Elísabet Gunnarsdóttir fæddist á Keldum í Reykjavík 21. maí 1945. Hún lést á Landakotsspítala 28. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Kristín Bæringsdóttir, matráðskona á Keldum, f. 1914, d. 2006, og Gunnar J. Ólason, bústjóri á Keldum, f. 1903, d. 1973. Systur hennar eru: Þórunn, f. 1940, og Dagbjört, f. 1950. Sonur Þórunnar er Paul Griggs, f. 1960, kona hans er Carol Meriwether og dætur þeirra eru Catlin og Ásdís Griggs.

Fyrrverandi sambýlismenn Elísabetar voru Jón Gunnar Árnason myndlistarmaður og Harald G. Haraldsson leikari.

Elísabet ólst upp á Tilraunastöðinni á Keldum og síðan í Grafarholti í Reykjavík. Hún gekk í Laugarnesskóla, lauk stúdentsprófi frá MR 1965, BA-prófi í ensku og sögu og námi til kennsluréttinda frá HÍ 1969 og stundaði framhaldsnám í Svíþjóð 1970-1971. Hún var síðan kennari við grunnskóla í Reykjavík 1969-1970, framhaldsskólakennari við Lindargötuskóla (framhaldsdeildir) 1971-1977 og Fjölbrautaskólann við Ármúla frá 1977 til eftirlaunaaldurs.

Elísabet var virk í Rauðsokkahreyfingunni sem starfaði árin 1970-1982. Hún var í forystusveit stofnenda Samtaka um kvennaathvarf og starfskona þeirra um langa hríð. Elísabet var á árum áður myndlistargagnrýnandi á tveimur dagblöðum og virk í SÚM-hópnum og sat í eitt tímabil í stjórn Kjarvalsstaða. Hún fékkst við ritstörf og þýðingar, þýddi m.a. Kvennaklósettið eftir Marilyn French, Rúmið brennur eftir Faith McNulty, námsbækur og ásamt Hildi Hákonardóttur Walden – Lífið í skóginum eftir H.D. Thoreau. Elísabet var í nokkur ár í dómnefnd um Íslensku þýðingarverðlaunin.

Bálför hefur farið fram og ösku verður dreift á Breiðafirði. Erfi Elísabetar verður haldin í Gamla bíói í dag, 7. ágúst 2024, kl. 16.

Hið óræða ‒

ekki stafar því hingað handan yfir

leyndardómsfull landamæri.

Staðfesta þess er hér:

í stundarheiminum sjálfum

fellt við upphafsþrumuna

í alla sköpun.

Þeir sem þögn jarðar geymir

og þeir sem lífs njóta

búa hlið við hlið

í heimi sem er einn

og altækur.

(Hannes Pétursson)

Elísabet var glæsileg kona, hávaxin og dökk yfirlitum, jafnan fallega klædd, hæglát og örugg í fasi, flanaði ekki að neinu, umhyggjusöm við nemendur og samstarfsmenn. Hún var róttæk í stjórnmálum og meðal stofnenda Rauðsokka; fylgdist vel með menningarlífi, innvígð í heim myndlistar frá ungdómsárum, að jafnaði fámál um einkalíf sitt. Hún var tilfinningarík og nemendur særðu hana þegar þeir vanræktu verkefni sín en hún var þeim síðan traustur bakhjarl þegar lífið hafði gert þeim grikk, t.d. ruglað þá í skólareglum eða hrundið þeim í einhver mjósyndi unglingsára. Hún var samviskusöm og mætti jafnan vel undirbúin til allra verka. Eiginlega átti hún alltaf meira efni í handraðanum en hún þurfti skv. stundaskránni því að hún vildi alls ekki daga uppi með auðar síður. Ókunnugum virtist hún alvörugefin um of, en hún hafði ljómandi skopskyn og víst var gaman að hlæja með henni; hún var stundum býsna beinskeytt! Réttlætiskennd hennar var svo djúprætt að hún gat aldrei brynjað sig fullkomlega fyrir vonsku heimsins og tók hana stundum inn á sálina. Hún var góður og eftirminnilegur samstarfsmaður þann aldarfjórðung sem við hömruðum saman járnið í FÁ, allt frá stofnun skólans, og lagði gott til mála, velti við ótal steinum þegar mikils þurfti við. Hún var nákvæmur og öruggur þýðandi og hlaut ásamt Hildi Hákonardóttur verðlaun fyrir verk á þeim akri.

