Sigurbjörg Unnur Þengilsdóttir húsmóðir fæddist í Skeggjabrekku í Ólafsfirði 30. apríl 1936. Hún lést á Hornbrekku í Ólafsfirði 20. júlí 2024.

Sigurbjörg var dóttir hjónana Ólafar Jóhannesdóttur og Þengils Jónssonar. Hálfbróðir hennar samfeðra var Guðmundur Þengilsson (látinn) kvæntur 9. ágúst 1952 Hugljúfu Dagbjartsdóttur. Bræður hennar eru Jóhannes Hólm Þengilsson kvæntur 11. febrúar 1967 Seselíu Maríu Gunnarsdóttur. Jón Marteinn Þengilsson kvæntur 30. maí 1971 Erlu Vilhjálmsdóttur.

Sigurbjörg giftist 28. mars 1959 Stefáni G. Ásberg, d. 14. apríl. 2019. Börn þeirra eru: Steinunn Stefánsdóttir, gift 20. maí 1982 Sigurði Inga Bjarnasyni dætur þeirra eru Vilborg og Karen. Ólöf Kristín Stefándóttir, gift 30. maí 2020 Páli Hallfreði Árdal synir þeirra eru Stefán Páll og Ólafur Páll. Þengill Stefán Stefánsson, kvæntur 23. september 1994 Hrönn Friðfinnsdóttur börn þeirra eru Stefán Þór, Íris og Sigurbjörg Brynja. Tryggvi Marteinn Stefánsson í sambúð með Áslaugu Ragnhildardóttur. Fyrrum sambýliskona Tryggva var Sigurbjörg Vigfúsdóttir dætur þeirrra eru Dagbjört Rut og Hildur Diljá. Marta Stefánsdóttir í sambúð með Frey Björgvinssyni. Fyrrum eiginmaður Mörtu var Birkir Hólm Guðnason synir þeirra eru Viktor Már og Jason Máni. Langömmubörnin eru orðin átta talsins.

Sigurbjörg og Stefán byrjuðu sinn búskap í Ólafsfirði en keyptu síðan jörðina Þóroddsstaði í Ólafsfirði og bjuggu þar í 44 ár en fluttu síðan að Túngötu 11 á Ólafsfirði. Sigurbjörg hafði mjög gaman af söng og söng bæði með kirkjukórnum og kór eldri borgara á Ólafsfirði.

Jarðarför hennar fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 7. ágúst 2024, klukkan 14.

Elsku besta mamma mín hefur kvatt þennan heim og þetta líf. Ég trúi svo innilega á eitthvað meira og stærra en bara þetta líf og það hjálpar mér mikið í sorginni, söknuðinum og tómleikanum sem er innra með mér. Að trúa því að nú séu foreldrar mínir sameinaðir á ný, eftir nokkurra ára aðskilnað, huggar mig. Ég er þakklát fyrir langlífi þeirra beggja. Að ná tæpum 90 árum er ekki sjálfgefið.

Mamma ólst upp í Skeggjabrekku í Ólafsfirði og síðar fluttu foreldrar mínir í Þóroddsstaði þar sem þau bjuggu í 44 ár. Mamma unni sveitalífinu vel og var hún á árum áður iðin með hrífuna á túnunum og elskaði að raka heyjið í góða veðrinu. Henni fannst gaman og gott að komast í berjamó í sveitinni og sneri hún ekki til baka fyrr en öll ílát voru orðin full.

Mamma gerði klárlega bestu pönnukökurnar, hafragrautinn og grjónagrautinn. Stóru gersnúðarnir voru einnig í uppáhaldi og minnist ég þess er gesti bar að garði að þá var farið í kistuna til að hita snúða í ofninum og fékk ég að gera krem á þá og þeyttur var rjómi með. Bragðið var eins og af bestu rjómabollum. Gaman fannst mér einnig að aðstoða móður mína við jólabaksturinn. Að taka á móti lengjunum úr gömlu hakkavélinni og leggja á borðið fyrir framan og móta í alls kyns jólasmákökur. Minnist ég þess einnig í desember þegar nálgaðist jólin, að leggjast upp í rúm á kvöldin og þá var mamma enn að stússast í eldhúsinu og ilmurinn maður minn! Um morguninn þegar ég fór fram var mamma komin aftur á ról í eldhúsinu, eins og hún hefði ekki farið að sofa og verið að alla nóttina.

