Flyback Chronograph úr stáli er gersemi í sérflokki.
Flyback Chronograph úr stáli er gersemi í sérflokki.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það virðist henda marga karla á miðjum aldri að þeir þróa með sér ósköp órökrétta þörf fyrir að eignast dýr og vönduð armbandsúr. Nokkur ár eru liðin síðan það byrjaði að votta fyrir úra-bakteríunni hjá mér sjálfum og jafnt og þétt hafa einkennin ágerst

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það virðist henda marga karla á miðjum aldri að þeir þróa með sér ósköp órökrétta þörf fyrir að eignast dýr og vönduð armbandsúr.

Nokkur ár eru liðin síðan það byrjaði að votta fyrir úra-bakteríunni hjá mér sjálfum og jafnt og þétt hafa einkennin ágerst. Ég hef þó stillt mig um það, hingað til, að fjárfesta í rándýru úri en ég afréð samt að kaupa mér einn billegan og klassískan Oris sem ég fann á mjög góðu útsöluverði og réttlætti kaupin með því að það væri vissara að athuga hvernig mér myndi líka að nota armbandsúr dagsdaglega, hafandi verið úrlaus maður í röskan áratug.

Undanfarin misseri hefur leitin að draumaúrinu orðið markvissari og hef ég dundað mér við að máta áhugaverð úr hér og þar. Ég gef mér nægan tíma, vil vanda mig við kaupin og liggur ekkert á, auk þess sem það á við um eftirsóttustu úrin að það er yfirleitt ekki í boði að valsa inn á búðargólfið með greiðslukort á lofti og ganga út með nýtt úr á úlnliðnum; maður þarf að skrá sig á biðlista og stundum vilja verslanirnar ekki leyfa hverjum sem er að fara á listann.

Leitin hefur verið lærdómsrík, og biðin sömuleiðis, því úrin sem mig langaði í fyrir einu ári eða tveimur vekja lítinn áhuga hjá mér í dag. Rímar það við góð ráð sem ég fékk frá íslenskum úrasafnara um að byrjendur ættu að forðast það að kaupa mjög dýr úr fyrstu árin eftir að þeir smitast af bakteríunni, því þeir geta reiknað með því að smekkur þeirra á úrum breytist eftir því sem þeir kafa dýpra ofan í þetta áhugamál.

Svo hef ég líka margoft upplifað að úr sem líta mjög vel út á mynd í auglýsingu eru ekki öll jafnhrífandi þegar maður sér þau með eigin augum. Kannski fellur birtan ekki nógu fallega á pússað yfirborðið og útskornar útlínurnar; kannski er liturinn á skífunni ekki jafndjúpur og leiftrandi og hann virtist í auglýsingum, eða að úrið reynist hreinlega of þykkt, og skífan of stór eða of lítil til að vera í góðu hlutfalli við höndina og úlnliðinn á mér. Mér til mikillar skelfingar uppgötvaði ég það síðan við búðarborðið hjá Patek Philippe að rándýrt rósagull fer mér best á meðan glansandi stál passar ekki við næpuhvíta íslenska húðtóninn.

Hakað í réttu boxin

En hvernig úr er það þá sem ég leita að í dag? Fyrir það fyrsta þarf úrið að vera tiltölulega dýrt og tiltölulega fágætt, enda tilgangurinn ekki síst að nota gripinn sem stöðutákn og sefja þannig kraumandi minnimáttarkennd sem leynist djúpt í sálartetrinu. Þarf engan sálfræðing til að útskýra það að í heimi karla á miðjum aldri þjóna armbandsúr ekki síst merkjasendingarhlutverki og eiga að sýna hver hefur náð að príla á hvaða stað í lífinu. Þess vegna má ekki vera of auðvelt að eignast úrið.

Hæfilega langur biðtími þýðir líka að meiri líkur eru á að úrið haldi betur virði sínu. Ef biðin er löng þýðir það að framboðið er minna en eftirspurnin og möguleiki á að ef aðstæður (eða smekkurinn) breytast og koma þarf úrinu aftur í verð þá megi selja það með tiltölulega litlum afföllum og jafnvel koma út á sléttu.

Úrið þarf líka að vera svolítið spes. Sum eftirsóttustu úrin hafa náð svo mikilli útbreiðslu að þau hafa misst sérstöðu sína. Þessu tengt þá má úrið heldur ekki hafa lent á radar úra-falsara, og það drepur hjá mér allan áhuga á spennandi úri að sjá vandaða fals-útgáfu af úrinu til sölu á götumarkaði í Bangkok eða Saígon. Því miður eru sumar falsanirnar orðnar svo góðar að það þarf sérfræðing og smásjá til að greina ekta frá óekta.

