”  Málið er nefnilega að þótt lög og reglugerðir tiltaki þær upplýsingar sem þurfa að vera í ársskýrslum, samfélagsskýrslum og kauphallartilkynningum er alls ekki svo að það sé tæmandi listi.

Samskipti

Sif Jóhannsdóttir

Rekstrarstjóri og ráðgjafi hjá AtonJL

Hugmyndin um að öllum vandamálum megi breyta í tækifæri ef maður bara horfir á þau réttum augum hefur verið orðuð á marga mismunandi vegu af fjölbreyttum hópi einstaklinga, raunverulegum og skálduðum. John Lennon á að hafa sagt „það eru engin vandamál, bara lausnir“ og varmennið Wilson Fisk í Daredevil-þáttunum orðaði það sem svo að „vandamál eru bara lausnir sem hafa ekki sýnt sitt rétta andlit ennþá“.

Eins og með allar klisjur er þessi hugmynd blanda af augljósum sannleik og mjög einfaldaðri sýn á heiminn. Auðvitað eru vandamál og tækifæri ekki samheiti, hvað þá vandamál og lausnir.

En það breytir því ekki að okkur mannfólkinu hættir mjög til að líta á vandamál sem eitthvað sem þarf að leysa og losa sig við, í stað þess að leita að tækifærinu. Það er því eitthvað í þessari klisju sem hægt er að nýta – við réttar aðstæður.

Fyrirtæki standa frammi fyrir mörgum og margvíslegum vandamálum, þar á meðal þegar kemur að samskiptum við svokallaða hagaðila. Það geta verið viðskiptavinir, fjárfestar, hluthafar, eftirlitsaðilar, stjórnvöld, almenningur, fjölmiðlar og „markaðurinn“. Upplýsingaflóðið sem dynur á þessum aðilum hefur aldrei verið meira og því verður sífellt erfiðara fyrir fyrirtæki að miðla nauðsynlegum upplýsingum til hagaðila.

Á sama tíma eru sífellt meiri kröfur gerðar til fyrirtækja um upplýsingagjöf og gagnsæi. Ársreikningar eru nú öllum aðgengilegir og auk ársskýrslna er gerð krafa til stærri fyrirtækja um að þau birti sjálfbærni- og samfélagsskýrslur. Þá er upplýsingaskyldan enn ríkari hjá skráðum fyrirtækjum, því þá bætast við árshlutauppgjör auk annarra tilkynninga sem senda þarf til birtingar í kauphöll.

Ein leið er að líta einfaldlega á þessa upplýsingaskyldu sem kvöð sem þarf að mæta á eins ódýran og einfaldan hátt og mögulegt er. Það er röng nálgun að mínu mati.

Lítum frekar á þetta þannig að á tímum þar sem sífellt er erfiðara að ná til fólks með venjulegum leiðum þá eru hópar, mikilvægir hagaðilar, sem krefjast upplýsinga frá okkur og – í tilviki kauphallartilkynninga – birta þær fyrir okkur! Tilkynningar til kauphallarinnar birtast ekki aðeins á vefsíðu hennar, heldur einnig á síðum sem birta fréttir þaðan eins og Keldunni. Þetta eru ókeypis birtingar og þótt lesendahópurinn sé ekki stór þá bæði vill hann þessar upplýsingar og þarf að kynna sér þær.

Þessi upplýsingaskylda er því ekki kvöð sem á að afgreiða, heldur verðmætt tækifæri til að miðla skilaboðum, stefnu og öðrum upplýsingum til mikilvægra hagaðila. Málið er nefnilega að þótt lög og reglugerðir tiltaki þær upplýsingar sem þurfa að vera í ársskýrslum, samfélagsskýrslum og kauphallartilkynningum er alls ekki svo að það sé tæmandi listi. Það má veita meiri upplýsingar, til dæmis um gildi, markmið og stefnu fyrirtækis í ákveðnum málaflokkum.

Tökum dæmi um matvælaframleiðanda sem sett hefur sér markmið um að ákveðið hlutfall framleiðslunnar skuli vera lífrænt og að minnka eigi losun gróðurhúsalofttegunda um helming á ákveðnum árafjölda. Upplýsingar um þessi markmið, þær leiðir sem farnar hafa verið til að ná þeim og hver árangurinn hefur verið hingað til eiga að sjálfsögðu heima í sjálfbærniskýrslu, en hver segir að þær megi ekki fylgja með í annarri lögbundinni upplýsingagjöf?

Þetta á sérstaklega við um upplýsingar sem tengjast ímynd og vörumerki fyrirtækja (því sem á vondri íslensku er kallað „brand“). Markmiðið er að öll samskipti fyrirtækis styðji kjarnaskilaboð þess og styrki ímynd þess í hugum hagaðila. Að nýta ekki öll tækifæri til slíkrar uppbyggingar er glapræði á tímum upplýsingaofgnóttar og -óreiðu.