[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á undanförnum árum, einkum eftir heimsfaraldur, hefur innledum og erlendum greinendum reynst erfitt að spá fyrir verðbólgunni. Líkt og ViðskiptaMogginn tók saman í byrjun júní í fyrra vanspáðu greinendur verðbólgunni trekk í trekk

Á undanförnum árum, einkum eftir heimsfaraldur, hefur innledum og erlendum greinendum reynst erfitt að spá fyrir verðbólgunni. Líkt og ViðskiptaMogginn tók saman í byrjun júní í fyrra vanspáðu greinendur verðbólgunni trekk í trekk. Á síðustu misserum hefur greinendum þó gengið betur og eru allir á einu máli að verðbólgan muni fara niður á næstunni. Það sé þó spurning hversu hratt það muni gerast.

Í júlí mældist ársverðbólgan 6,3% og hækkaði úr 5,8% frá fyrri mánuði. Sú mæling kom greinendum í opna skjöldu en júlí er sögulega fremur rólegur mánuður hvað varðar verðbólgu. Á árunum eftir heimsfaraldur hefur verðbólgan verið mikil. Hún toppaði í febrúar 2023 þegar ársverðbólga mældist 10,2% og hefur verið þrálát síðan en lækkað undanfarið.

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að svo virðist vera sem það sé bæði auðveldara og erfiðara að spá fyrir verðbólgunni í ár en í fyrra.

„Í fyrra þá hegðaði íbúðamarkaðurinn sé öðruvísi. Hann var í raun hagfelldari en við áttum von á síðasta haust. Síðan snerist þróunin við og hann hefur verið sprækari en vænst var síðustu fjórðunga. Hjöðnun verðbólgu varð að þessu leytinu heldur meiri framan af vetri en við áttum von á,“ segir Jón Bjarki.

Hjalti Óskarsson, hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, segir að fyrir utan janúarspá bankans þá hefi gengið þokkalega að spá fyrir verðbólgunni í ár.

„Auðvitað eru alltaf einhverjir liðir sem koma okkur stundum á óvart en heildarmyndin er sú að verðbólgan er á niðurleið, það er aðeins spurning um hversu hratt hún kemur niður,“ segir Hjalti.

Ný aðferð dregur úr sveiflum

Í byrjun júní breytti Hagstofan um aðferð við mælingu á reiknaðri húsaleigu og notast nú við svokallað húsaleiguígildi. Aðferðin virkar þannig að notast er við ítarleg gögn um leigumarkaðinn til að reikna út kostnað við búsetu í húsnæði.

Jón Bjarki segir að vænta megi að ný aðferð verði til þess að sveiflur milli mánaða verði minni en þær hafa verið.

„Húsnæðisliðurinn hefur verið óvissuþáttur í skammtímaverðbólguspám og það hefur alltaf reynst erfiðara og erfiðara að festa fingur á þróun hans til skamms tíma.Nýja aðferðin byggir hins vegar á öllum leigusamningunum, meðan gamla aðferðin byggði á nýjum kaupsamningum, og það minnkar skammtímasveiflurnar,“ segir Jón Bjarki.

Nýja aðferðin kom til framkvæmda fyrir tevimur mánuðum síðan og ef þeir tveir mánuðir eru skoðaðir og bornir saman við gömlu aðferðina kemur í ljós að verðbólgan hefði mælst meiri í þessum tveimur mánuðum ef aðferðinni hefði ekki verið breytt. Verðbólgan hefði mælst hálfri prósentu hærri eða í kringum 6,8% í stað 6,3% í júlí.

Jón Bjarki bendir á að áhyggjur séu uppi af þeirri staðreynd að leiguverð hafi ekki fylgt hækkun fasteignaverðs undanfarið og það gæti orðið til þess að það eigi einhverja hækkun inni.

„Hversu langan tíma það tekur og hvort það raungerist að fullu á eftir að koma í ljós. Ég tel að þetta sé þróun sem verði frekar yfir lengri tíma en styttri. Fyrsta reynslan af þessari mælingu sýnir í öllu falli hófstilltari mælingar og minnkar óvissu um skammtímasveiflur,“ segir Jón Bjarki.

Hjalti segir að ætla megi að ný aðferð færi okkur stöðugri mælingar og skapi minni óvissu.

„Leigusamningar eru oft vísitölutengdir með tveggja mánaða töf og það ætti að hjálpa til við mánaðarspár. Aðferðin sem slík gerir það að verkum að það verða minni sveiflur í grunninn,“ segir Hjalti.

Líkt og áður sagði hefur greinendum reynst erfitt á undanförnum árum að spá fyrir verðbólgunni. Spurður um ástæður segir Jón Bjarki að það eigi sér nokkrar skýringar.

„Í fyrsta lagi þá urðu áhrifin af innfluttu verðbólgunni mikil. Við vorum orðin svo góðu vön á undanförnum áratug sem var tími lágrar verðbólgu og stöðugleika á heimsvísu ásamt litlum sveiflum í hrávöruverði. Þetta breyttist allt í faraldrinum og einnig eftir innrás Rússa í Úkraínu. Í öðru lagi þá hefur reynst erfitt að spá fyrir um þróun húsnæðisliðarins,“ segir Jón Bjarki og nefnir einnig að þriðja ástæðan sé að erfitt hafi verið að gera sér grein fyrir hversu mikil áhrif á verðbólguna mikil innspýting opinberra fjármuna í faraldrinum myndi hafa.

„Hallinn í ríkisfjármálum var stóraukinn í faraldrinum en árin á undan höfðu ríkisfjármálin verið fremur heilbrigð og ríkisskuldir lækkað jafnt og þétt,“ segir Jón Bjarki.

Hjalti segir að eftir verðbólguskot í kjölfar Covid hafi verðbólguspár reynst mun erfiðari.

„Það var erfitt að spá fyrir um toppinn á verðbólgunni og hver þróunin yrði. Þetta var ekkert séríslenskt vandamál heldur eitthvað sem greinendur um allan heim glímdu við,” segir Hjalti.

Erfiðleikar ytra nýir af nálinni

Jón Bjarki bendir á að erfiðleikar við verðbólguspár hafi verið tiltölulega nýjar af nálinni hjá erlendum greinendum meðan greinendur hérlendis hafi í gegnum tíðina þurft að búa við meiri sveiflur.

„Ég tel því að spáskekkjan erlendis hafi verið hlutfallslega meiri á þessum tíma. Greinendur erlendis þurftu að endurmeta sína aðferðafræði við greiningar,“ segir Jón Bjarki.

Þegar verðbólgan var á uppleið í Bandaríkjunum í kjölfar Covid lýsti Seðlabankastjóri Bandaríkjanna Jerome Powell því yfir að verðbólgusotið væri aðeins skammvinnt (e. Transitory). Þó voru einhverjir efins um það og skiptust greinendur upp í tvær fylkingar.

„Seinni hópurinn hafði re´tt fyrir sér. Verðbólgan í Bandaríkjunum er enn yfir markmiði en styttist eflaust í stýrivaxalækkanir þar eins og víða um heim,“ segir Jón Bjarki að lokum.