Einbeittur Þórir á hliðarlínunni á Ólympíuleikunum í París á dögunum.
Einbeittur Þórir á hliðarlínunni á Ólympíuleikunum í París á dögunum. — AFP/Damien Meyer
Kvennalið Noregs í handknattleik, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, leikur til verðlauna á Ólympíuleikunum í París. Það varð ljóst eftir að norska liðið lagði það brasilíska örugglega að velli, 32:15, í átta liða úrslitum keppninnar í gærkvöldi

Kvennalið Noregs í handknattleik, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, leikur til verðlauna á Ólympíuleikunum í París. Það varð ljóst eftir að norska liðið lagði það brasilíska örugglega að velli, 32:15, í átta liða úrslitum keppninnar í gærkvöldi.

Með því tryggði Noregur sér sæti í undanúrslitum þar sem liðið mætir Danmörku. Norska liðið leikur því að minnsta kosti um bronsverðlaunin á mótinu en freistar þess að ná í þriðja ólympíugullið í sögu kvennaliðsins. Undir stjórn Þóris varð Noregur ólympíumeistari á leikunum í Lundúnum árið 2012.

Í leiknum í gærkvöldi var Marit Jacobsen markahæst með sex mörk fyrir Noreg.

Svíþjóð hafði betur gegn Ungverjalandi, 36:32, eftir æsispennandi framlengdan leik og mætir Frakklandi í undanúrslitum. Eftir gífurlegt jafnræði með liðunum í venjulegum leiktíma voru Svíar sterkari í framlengingunni.

Nina Koppang var markahæst hjá Svíþjóð með sjö mörk en Katrin Klujber fór á kostum hjá Ungverjalandi og skoraði 11 mörk.

Gestgjafarnir og Danir áfram

Í hádeginu mættu gestgjafar Frakklands liði Þýskalands og unnu 26:23. Frakkar hófu leikinn af krafti og komust mest sex mörkum yfir í í fyrri hálfleik áður en Þjóðverjar löguðu stöðuna fyrir hálfleik, sem var 13:10, Frökkum í vil.

Þjóðverjum tókst að jafna metin í 15:15 snemma í síðari hálfleik áður en Frakkar náðu aftur stjórn á leiknum og unnu þriggja marka sigur.

Markahæst hjá Frakklandi var Tamara Horacek með sjö mörk og Emily Bölk skoraði einnig sjö fyrir Þýskaland.

Danmörk mætti Hollandi um morguninn og hafði betur, 29:25, eftir hörkuleik. Holland byrjaði leikinn betur og náði mesta fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik áður en Danir sneru taflinu við og leiddu með einu marki, 11:10 í hálfleik.

Í síðari hálfleik voru Danir við stjórn allan tímann. Holland bankaði nokkrum sinnum á dyrnar en náði mest að minnka muninn niður í tvö mörk og niðurstaðan að lokum fjögurra marka sigur Danmerkur.

Markahæstar hjá Danmörku voru Anne Mette Hansen og Emma Friis með sex mörk hvor. Bo van Wetering og Dione Housheer skoruðu sjö mörk hvor fyrir Holland.