Og nú er hún dáin, horfin, tók fetið dimma eftir hörð veikindi. Ösku hennar verður dreift í djúp sjávar. Hún sefur nú „við rætur þagnarinnar – / þagnar gjörvallra þagna” (HP). Við skulum muna hana Betu eins og hún var meðan ljósið skein í augum hennar. Ástvinum öllum sendum við Magnea samúðarkveðjur.

Sölvi Sveinsson.

Elísabet Gunnarsdóttir var frumkvöðull og fyrirmynd, heimsborgari og sveitastúlka. Hún var glæsileg kona og hafði meirapróf í öllu sem skipti okkur máli á 7. og 8. áratugnum: Kvennabaráttu, borgaralegri óhlýðni, myndlist, ensku, tísku og jafnvel rósaprjóni. Hún hafði verið sjálfboðaliði á Kúbu og kunni líka á Farmall cub og borðsög, sem kom sér vel í Flatey þegar lítið lá við.

Ég man eftir Betu í SÚM og Flatey uppúr 1970 – en við kynntumst fyrst þegar við tíu konur ætluðum að hrista fram úr erminni þýðingu á dönsku bókinni Kvinde kend din krop. Það tók okkur hins vegar tvö ár því við enduðum á að endurskrifa, bæta við og staðfæra, fá nýjar ljósmyndir og skýringarmyndir, þannig að Nýi kvennafræðarinn (1981) varð 80-90% nýtt verk. Þessi vinna krafðist ótal funda, djúpra trúnaðarsamtala og vináttubönd þéttust. Á sama tíma kenndi Elísabet fulla kennslu, skrifaði um myndlist í blöð bæjarins og tókst á við þýðingu Kvennaklósettsins (1980) eftir Marilyn French, biblíu nýju kvennahreyfingarinnar. Og 1982 kom út þýðing Betu á Rúmið brennur, bók um réttarhöld yfir fórnarlambi hræðilegs heimilisofbeldis.

Þar var komin tengingin og haustið 1981 héldum við fyrsta undirbúningsfund að stofnun kvennaathvarfs í kjallara Hótels Lindar. Auk okkar úr Kvennafræðaranum voru þar rauðsokkur, kvennaframboðskonur og konur frá öðrum flokkum. Samtök um kvennaathvarf voru stofnuð 2. júní 1982, strax eftir borgarstjórnarkosningar sem við vildum ekki að skyggðu á málefnið, og athvarfið var opnað 6. desember.

Ég veit ekki til þess að Beta hafi tekið þátt í flokkspólitísku starfi, en hún hvatti eindregið til þverpólitískrar samstöðu, sem var lykillinn að farsælli stofnun SUK. Og hún hélt ekki aðeins konum ólíkra flokka við borðið heldur hafði hún sterk og ómetanleg tengsl við forystukonur í baráttu láglaunakvenna. Sem er skýringin á því að Starfsmannafélagið Sókn er fyrsti skráði stofnfélagi Samtaka um kvennaathvarf og að fyrstu árin voru fundir haldnir í Sóknarsalnum við Freyjugötu.

SUK voru byggð á flötum strúktúr í fjölmörgum vinnuhópum eins og rauðsokkurnar, sem Elísabet tilheyrði, höfðu tileinkað sér áratug fyrr. Beta var ein af þeim sem gengu vaktir í athvarfinu og þegar við hrundum af stað söfnuninni Allir með tölu á 10 ára afmæli SUK kom í ljós að hún hafði sambönd í Vogue á Skólavörðustíg sem pantaði fyrir okkur litríkar og fallegar tölur sem seldust eins og heitar lummur á 200-kall og færðu okkur nýtt hús fyrir athvarfið.

Elísabet lifði í samræmi við boðorð kvennahreyfingarinnar: Hið persónulega er pólitískt – og eðli máls samkvæmt var hún aðgerðasinni og náttúruverndari fram í fingurgóma. Eftir hana liggur þýðing á grein H.D. Thoreau Borgaraleg óhlýðni (TMM 2009) sem hún skrifaði BA-ritgerð um 1969, sem og þýðing hennar og Hildar Hákonardóttur á meistaraverki Thoreau, Walden, eða Lífið í skóginum (2017), bók sem hefur fært Thoreau nafnbótina „ættfaðir náttúruverndarsinna“ fyrir einstakt náttúrulæsi og reynslu af einföldu lífi í takt við náttúruna.

