Fróðlegt og skemmtilegt var að lesa upprifjun Björns Bjarnasonar um helgina á því, af hverju nýr forseti tekur við 1. ágúst og hvers vegna haldin er þjóðhátíð ár hvert um verslunarmannahelgina, en þá er þess minnst að fyrir 150 árum var lagður grunnur að stjórnarskránni sem enn gildir hér á landi

Fróðlegt og skemmtilegt var að lesa upprifjun Björns Bjarnasonar um helgina á því, af hverju nýr forseti tekur við 1. ágúst og hvers vegna haldin er þjóðhátíð ár hvert um verslunarmannahelgina, en þá er þess minnst að fyrir 150 árum var lagður grunnur að stjórnarskránni sem enn gildir hér á landi. Á Boðnarmiði dregur Ragnar S. Ragnarsson fram að á slíkum stundum sé farið yfir ráðlagða skammta í víndrykkju. Baldur Eiríksson frá Dvergsstöðum hafi ort um slíka iðju:

Þann sem ég veit veita

víst gist’ ég allþyrstur

hreifur ég skál skála

skírveigar stórteyga.

Meðan að gutl gutlar

galbrattur á smjatta.

Loksins ég full fullur

frá slaga þá dagar.

Syng ég á leiðum löngum

ljóð göfug hástöfum.

Geiglausum glóðaraugum

greitt renni til kvenna.

Hnotgjarn á hálum brautum

heim reika ókeikur.

Keyrist um koll í dyrum

kná sofa í borðstofu.

Það fylgir sögunni að kná sé sögnin knega sem á nútímamáli er að mega. Friðrik Steingrímsson yrkir um íslenska sumarið:

Veðráttan er viðsjál hér

varla nokkur glæta,

seint og illa sýnist mér

sumarið ætla að mæta.

Gunnar J. Straumland rifjar upp að gefnu tilefni nokkur skemmtileg „vindgangsorð“:

Bísingsvindur, barviðri,

bylur, túða, steglingur.

Höggpípa og hrakviðri,

hnattroka og derringur.

Stafurgola, steytingur,

stólpi, hregg og beljandi.

Þytur, gustur, þræsingur,

þeyr og hrök og sveljandi.

Blástur, gráð og belgingur,

blæsa, gjóstur, snerra.

Rimba, kul og rembingur,

rokbylur og sperra.

Ekkert ræði iðravind

né ólyktina sem ég fann

þó varla sé það váleg synd

að viðra í dag sinn innri mann.