Það var, eðlilega, þungt yfir miðlurum vestanhafs á mánudaginn.
Það var, eðlilega, þungt yfir miðlurum vestanhafs á mánudaginn. — AFP/Michael M. Santiago
Fyrir flesta Íslendinga var síðastliðinn mánudagur annaðhvort síðasti frídagurinn á langri helgi eða ferðadagur fyrir þá sem höfðu brugðið sér af bæ yfir verslunarmannahelgina. Veðrið var eins og við höfum átt að venjast í sumar, rigning og…

Fyrir flesta Íslendinga var síðastliðinn mánudagur annaðhvort síðasti frídagurinn á langri helgi eða ferðadagur fyrir þá sem höfðu brugðið sér af bæ yfir verslunarmannahelgina. Veðrið var eins og við höfum átt að venjast í sumar, rigning og smávægilegt rok, en hér skal þó látið ósagt um ástand þeirra sem voru á ferðinni þann daginn.

Það er þó hægt að segja að það hafi ríkt timburmenni á erlendum mörkuðum, sem ólíkt þeim íslenska voru opnir á mánudag. Helstu hlutabréfavísitölur í Asíu lækkuðu strax við opnun markaða þar, og í kjölfarið fylgdu markaðir í Evrópu og í Bandaríkjunum. Nikkei-vísitalan í Japan lækkaði um 12,4% og hefur ekki lækkað jafn skarpt á einum degi frá 1987. Lækkunin á mörkuðum í Evrópu og í Bandaríkjunum var þó ekki jafn skörp.

Það versta er að þessi timburmenni alþjóðamarkaða komu ekki í kjölfarið á góðum gleðskap, eins og timburmönnum er þó gjarnt að gera. Hlutabréfamarkaðir erlendis hafa þó ólíkt hinum íslenska leitað upp á við á liðnum mánuðum, þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Maður þyrfti þó að teygja sig heldur langt til að kalla það partý og hvað þá að það kalli á einhverja þynnku. Lækkunin á mánudag á sér að mörgu leyti eðlilegar skýringar, til að mynda þær að fjölgun starfa í Bandaríkjunum í júlí var nokkuð undir væntingum og að ljóst er að einhver töf verður á lækkun vaxta vestanhafs. Önnur ástæða, og mun líklegri, er sú að japanski seðlabankinn hækkaði fyrir helgi stýrivexti sína, úr 0-0,1% upp í 0,25%. Þetta er ekki mikil hækkun en hún vegur samt þungt komandi frá Japan. Stýrivextir í Japan eru sögulega lágir og því hafa margir fjárfestar kosið að skuldsetja sig í japönskum jenum. Það má með einföldum hætti segja að jenið sé ódýr gjaldmiðill, og því kjörið að skuldsetja sig með honum. Þegar stýrivextir hækka í Japan þurfa margir fjárfestar, sérstaklega þeir skuldsettu, að losa um fjármagn – líkt og þeir virðast hafa gert á mánudag. Það er svo sem engin ástæða til að gera of mikið úr lækkuninni á mánudag, þótt vissulega hafi hún hrist upp í fjármálakerfum heimsins. Flestir markaðir komu að einhverju leyti til baka í gær, þriðjudag, í það minnsta þannig að það er eflaust lítil ástæða til að örvænta.

Hvað daglegar sveiflur varðar fylgir íslenski markaðurinn oft þeim erlendu, þá sérstaklega í Evrópu og eftir tilvikum þeim bandarísku, en heilt yfir litið hefur íslenski markaðurinn ekki fylgt þeim erlendu á liðnum mánuðum. Líkt og rakið var hér að framan geta verið ýmsar ástæður fyrir breytingum á gengi hlutabréfa, jafnvel sveiflum þegar svo ber undir. Það sama á við hér á landi, gengi hlutabréfa endurspeglar ekki endilega stöðu eða rekstur viðkomandi félaga eins og nýlega var fjallað um hér á þessum stað. Færa má rök fyrir því að flest af íslensku félögunum séu í dag undirverðlögð. Enn má þó kalla eftir umræðu um það hvort að íslenski markaðurinn sé of grunnur eða einfaldur þar sem lífeyrissjóðirnir leika aðalhlutverk og aðrir fjárfestar aukahlutverk.