Fimm Kúbverski glímukappinn Mijaín López er engum líkur.
Fimm Kúbverski glímukappinn Mijaín López er engum líkur. — AFP/Punit Paranjpe
Kúbverski glímukappinn Mijaín López skráði sig í sögubækurnar þegar hann vann sitt fimmta ólympíugull í 120/130 kg flokki í grísk-rómverskri glímu á Ólympíuleikunum í París í gærkvöld. López, sem er 41 árs, hefur hrósað sigri í sínum þyngdarflokki í …

Kúbverski glímukappinn Mijaín López skráði sig í sögubækurnar þegar hann vann sitt fimmta ólympíugull í 120/130 kg flokki í grísk-rómverskri glímu á Ólympíuleikunum í París í gærkvöld.

López, sem er 41 árs, hefur hrósað sigri í sínum þyngdarflokki í greininni á fimm leikum í röð eða allt frá því í Peking í Kína árið 2008. Því hefur enginn áður áorkað. Í gærkvöld mætti hann Yasmani Acosta frá Síle í úrslitaeinvíginu og hafði auðveldlega betur, 5:0.

Winfred Yavi, kenísk hlaupakona sem keppir fyrir hönd Barein, tryggði sér ólympíugull í 3.000 metra hindrunarhlaupi með glæsibrag þegar hún bætti ólympíumetið í greininni um rúmlega sex sekúndur.

Yavi kom í mark á 8:52,76 mínútum en fyrra ólympíumetið átti hin rússneska Gulnara Samitova-Galkina frá því í Peking árið 2008, 8:58,81 mínútur.

Bandaríkjamaðurinn Cole Hocker kom fyrstur í mark í 1.500 metra hlaupi karla og sló um leið ólympíumet Norðmannsins Jakobs Ingebrigtsen, sem komst ansi óvænt ekki á verðlaunapall.

Hocker hljóp á 3:27,65 mínútum sem dugði, og gott betur, til þess að slá metið og tryggja sitt fyrsta ólympíugull. Met Ingebrigtsens frá leikunum í Tókýó árið 2021 var 3:28,32 mínútur og varð hann fjórði í gærkvöld.

Hin bandaríska Gabrielle Thomas vann ólympíugull í 200 metra hlaupi kvenna er hún hljóp á 21,83 sekúndum. Julien Alfred frá Sankti Lúsíu, sem vann í 100 metrum, varð önnur á 22,08 sekúndum.