Sigríður G. Jósteinsdóttir fæddist í Birgisvík í Árneshreppi í Strandasýslu 2. október 1935. Hún lést á heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hólmavík 29. júlí 2024.

Foreldrar Sigríðar voru hjónin Jón Jósteinn Guðmundur Guðmundsson frá Birgisvík og Sumarlína Margrét Kristjánsdóttir frá Veiðileysu. Systkini Sigríðar eru: Svanlaug Una Jóhanna, f. 1930, d. 1979, Kristinn Páll Kristberg, f. 1932, d. 2010, Lára, f.1934, d. 2017, Kristján, f. 1936, d. 1953, Fanney, f. 1939, d. 2012, Rósa, f. 1942, Guðmundur, f. 1943, d. 1943, Sigrún Guðmunda, f. 1944, Elsa, f. 1946, Sóley, f. 1949, Guðrún, f. 1952, Kristín, f. 1954, Lilja, f. 1959, Guðmundur Reynir, f. 1960.

Eiginmaður Sigríðar var Guðmundur Björnsson, f. 18. júlí 1931 á Kleppustöðum. Foreldrar hans voru hjónin Björn Sigurðsson og Elín Sigurðardóttir. Sigríður og Guðmundur gengu í hjónaband hinn 13. janúar 1957. Þau hófu búskap á Stakkanesi í Stengrímsfirði og bjuggu þar til ársins 1978 er þau fluttu til Hólmavíkur.

Börn þeirra eru: 1) Kristján, f. 1956, kona hans er Guðrún Eggertsdóttir. Þau eiga fjögur börn og tíu barnabörn. 2) Jósteinn Gunnar, f. 1958, kona hans er Sigrún María Kolbeinsdóttir. Þau eiga fjögur börn og átta barnabörn. 3) Haraldur, f. 1959. 4) Sigurður Björn, f. 1961, kona hans er Kristín Guðmundsdóttir. Þau eiga fjóra syni og tvö barnabörn. 5) Margrét, f. 1963. Hún á einn son og þrjú barnabörn, eitt á lífi. 6) Elín, f. 1964, d. 3. apríl 1983. 7) Guðbjörg Ásgeirs, f. 1967, maður hennar er Hjalti Dagsson. Þau eiga þrjár dætur og tvö barnabörn.

Sigríður var húsmóðir á Stakkanesi til 1978 og eftir það á Hólmavík og síðasta árið árið dvaldi hún á heilbrigðisstofnun Hólmavíkur.

Útför Sigríðar fer fram frá Hólmavíkurkirkju í dag, 7. ágúst 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku amma, þá er komið að kveðjustund. Nú ertu farin í sumarlandið. Ég veit að afi og Ella taka vel á móti þér. Ég ólst upp á Hólmavík og var mjög mikið hjá ykkur afa. Þú varst mikill föndrari og þegar ég var yngri varstu á fullu að taulita og oft fékk ég að taulita með þér bæði dúka og sængurver. Sem krakki fannst mér ég vera komin í hálfgert jólaland á Höfðagötunni, þar sem loftið var fullt af hangandi jólaskrauti og allir jóladúkarnir sem þú taulitaðir voru á öllum borðum. Það var hefð fyrir því að allir kæmu saman á gamlárs á Höfðagötunni, tengdadætur þínar hjálpuðu til við eldamennskuna meðan synir þínir fóru með okkur krakkana á brennuna. Þú gast nú verið svolítið ýkt í sumu, eins og að baka fyrir jólin, þá var ekki nóg að hafa nokkrar sortir, heldur drekkhlaðið borð af smákökum, bóndakökur, mömmukökur, hálfmána, vanilluhringi og hvað það var sem hinar hétu. Oft voru líka til smákökur fram að vori, hehe. Ég held ég geti fullyrt að ekkert af barnabörnunum þínum hafi komið í heimsókn án þess að fá djúsklaka, þeir voru reyndar líka til heima en það var bara ekki það sama. Það var bara eitthvað miklu meira sport að fá hjá þér, enda endaði það með að allir voru búnir að fara með klakaformin til þín. Þú áttir alltaf til harðfisk og það var algjört spari að fá harðfisk hjá ykkur. Oft kom ég til þín að hjálpa þér að baka kleinur og flatkökur. Á haustin fórstu alltaf á berjamó og oft fékk ég að fljóta með, þá skutlaði afi okkur á kúlusúkknum. Við gátum svo verið allan daginn að tína, þar sem þú varst alltaf með nesti, reyndar borðuðum við líka aðalbláberin. Þú þurftir alltaf að vera að gera eitthvað, svo sem prjóna sokka/vettlinga, lesa bækur (ég held án gríns að þú hafir átt allar bækurnar í rauðu seríunni). Eða hlusta á kántrí og leggja kapal með plastspilunum þínum. Ég hugsa alltaf til þín þegar ég legg kapal. Já, ég á fjölmargar góðar minningar með þér. Eftir að ég flutti suður þá kom ég sjaldnar (enda aðeins lengra að fara) og ef þér fannst vera of langt síðan ég kom í heimsókn, þá heyrðist í þér „sjaldséðir hvítir hrafnar“. Það voru forréttindi að fá að hafa fengið þennan tíma og enn meiri að börnin mín og maki hafi fengið að kynnast þér. Enda hafa þau verið spurð af vinum sínum „áttu langömmu á lífi, vá hvað er merkilegt“. Já það eru ekki allir svo heppnir. Ég gæti haldið haldið endalaust áfram að telja upp minningar sem við eigum en ég læt þetta gott heita og kveð þig með söknuði.

Þín nafna og ömmustelpa,

Sigríður Ella (Sissa).