Móður minni þótti afskaplega gaman að fá fólkið sitt í heimsókn, hvort sem var í sveitina fögru á Þóroddsstaði eða í Túngötuna, og var hún ekki lengi að fylla borðið af alls kyns kræsingum sem runnu ljúflega niður. Oft í seinni tíð voru oftar en ekki bakaðar vöfflur eða dýrindispönnukökur og jafnvel tínd með á borðið kaka sem hún hafði unnið í bingói með eldri borgurum.

Þegar ég heyrði í mömmu í síma sagði hún vanalega allt ágætt, hún var nú ekki mikið að kvarta yfir hlutunum eða kveinka sér. Hún hló og sagði sögur og var vel með á nótunum fram á síðustu stundu. Hún bjó heima þar til einungis um 1½ mánuði fyrir andlát er hún kvaddi þetta líf í faðmi stórfjölskyldunnar á Hornbrekku í Ólafsfirði, til móts við æskuheimili sitt, Skeggjabrekku.

Þín er og verður sárt saknað elsku mamma. Ég trúi því og treysti að nú séuð þið pabbi í góðu yfirlæti sameinuð á ný og að þið vakið yfir okkur stórfjölskyldunni. Takk fyrir allt og allt elsku besta mamma mín.

Elska þig og sakna þín.

Þín dóttir,

Marta.

Elsku tengdó.

Þakklæti fyrir öll árin sem við áttum saman. Áttum við góðar spjallstundir þegar við hittumst og varst þú ávallt velkomin bæði í heimsókn og gistingu til okkar. Þú tókst alltaf vel á móti okkur þegar við komum í heimsókn með kökum, kræsingum og góðu uppáhelltu kaffi. Alltaf þótti þér gaman þegar við tókum sveitarúnt, hvort sem var á Kleifarnar, að Reykjarétt eða á æskuslóðir þínar að Skeggjabrekku. Vænt þótti mér um þegar Marta kom með þig að réttinni við Ólafsfjörð eftir göngur í fyrra. Gott var að koma til þín, fá kaffi, setjast í rauða sófann og slaka á.

Elsku Lilla, takk fyrir allt.

Þinn tengdasonur,

Freyr.

Okkur langar að tala um hvað hún elskulega amma okkar var yndisleg og góð amma í alla staði og hvað hún var alltaf dugleg að taka á móti gestum og hún tók okkur alltaf opnum örmum. Það fór aldrei neinn svangur heim frá ömmu.

Það var gaman, alltaf, hjá ömmu og afa. Hún leyfði okkur oft að gista og þegar við vöknuðum á morgnana var amma komin á fætur og búin að elda hafragraut strax í morgunsárið.

Það var alltaf gott að koma til ömmu Lillu. Amma var hugulsöm, hún gerði bestu pönnukökur, allra besta hafragraut og hún gerði uppáhaldsgraut allra barna, mjókurgraut, þann besta sem við höfum fengið.

Þegar t.d var verið var að keppa í fótbolta þá gerðu amma og afi okkur að hálfgerðum atvinnumönnum, þau borguðu okkur fyrir hvert mark sem var skorað og komum við oft með dágóðan pening eftir mót. Afi talaði oft um í gríni að við værum bara eins og atvinnumenn.

Pabbi veiktist 2008 og var amma að sjá um okkur á meðan pabbi og mamma voru fjarverandi, þurftu að fara til útlanda vegna veikinda. Við vorum varla varir við að mömmu og pabba vantaði þar sem okkur fannst þetta bara vera lúxustími, við að horfa á barnaefnið í sjónvarpinu og fara á fótboltaæfingar og amma að elda ofan í okkur dýrindispönnukökur í öll mál, eða svona tæplega, og já, amma var að stjana við okkur og þetta var bara þvílíkt gaman. Gott var að sofa í stofusófanum hjá ömmu.

Minningin lifir um góða ömmu og afa.

Stefán Páll og Ólafur Páll.