[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Pablo Punyed, lykilmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í leik liðsins gegn Egnatia í Albaníu í Sambandsdeild Evrópu í síðustu viku

Knattspyrnumaðurinn Pablo Punyed, lykilmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í leik liðsins gegn Egnatia í Albaníu í Sambandsdeild Evrópu í síðustu viku. Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings staðfesti fregnirnar í samtali við Fótbolta.net í gær. Þátttöku Pablos á tímabilinu er þar með lokið.

Hin kanadíska Camryn Rogers vann sitt fyrsta ólympíugull þegar hún reyndist hlutskörpust í úrslitum sleggjukasts kvenna á Ólympíuleikunum í París í gærkvöld. Rogers, sem er ríkjandi heimsmeistari í greininni, kastaði lengst 76,97 metra og dugði það til sigurs.

Enska knattspyrnufélagið West Ham United hefur styrkt karlalið sitt til muna með tveimur öflugum leikmönnum. Á mánudag var tilkynnt um kaup á þýska sóknarmanninum Niclas Füllkrug frá Borussia Dortmund. Greiddu Hamrarnir 27,5 milljónir punda fyrir Füllkrug, sem er 31 árs og skrifaði undir fjögurra ára samning. Guido Rodríguez, heimsmeistari með argentínska landsliðinu, skrifaði þá í gær undir tveggja ára samning við félagið. Hann er þrítugur varnartengiliður sem kom á frjálsri sölu frá spænska félaginu Real Betis.

Hjörtur Ingi Halldórsson, leikmaður karlaliðs HK í handknattleik, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið og leikur því áfram með liðinu í úrvalsdeildinni. Hjörtur Ingi, sem er 24 ára, gekk til liðs við HK frá Haukum sumarið 2020 og var markahæsti leikmaður liðsins í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili með 101 mark í 22 leikjum.

Leik HK og KR í 17. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld hefur verið frestað um sólarhring. Kórinn verður ekki tilbúinn til notkunar í kvöld vegna framkvæmda en hefur mótanefnd KSÍ fært leikinn til klukkan 19.15 annað kvöld.

Handknattleikskonan Sigrún Ása Ásgrímsdóttir varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné á æfingu í sumar og leikur því ekki með úrvalsdeildarliði ÍR á næsta tímabili. Sigrún Ása leikur í stöðu línumanns og var annar fyrirliða ÍR á síðasta tímabili. Hún skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við félagið í maí á þessu ári.

Knattspyrnumaðurinn Dagur Örn Fjeldsted er genginn til liðs við HK að láni frá Breiðabliki út yfirstandandi tímabil. Dagur Örn er 19 ára fjölhæfur sóknarmaður sem hefur komið við sögu í átta leikjum í Bestu deildinni með Breiðabliki á tímabilinu og skorað eitt mark. HK er í í 10. sæti deildarinnar með 14 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Fjórir leikmenn úr Bestu deild karla í knattspyrnu voru á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í gær úrskurðaðir í eins leiks bann vegna fjögurra áminninga. Það eru FH-ingarnir Jóhann Ægir Arnarsson og Ólafur Guðmundsson, fyrirliði Fylkis Ragnar Bragi Sveinsson og Ari Sigurpálsson hjá Víkingi úr Reykjavík. Landsliðskonan Berglind Rós Ágústsdóttir, fyrirliði Vals, var sömuleiðis úrskurðuð í eins leiks bann í Bestu deild kvenna vegna fjögurra áminninga.