Eins og sjá má af því litla sem ég hef hér rakið af lífshlaupi Elísabetar Gunnarsdóttur var hún bráðgreind, afkastamikil og metnaðarfull. Hún var líka glaðvær og góður félagi og vinkona. Eftir hana liggja djúp spor í baráttusögu okkar kynslóðar fyrir réttlátu samfélagi og virðingu fyrir náttúrunni.

Far vel, vinkona,

Álfheiður Ingadóttir.

„Eins og allir aðrir horfði ég upp á ólíkt mat á störfum og hegðun karla og kvenna í bernsku. Helst vildi maður gleyma mörgu því sem sagt var um konur á þessum árum, það var oft á tíðum ekki uppörvandi fyrir stúlkubörn,“ skrifaði Elísabet í bókinni Á rauðum sokkum, baráttukonur segja frá. Allt frá því hún fylgdist með hópi kvenna bera styttu af Lýsiströtu aftast í 1. maí-göngu árið 1970 var hún virk í baráttunni fyrir réttindum kvenna. Saman ferðuðumst við síðan, hópur Rauðsokka, áfram veginn með Lýsiströtu.

Við sjáum Betu fyrir okkur; fágaða með reisn og hlýtt augnaráðið, sýnir viðmælandanum áhuga, gáfuð og góður greinandi en kímnin aldrei langt undan.

Elísabet var virk í Rauðsokkahreyfingunni lengst af þeim tíma sem hreyfingin starfaði árin 1970-1982. Við stóðum fyrir uppákomum og kynntum málstað okkar á fundum félagasamtaka og í skólum. Saman stóðumst við háðsglósur, soralegt orðbragð og jafnvel hótanir og saman glöddumst við yfir þakklæti, liðsinni og hvatningu. Við fórum aldrei einar, ætíð fleiri saman og Beta svaraði beittum spurningum af hispursleysi og glettni. Hún var virk í leshringjum og starfshópum, tók helst ekki þátt í háværum umræðum, en þegar hún hóf ígrundað mál sitt var hlustað. Glaðbeitt stóð hún með þreyttu húsmóðurinni sem stillt var upp á Lækjartorgi og dreifði hugvekjum til annarra kvenna þar sem spurt var: Eru þetta okkar jól? Þegar tók að mótast hugmyndin um að fara í verkfall til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna í samfélaginu varð Elísabet fulltrúi okkar í framkvæmdanefnd um kvennafrí. Hún átti líka ófáar greinar í blaði Rauðsokka – Forvitin rauð.

Í áratugi var Elísabet rómaður kennari við Lindargötuskólann og Fjölbrautaskólann við Ármúla. Myndlistin átti jafnframt stóran sess í lífi hennar. Á yngri árum var hún myndlistargagnrýnandi á tveimur dagblöðum og virk í SÚM-hópnum. Beta var listaprjónari sem sjá má á rósavettlingum og sokkum með fallegu litavali sem hún gaf vinum sínum. Einnig fékkst hún við ritstörf, þýddi margar bækur og sat í dómnefnd Íslensku þýðingarverðlaunanna.

Elísabet vildi berjast fyrir betri heimi og tók pólitíska afstöðu með málum sem hreyfðu við réttlætiskennd hennar. Hún lagðist sterk á vogarskálar í baráttunni gegn ofbeldi á konum og var í forystusveit stofnenda Samtaka um kvennaathvarf og starfskona þeirra um langa hríð.

Elísabet var einlægur náttúruverndarsinni og þýddi ásamt Hildi Hákonardóttur verk náttúruverndarfrömuðarins H.D. Thoreau, Walden eða Lífið í skóginum. Ástríðan fyrir náttúrunni yfirgaf Betu aldrei og í hinstu legunni á Landspítalanum naut hún þess að fylgjast með hreiðurgerð fuglanna á þaki utan við gluggann. Hún hafnaði því einbýli þegar það bauðst og hélt áfram að fylgjast með amstri fuglanna með ungana sína.

Við vinkonurnar úr Rauðsokkahreyfingunni söknum Betu úr okkar nána félagsskap þar sem í öll þessi ár bar aldrei skugga á og hugsum jafnframt til þeirra úr hópnum sem á undan eru gengnar. Systrum Elísabetar og fjölskyldu vottum við innilega samúð.

Edda Óskarsdóttir,
Gerður G. Óskarsdóttir,
Guðrún Ágústsdóttir,
Guðrún Hallgrímsdóttir,
Helga Ólafsdóttir,
Hildur Hákonardóttir,
Lilja Ólafsdóttir,
Rannveig Jónsdóttir.

Árið 2015, þegar ég kom í fjölskylduferð til Íslands, frétti ég af kvennafrídeginum og það var eins og yrði sprenging í höfðinu á mér. Ég þaut heim, skrifaði umsókn og sneri svo aftur til Íslands árið eftir til að gera fyrstu upptökur af því sem endanlega varð heimildarmynd sem hlaut nafnið „The day Iceland stood still“. Strax lágu allar leiðir til Elísabetar og þegar tökubíllinn rann upp að húsinu hennar í fyrsta sinn sá ég þessa einstöku konu, teinrétta og glæsilega hverfa niður götuna. Þegar við vorum búin að afferma bílinn af tækjum hafði hún snúið til baka með poka af sætindum úr bakaríinu fyrir tökuliðið.

Viðtalið var dásamlegt eins og vænta mátti af æfðum kennara og meðan við spjölluðum saman í þakíbúðinni hennar á Þórsgötunni sem var full af listaverkum staldraði hún nokkrum sinnum við til að ná í plögg úr sínu vel skipulagða skjalasafni til staðfestingar. Þegar tökunni var lokið lagaði hún kaffi og sendi okkur af stað með afrit af upprunalega plakatinu sem auglýsti kvennafrídaginn með yfirskriftinni: Stöndum saman 24. október.

Ég bjóst við að þetta yrði í eina skiptið sem ég sæi Elísabetu. En þegar við hittumst aftur niðri í bæ næsta dag sagði hún: „Ég hef verið að hugsa um samtalið okkar. Hvernig man maður hluti – vitum við hvernig hugurinn skilgreinir fortíðina?“ Það var einmitt þessi hugsun sem ég var að kljást við þegar við fórum að setja saman þessa löngu sögu með mismunandi minningabrotum þeirra sem lifðu þennan atburð.

Næstu árin þegar ég sneri til baka til Reykjavíkur, ef hún var í bænum, hittumst við í hádegisverði á Snaps eða Jómfrúnni. Ég var heppin að vera þarna daginn sem þýðing hennar Walden, lífið í skóginum, í samstarfi að Hildi Hákonardóttur, kom út. Ég flýtti mér til hennar með kampavínsflösku og gleymi aldrei gleði hennar þegar hún sýndi mér þetta meistaraverk, sem fékk svo íslensku þýðingarverðlaunin árið eftir.

Hún á stóran þátt í myndinni, bæði á skjánum en líka því sem skeði að tjaldabaki sem þýðir að það skipti mig öllu máli að Elísabet kæmi á frumsýninguna á kvikmyndahátíðinni í Reykjavík í fyrra. Ég var taugaóstyrk yfir því hvað hún og hinar rauðsokkurnar myndu hugsa um myndina (ég virkilega var það) og skynjaði það sem góða vísbendingu þegar hún og Guðrún Hallgrímsdóttir hlupu upp á svið með blómvendi handa samstarfskonu minni Hrafnhildi Gunnarsdóttur og mér.

Ég eins og svo margir finn sársauka í hjartanu þegar Elísabet er ekki lengur meðal okkar. Ég hugsa um hana í hvert sinn sem ég geng fram hjá plakatinu um kvennafrídaginn sem hún gaf okkur og sem er innrammað fyrir ofan skrifborðið mitt og líka þegar ég klæði mig í rauðu sokkana sem hún prjónaði handa mér með varnaðarorðum: „Reyndu ekki að stoppa í þá.“

Ég skrifa þetta með tárin í augunum. En eins og Elísabet orðaði það í einum af okkar mörgu tölvupóstum: „We'll meet again, don't know where, don't know when.“ Ég trúi henni og minningin um hana lifir ætíð í hjarta mínu.

Pamela Hogan
kvikmyndaleikstjóri.