S&P 500 hækkaði um 1,7% í gær.
S&P 500 hækkaði um 1,7% í gær. — AFP
Helstu hlutabréfavísitölur víða um heim hækkuðu í gær eftir talsverða lækkun daginn áður. Japanska Nikkei 225-vísitalan lækkaði um 12,4% á mánudag en það er ein mesta lækkun á verðbréfamörkuðum frá „Svarta mánudeginum” árið 1987

Helstu hlutabréfavísitölur víða um heim hækkuðu í gær eftir talsverða lækkun daginn áður. Japanska Nikkei 225-vísitalan lækkaði um 12,4% á mánudag en það er ein mesta lækkun á verðbréfamörkuðum frá „Svarta mánudeginum” árið 1987. Lækkunin á mörkuðum hrinti af stað keðjuverkandi áhrifum og allar helstu hlutabréfavísitölur víða um heim lækkuðu á mánudag.

Samkvæmt fréttaveitu Reuters eru helstu ástæðurnar fyrir því að markaðir jöfnuðu sig í gær þær að forsvarsmenn Seðlabanka Bandaríkjanna kváðu niður þann orðróm um að kreppa væri yfirvofandi. Þar að auki hækkuðu ýmis fyrirtæki á mörkuðum. Tæknifyrirtækið NVIDIA hækkaði mest en það hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu. Fyrirtækið hefur hækkað um meira en 200% það sem af er þessu ári.

S&P 500 vísitalan hækkaði um 1,7% í gær og fleiri hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hækkuðu. Einnig hækkuðu evrópskir markaðir en bæði FTSE 100 vísitalan í Bretlandi og DAX vísitalan í Þýskalandi hækkuðu. Á föstudag voru gefnar út tölur varðandi atvinnuleysi í Bandaríkjunum sem sýndu að atvinnuleysi jókst fjórða mánuðinn í röð og mælist nú 4,3%. Í frétt Financial Times kemur fram að ef atvinnuleysistölurnar í Bandaríkjunum eru ekki teknar með þá eru allir aðrir efnahagslegir mælikvarðar í Bandaríkjunum sterkir. Haft er eftir fyrrum hagfræðing í Hvíta húsinu að líkur á efnahagssamdrætti séu litlar eða að minnsta kosti sé ekki hægt að fullyrða það með vissu.

Markaðir í Asíu hækkuðu einnig í gær en Nikkei-vísitalan í Japan hækkaði hóflega um 1,2%. Vísitölur í Kína og Hong Kong hækkuðu einnig.