Úlfarsárdalur Djenairo Daniels og Daníel Laxdal eigast við í leik Fram og Stjörnunnar þar sem Daniels skoraði sitt fyrsta mark fyrir Fram.
Úlfarsárdalur Djenairo Daniels og Daníel Laxdal eigast við í leik Fram og Stjörnunnar þar sem Daniels skoraði sitt fyrsta mark fyrir Fram. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ófarir Vals héldu áfram þegar KA hafði betur, 1:0, í leik liðanna í 17. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Akureyri í gærkvöldi. Valur hefur nú tapað þremur af síðustu fjórum deildarleikjum sínum og heldur kyrru fyrir í þriðja sæti þar sem liðið er með 28 stig

Besta deildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Ófarir Vals héldu áfram þegar KA hafði betur, 1:0, í leik liðanna í 17. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Akureyri í gærkvöldi.

Valur hefur nú tapað þremur af síðustu fjórum deildarleikjum sínum og heldur kyrru fyrir í þriðja sæti þar sem liðið er með 28 stig.

Gott gengi KA heldur hins vegar áfram, sem er í áttunda sæti með 22 stig og fallbaráttan orðin fjarlæg minning. Akureyringar eru taplausir í síðustu sjö deildarleikjum sínum, þar af eru fimm sigurleikir.

Viðar Örn Kjartansson reyndist hetja KA þegar hann stýrði misheppnuðu skoti Daníels Hafsteinssonar fyrir utan vítateig í netið af stuttu færi skömmu áður en flautað var til leikhlés.

Viðar Örn hefur nú skorað í tveimur deildarleikjum í röð, sem eru hans fyrstu mörk fyrir KA.

Frederik Schram, markvörður Vals, fékk beint rautt spjald eftir tæplega klukkutíma leik þegar hann felldi Viðar Örn rétt utan vítateigs og rændi hann þannig upplögðu marktækifæri.

Markvörðurinn Ögmundur Kristinsson, sem samdi nýverið við Val, kom inn á sem varamaður af þeim sökum og lék sinn fyrsta leik fyrir liðið.

Fram í harðri Evrópubaráttu

Fram vann dramatískan sigur á Stjörnunni, 2:1, í Úlfarsárdal þar sem sigurmarkið kom á lokamínútunni.

Með sigrinum styrkti Fram stöðu sína í baráttunni um Evrópusæti en Framarar eru í fimmta sæti með 26 stig, tveimur stigum á eftir FH og Val í sætunum fyrir ofan.

Stjarnan heldur kyrru fyrir í sjöunda sæti þar sem liðið er með 23 stig.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Hollendingurinn Djenairo Daniels Frömurum í forystu með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf Más Ægissonar frá hægri.

Var þetta fyrsta mark Daniels fyrir Fram í öðrum leiknum og fyrsta byrjunarliðsleiknum.

Örvar Eggertsson jafnaði metin fyrir með glæsilegu skoti vinstra megin úr vítateignum sem fór upp í samskeytin fjær eftir góðan undirbúning Róberts Frosta Þorkelssonar. Örvar hefur skorað fimm mörk í deildinni fyrir Stjörnuna á tímabilinu.

Magnús Þórðarson skoraði svo sigurmark Fram á 90. mínútu þegar Fred Saraiva tók snögga aukaspyrnu með jörðinni, fann þar Magnús einan hægra megin í teignum og hann skoraði með skoti niður í fjærhornið.

Auðvelt hjá Blikum

Loks lenti Breiðablik ekki í neinum vandræðum með Fylki og vann þægilegan 3:0-sigur á Kópavogsvelli.

Breiðablik styrkti stöðu sína í öðru sæti deildarinnar með sigrinum þar sem liðið er nú með 33 stig, sex stigum á eftir toppliði Víkings úr Reykjavík en á auk þess leik til góða.

Fylkir er sem fyrr í 11. sæti, fallsæti, með 12 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.

Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson kom Blikum í forystu með marki úr vítaspyrnu eftir rúmlega hálftíma leik. Vítaspyrnan var dæmd eftir að Ísak Snær Þorvaldsson steig Orra Svein Segatta út innan vítateigs og féll við.

Í upphafi síðari hálfleiks tvöfaldaði Viktor Örn Margeirsson forystuna þegar boltinn barst til hans í kjölfar stuttrar hornspyrnu og miðvörðurinn afgreiddi boltann laglega í hornið af stuttu færi.

Um miðjan síðari hálfleik skoraði Höskuldur aftur úr vítaspyrnu og innsiglaði sigurinn, hans sjötta deildarmark í sumar. Aftur krækti Ísak Snær í vítaspyrnuna er fyrirliðinn Ásgeir Eyþórsson braut á honum.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson