Ólympíuþorpið Kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir fyrir framan ólympíuþorpið góða í París en hún er á sínum fyrstu Ólympíuleikum.
Ólympíuþorpið Kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir fyrir framan ólympíuþorpið góða í París en hún er á sínum fyrstu Ólympíuleikum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erna Sóley Gunnarsdóttir Íslandsmethafi í kúluvarpi er mætt til Parísar til að keppa á sínum fyrstu Ólympíuleikum. Erna mætir til leiks í frönsku höfuðborginni á morgun klukkan 8.25 er undankeppnin í kúluvarpinu fer fram á Stade de France, glæsilegum þjóðarleikvangi Frakka

Í París

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Erna Sóley Gunnarsdóttir Íslandsmethafi í kúluvarpi er mætt til Parísar til að keppa á sínum fyrstu Ólympíuleikum. Erna mætir til leiks í frönsku höfuðborginni á morgun klukkan 8.25 er undankeppnin í kúluvarpinu fer fram á Stade de France, glæsilegum þjóðarleikvangi Frakka. Hún ræddi við Morgunblaðið í ólympíuþorpinu.

Sefur vel í papparúminu

„Þetta er geggjað. Að vera í kringum alla þessa flottu íþróttamenn frá öllum þessum þjóðum er geggjuð stemning. Þetta er svakalega flott. Aðstæðurnar í þorpinu eru flottar, matsalurinn er geggjaður og maturinn mjög góður, þótt einhverjir séu ósammála mér. Það er ekkert að pappakassarúmunum og ég sef mjög vel. Það er svolítið heitt en ég er með viftu,“ sagði Erna við Morgunblaðið.

Erna þurfti að bíða lengi eftir að fá staðfestingu á því að sætið á leikunum í París væri í höfn, þar sem hún þurfti að treysta á fjarveru nokkurra kastara sem voru fyrir ofan hana á styrkleikalista Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins.

„Það var mjög erfitt. Maður var að reyna að finna eitthvað annað að gera og hugsa um eitthvað annað. Svo var þetta gleði þegar sætið var í höfn. Maður heldur alltaf í jákvæðnina og var klár í hvað sem er. Draumurinn var að komast inn og hann rættist,“ sagði hún.

Þrátt fyrir að stutt sé í stærsta mót ferilsins er Erna lítið að stressa sig, enda búin að vera í afar góðu formi undanfarnar vikur. „Ég er bara spennt. Það er fiðringur að keppa en maður breytir honum í spennu. Líkaminn er tilbúinn að fara að keppa. Auðvitað er smá stress en það er fyrst og fremst spenna.“

Vá, hvað hann er flottur

Frjálsíþróttakeppni leikanna í París fer fram á Stade de France, sem tekur um 80.000 manns í sæti. Erna brosti breitt þegar talið barst að vellinum glæsilega.

„Vá, hvað hann er flottur. Hann er risastór og tekur tæplega 80.000 manns. Þetta er svakalega flottur völlur og ég get ekki beðið eftir að fá að keppa. Ég horfði á kúluvarp karla og vá, hvað það var flott. Ég komst ekki á völlinn en ég horfði á þetta í sjónvarpinu og fór að pæla í því að ég yrði þarna bráðum. Það er ótrúlega skemmtileg tilfinning. Venjulega er ég spennt að vera aðdáandi en núna fæ ég að vera þarna líka. Það er magnað,“ sagði hún spennt.

Erna hefur keppt bæði á heims- og Evrópumótum en hún sagði Ólympíuleikana mun stærri en það sem hún hefur áður upplifað.

„Þetta er allt annað. Heims- og Evrópumót í frjálsum eru mjög stór og mikið af fólki fylgist með. Þetta er samt allt annar pakki. Þetta er mikið stærra og mun fleiri íþróttir sem gerir þetta skemmtilegt. Maður finnur svo fyrir þessum ólympíuanda,“ sagði hún.

Síðan sætið á leikunum var í höfn hefur Erna nýtt tímann vel í æfingar og keppni, með góðum árangri.

„Ég horfði á þessi mót fyrir leikana sem æfingamót og til að ná keppnisstressinu út. Ef það líður of langur tími á milli móta myndast oft of mikil spenna. Það var gott að taka eina auðvelda keppni og ég er á mjög góðum stað. Ég var ánægð með mín bestu köst og átti einnig mjög löng köst í upphitun. Ég veit að ég er tilbúin í keppnina núna,“ sagði hún.

Setur markið hátt

Ljóst er að það verður þrautin þyngri fyrir Ernu að ná einu af 12 efstu sætunum í undankeppninni og komast í úrslit, en 32 keppendur mæta til leiks í greininni. Erna er í 31. sæti á styrkleikalista þeirra sem keppa. Þrátt fyrir það ætlar Mosfellingurinn sér í úrslit.

„Ég fer inn í þetta mót og reyni að vinna eins marga og ég get. Ég er klár í þessa keppni og ætla að reyna að enda í eins góðu sæti og ég get. Það er alltaf markmið að komast í úrslit og fá að kasta oftar en þrisvar. Það er krefjandi markmið en ég held ég geti það.

Ég ætla líka að njóta þess að keppa. Það er alltaf skemmtilegra að keppa þegar maður er í góðum gír. Það er gaman að fá að spreyta sig á móti þessum ofboðslega góðu konum. Maður gerir sitt besta á þessum risastóra vettvangi,“ sagði hún.

Flestir kúluvarparar ná sínum besta árangri í kringum þrítugt. Erna verður 28 ára þegar Ólympíuleikarnir í Los Angeles fara fram eftir fjögur ár.

„Fólk er yfirleitt um og yfir þrítugt þegar það toppar og ég stefni á að vera upp á mitt allra besta árið 2028. Þetta verður geggjuð reynsla núna. Ég vil árangur á þessu móti og á sama tíma mun þetta undirbúa mig fyrir framtíðina,“ sagði Erna.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson