn myrkasta kaflann í sögu Bandaríkjahers. Calley lést 28. apríl á hjúkrunarheimili í Flórída.
Fyrst var greint frá andlátinu í blaðinu Washington Post, sem fékk dánarvottorð hans eftir að nýútskrifaður laganemi rakst á tilkynningu um andlátið í opinberum skrám og lét blaðið vita.
Nafn Calleys var á sínum tíma á allra vörum og varð táknrænt fyrir misgjörðir bandaríska hersins í stríði sem margir töldu bæði siðlaust og óvinnanlegt.
Óverðskuldaður framgangur
Calley hafði flosnað upp úr háskóla og flakkað á milli starfa áður en hann var kvaddur í herinn 1966. Tveimur árum áður hafði hann meira að segja reynt að ganga í herinn, en verið hafnað. Þegar stríðið harðnaði þurfti hins vegar að leggja meira kapp á að bæta í raðir hersins, sérstaklega hinna lægra settu, og fengu menn þá iðulega óverðskuldaðan framgang.
Hann komst fljótt til metorða og var brátt hækkaður í tign undirliðþjálfa í Charlie-sveitinni þar sem hann hafði flokksdeild undir sinni stjórn. Mikið mannfall var í sveitinni í upphafi árs 1968. Menn féllu fyrir leyniskyttum, jarðsprengjum og sprengjugildrum í Tet-sókninni, sem hafði hafist nokkru fyrir árásina á My Lai og má segja að hafi fært Bandaríkjamönnum heim sanninn um að þótt mannfall væri meira í röðum andstæðinganna myndu þeir aldrei hafa betur í Víetnam.
Að morgni 16. mars var flogið með deildina í þyrlum til Son My, þyrpingu þorpa innan um hrísgrjónaakra. Eitt þorpanna var My Lai 4. Calley og aðrir hermenn á staðnum gengu þar berserksgang.
Á nokkrum klukkutímum skutu þeir og stungu með byssustingjum konur, börn og aldraða karla og eyddu þorpinu í leit að skæruliðum Víetkong og stuðningsmönnum þeirra, sem sagt var að væru í felum á þessum slóðum. Heimili voru brennd til grunna og nokkrum konum og stúlkum var nauðgað áður en þær voru teknar af lífi.
Í rannsókn Bandaríkjahers var síðar leitt í ljós að 347 karlar, konur og börn hefðu látið lífið. Víetnamar halda því fram að 504 hafi dáið í árásinni.
Í eitt og hálft ár var reynt að hylma yfir það sem gerðist í My Lai. Í skýrslu til höfuðstöðva var í upphafi sagt að unnist hefði mikilvægur sigur og tekist hefði að fella 128 „óvini“ undir vopnum. William C. Westmoreland, herforingi og stjórnandi aðgerða Bandaríkjahers í Víetnam, hrósaði bandarísku hermönnunum fyrir að greiða Víetkong þungt högg.
Upplýsingar um ódæðisverkið fóru hins vegar að síast út og þar átti hlut að máli Ronald Ridenhour. Ridenhour var byssumaður í þyrlu og var ekki á staðnum, en hafði heyrt af árásinni nokkrum vikum síðar og fór að kanna málið. Þegar hann var í leyfi í Bandaríkjunum ári eftir fjöldamorðin skrifaði hann forystumönnum í pólitík og æðstu yfirmönnum hersins bréf með upplýsingum, sem urðu til þess að farið var að rannsaka málið.
Svo fór að Calley var ákærður fyrri morð að yfirlögðu ráði nokkrum dögum áður en þjónustu hans lauk í hernum. Stutt frétt birtist um málið í september 1969, en umfang þess kom hins vegar ekki í ljós fyrr en í nóvember þegar fóru að birtast greinar eftir blaðamanninn Seymour Hersh. Hersh hafði fengið ábendingu og hafði upp á Calley, sem átti yfir höfði sér að vera dreginn fyrir herrétt fyrir morð á 109 manns. Hann reyndist í góðu yfirlæti í vistarverum háttsettra yfirmanna í Fort Benning í Georgíu.
Fréttir Hersh, sem hann fékk fyrir Pulitzer-verðlaun, ollu miklu uppnámi. Menn skiptust nánast frá upphafi í tvö horn út af Calley. Ýmist var litið á hann sem glæpamann eða blóraböggul, fjöldamorðingja eða óreyndan yfirmann, sem var látinn taka skellinn fyrir yfirmenn sína.
Sumum fannst ákæruvaldið hafa valið þann sem lá best við höggi, þann sem var lægstur í valdakeðjunni þar sem einnig voru Ernest Medina höfuðsmaður, sem var sakaður um að bera heildarábyrgð á árásinni, og Samuel W. Koster major, sem var hæst settur hinna ákærðu og gefið að sök að hafa reynt að hylma yfir fjöldamorðin.
Aðeins einn dæmdur
Calley var fundinn sekur um að hafa myrt að minnsta kosti 22 óbreytta borgara og hlaut lífstíðardóm 29. mars 1971. Kviðdómur úr hernum hafnaði því að hann hefði aðeins fylgt skipunum. Eftir áfrýjanir var refsingin milduð. Hann sat á endanum inni í þrjú ár og mestan þann tíma var hann í stofufangelsi. Enginn annar var dæmdur.
Árið 1970 kom út bókin Lieutenant Calley: His Own Story, sem hann skrifaði ásamt blaðamanninum John Sack. Þar skrifaði hann að enginn yfirmaður hefði látið þess getið að í My Lai yrðu almennir saklausir borgarar. Hamrað hefði verið á því að vera sífellt á verði, um leið og maður héldi að það væri óhætt, létu þeir til skarar skríða: „Í bardaga áttu enga vini! Þú átt óvini!“
Calley lét lítið fyrir sér fara eftir að hann losnaði úr prísundinni. Hann kvæntist og eignaðist einn son, en skildi síðar. Sagt er að hann hafi oft gengið með regnhlíf til að breiða út svo ljósmyndarar gætu ekki tekið af honum myndir og hann hefði sagst óska sér þess að enginn vissi hver hann væri. Árið 2009 flutti hann ávarp á Kiwanis-fundi þar sem hann baðst að því er talið er fyrsta sinni afsökunar á þætti sínum í My Lai: „Ekki líður sá dagur að ég finni ekki til iðrunar vegna þess sem gerðist þennan dag í My Lai,“ var haft eftir honum. „Ég finn til iðrunar vegna Víetnamanna sem féllu, vegna fjölskyldna þeirra, vegna bandarísku hermannanna, sem áttu hlut að máli, og fjölskyldna þeirra.“
Tekið var til þess í andlátsfréttum um Calley að á dánarvottorði hans hefði spurningunni um það hvort hann hefði nokkru sinni gegnt herþjónustu verið svarað neitandi.