Þá vil ég úr sem er fjölhæft og ekki svo sportlegt að það henti ekki fyrir ferð í óperuna eða svo sparilegt að stingi í stúf í grillpartíi á ströndinni. Loks er ég orðinn fráhverfur úrum sem eru að flækja hlutina of mikið: ég vil ekki skífu sem er morandi í vísum og númerum eða gangverk sem gerir alls konar kúnstir sem ég hef engin not fyrir. Úrið þarf t.d. ekki að segja mér hvort úti er dagur eða nótt – það nægir mér að líta út um gluggann til að komast að því.

Ég held að leitinni sé loksins lokið, því nýverið heimsótti ég útibú H. Moser & Cie í Taípei og féll þar endanlega kylliflatur fyrir Streamliner-línunni.

Vandvirkni, húmor og frumleiki

Því meira sem ég fræðist um H. Moser, því hrifnari verð ég af þessu fyrirtæki og úrunum sem það framleiðir. Sagan nær aftur til ársins 1828 þegar Svisslendingurinn Heinrich Moser hóf rekstur í Sánkti Pétursborg og smíðaði þar vasaúr. Kommúnistarnir sölsuðu reksturinn undir sig í októberbyltingunni, en árið 2002 var merkið endurvakið af erfingjum Mosers gamla, í bænum Schaffhausen nyrst í Sviss og í þetta skiptið var áherslan á armbandsúr.

Eitt það skemmtilegasta við H. Moser er að þar á bæ stytta menn sér ekki leið og bæði hanna og smíða gangverkið sjálfir frá grunni, en samt er úrsmíðin ekki íhaldssöm og alvörugefin heldur leyfir fyrirtækið sér stundum að bregða á leik og jafnvel gera grín að öðrum svissneskum framleiðendum. Þannig kynnti H. Moser árið 2018 til sögunnar úr sem þeir kölluðu Swiss Icons Watch og blandaði saman sérkennum framleiðenda á borð við Hublot, Cartier, Rolex, Patek Philippe, Panerai og fleiri. Útkoman var bráðfyndið skrímsli og fyllilega verðskulduð gagnrýni á þá íhaldssemi og skort á frumleika sem stundum virðist plaga svissnesku risana.

Í svipuðum dúr var úrið Swiss Alp Watch en með því var hent grín að snjallúravæðingunni, og Swiss Mad úrið sem smíðað var úr svissneskum osti, með ól úr leðri sem fengið var beint af svissneskri mjólkurkú. Var það gert sem skörp ádeila á reglur svissneskra úraframleiðenda um hvaða úr má merkja „Swiss Made“.

H. Moser gerir hefðbundin armbandsúr, en það eru Streamliner-sportúrin sem bera af. Er vissara að játa strax að það fallegasta við Streamliner-úrin er keðjan sem hefur einstaka áferð og minnir helst á uggana á hákarli. Það er töfrum líkast hvernig keðjan er í senn þétt og nett og vefst utan um úlnliðinn eins og snákur.

Skífan og öll umgjörðin hefur á sér yfirbragð sem minnir á úrahönnun 7. og 8. áratugarins: línurnar eru samfelldar og mjúkar og ekki verið að fylla skífuna af upplýsingum. Þannig sleppir H. Moser oft að merkja vísana með tölum og meira að segja H. Moser-áletrunin er nærri ósýnileg eða henni jafnvel sleppt með öllu, en hugsunin er sú að úrið í heild sinni sé svo sérstakt og auðþekkjanlegt að það þurfi ekki að skrifa á skífuna hver framleiðandinn er.

Kom það mér á óvart að í búðinni í Taípei var mér sagt að biðtíminn væri ekki nema um það bil hálft ár, en H. Moser framleiðir samt aðeins 3.000 úr á ári sem er bara brotabrot af því sem þekktustu merkin dæla út á markaðinn. Þá var það ekkert tiltökumál að setja mig á biðlistann, ef ég vildi.

Því miður er þess nokkuð langt að bíða að mér takist að spara mér fyrir Streamliner. Ódýrasta týpan kostar jafnvirði 3,5 milljóna króna en ég er spenntastur fyrir „Perpetual Calendar“-útgáfunni sem kostar sirkabát 8 milljónir króna og væri þá lítið eftir til að eiga fyrir kampavíns- og kavíarútgjöldum heimilisins.