Hulda Ósk Jónsdóttir, kantmaður úr Þór/KA, var besti leikmaður Bestu deildar kvenna í fótbolta í júlímánuði, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins. Hulda fékk samtals fimm M í fimm leikjum Akureyrarliðsins í deildinni í júlí og var tvisvar valin í úrvalslið umferðarinnar í mánuðinum, bæði í 12

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Hulda Ósk Jónsdóttir, kantmaður úr Þór/KA, var besti leikmaður Bestu deildar kvenna í fótbolta í júlímánuði, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.

Hulda fékk samtals fimm M í fimm leikjum Akureyrarliðsins í deildinni í júlí og var tvisvar valin í úrvalslið umferðarinnar í mánuðinum, bæði í 12. og 14. umferð.

Hún tók því vel við sér eftir að hafa aðeins fengið tvö M í fyrstu tíu leikjum Þórs/KA og er nú þriðja hæst í M-gjöfinni af leikmönnum liðsins með 7 M samtals, en á undan henni eru Sandra María Jessen með 15 M og Agnes Birta Stefánsdóttir með 8 M.

Sandra með forystu

Sandra er efst af öllum leikmönnum eftir 15 umferðir en á eftir henni koma Katie Cousins úr Val með 13 M og Jordyn Rhodes úr Tindastóli með 12 M.

Einn annar leikmaður í deildinni fékk samtals fimm M í júlí en það var Abigail Boyan, miðjumaður Fylkis, sem fékk M fyrir alla fimm leiki sína í mánuðinum.

Þrenna hjá Katie

Katie Cousins, miðjumaður Vals, er í úrvalsliðinu í þriðja skipti og er eini leikmaðurinn í deildinni sem hefur verið valin í byrjunarliðið í öll þrjú úrvalslið tímabilsins, maí, júní og júlí.

Sandra María Jessen úr Þór/KA er í annað sinn í byrjunarliðinu og hefur einu sinni verið varamaður. Hún var besti leikmaðurinn í maí.

Caroline Murray úr Þrótti er meðal varamanna en hún var í byrjunarliðinu í bæði maí og júní.

Jordyn Rhodes úr Tindastóli er á meðal varamanna í annað sinn en hún var í byrjunarliðinu í júní og var þá besti leikmaðurinn.

Ída Marín Hermannsdóttir úr FH er í annað sinn í byrjunarliðinu.

Ásta Eir Árnadóttir úr Breiðabliki er á meðal varamanna en hún hefur verið einu sinni í byrjunarliðinu.

Guðrún Karítas Sigurðardóttir úr Fylki er á meðal varamanna í annað sinn.

Valur fékk flest M samanlagt í júlí, 26 talsins. Víkingur fékk 24, Breiðablik 23, Stjarnan 23, Þór/KA 23, Þróttur R. 22, Fylkir 22, FH 21, Keflavík 15 og Tindastóll rak lestina með 13 M samtals.

Í einkunnagjöf Morgunblaðsins fé leikmenn eitt M þegar þeir eiga góðan leik, tvö M þegar þeir eiga mjög góðan leik og þrjú M þegar þeir eiga frábæran leik. Hulda og Sandra úr Þór/KA eru einu leikmennirnir sem hafa fengið þrjú M í leik í ár.

Höf.: Víðir Sigurðsson